Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Áfangaskýrsla um staðgöngumæðrun lögð fram

Vinnuhópur sem skipaður var til að skoða siðfræðileg, lögfræðileg og læknisfræðileg álitaefni varðandi staðgöngumæðrun hefur skilað áfangaskýrslu til heilbrigðisráðherra. Vonast er til að skýrslan geti orðið grunnur almennrar upplýstrar umræðu um málið áður en afstaða verður tekin til þess hvort staðgöngumæðrun skuli leyfð hér á landi.


Staðgöngumæðrun, sem er bönnuð samkvæmt íslenskum lögum, felur í sér að kona gengur með barn fyrir verðandi foreldra eða foreldri og hefur fallist á að afhenda þeim barnið eftir fæðingu.

Það var þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, sem skipaði vinnuhópinn í lok janúar 2009 en í honum voru Guðríður Þorsteinsdóttir sviðsstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, Kristján Oddsson þáv. aðstoðarlandlæknir og Ástríður Stefánsdóttir dósent við Háskóla Íslands.

Vinnuhópurinn aflaði ýmissa gagna og upplýsinga um staðgöngumæðrun og leitaði eftir sjónarmiðum þeirra sem eiga hagsmuna að gæta og aðila sem hafa þekkingu og reynslu á þessu sviði. Í skýrslunni er gerð grein fyrir læknisfræðilegum og siðfræðilegum álitaefnum og fjallað um lagalega stöðu málsins hér landi og í ýmsum öðrum löndum.

Í áfangaskýrslu vinnuhópsins er ekki tekin afstaða til þess hvort leyfa skuli staðgöngumæðrun hér á landi eða ekki, heldur er vonast til þess að skýrslan geti orðið grundvöllur upplýstrar umræðu um málið. Boðað verður til opins fundar í marsmánuði n.k. til að ræða hvort heimila beri staðgöngumæðrun hér á landi og þá með hvaða skilyrðum. 

 

Áfangaskýrsla vinnuhóps heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun (5. febrúar 2010)
(pdf  375 KB - Opnast í nýjum glugga)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum