Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2010 Heilbrigðisráðuneytið

112 svarar fyrir heilbrigðisstofnanir á Vesturlandi

Samið hefur verið við Neyðarlínuna um að starfrækja eitt sameiginlegt þjónustusíma-númer, 112, fyrir allar heilbrigðisstofnanir á Vesturlandi. Nýtt fyrirkomulag símsvörunar tók gildi í gær, mánudaginn 15. febrúar. Um er að ræða tilraunaverkefni á vegum heilbrigðisráðuneytisins sem standa mun í sex mánuði. Ákveðið var að ráðast í þessa tilraun í framhaldi af því að heilbrigðisstofnanir í Heilbrigðisumdæmi Vesturlandi voru sameinaðar í eina stofnun, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, þann 1. janúar síðast liðinn.

Neyðarlínan mun svara og bregðast við öllum erindum sem berast allan sólarhringinn, hvort sem hringt er beint í Neyðarlínuna í síma 112, eða í vaktsíma heilbrigðisstofnana í Heilbrigðisumdæmi Vesturlands. Símar og skiptiborð heilbrigðisstofnana verða að öðru leyti opnir á dagvinnutíma og á öðrum auglýstum opnunartímum.

Sérþjálfaðir starfsmenn Neyðarlínunnar munu svara umræddum símtölum, greina erindin og senda áfram beiðnir um samband við lækni til vakthafandi læknis á hverjum stað. Sé aðeins verið að leita almennra upplýsinga munu starfsmenn Neyðarlínunnar leiðbeina og veita upplýsingar um hvert fólk skuli snúa sér til að fá úrlausn sinna mála.

Tilgangur verkefnisins er að tryggja að allir íbúar á svæði Heilbrigðisstofnunar Vesturlands eigi greiðan aðgang að læknisþjónustu í bráðatilvikum, allan sólarhringinn, alla daga ársins. Ennfremur að einfalda aðgang að bráðaþjónustu þannig að hægt verði að nálgast hana með hringingu í eitt og sama símanúmer, 112, hvert sem tilefnið er og hvar sem er innan þjónustusvæðis heilbrigðisstofnunarinnar. Þá er einnig gert ráð fyrir að hægt verði að bæta skráningu samskipta við heilbrigðisstofnanir á Vesturlandi.

Á tilraunatímanum verða gerðar reglulegar athuganir eða úttektir á verkefninu og mun heilbrigðisráðuneytið fylgjast náið með framvindu þess allan tímann. Niðurstöður verkefnisins verða síðan lagðar til grundvallar þegar teknar verða ákvarðanir um framhaldið, hvort sem um verður að ræða frekari uppbyggingu þessa fyrirkomulags eða að leitað verður annarra lausna.

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum