Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Fimm hönnunarteymi taka þátt í samkeppni um nýjan Landspítala

Nú er ljóst að yfir 700 íslenskir sérfræðingar á byggingarsviði og flestar stærstu arkitekta- og verkfræðistofur landsins munu taka þátt í hönnunarsamkeppni nýs Landspítala við Hringbraut. Tilkynnt var um niðurstöður forvals samkeppninnar á kynningarfundi sem verkefnisstjórn nýs Landspítala efndi til í dag að viðstöddum heilbrigðisráðherra Álfheiði Ingadóttur.


Alls bárust sjö umsóknir um þátttöku í forvali hönnunarsamkeppninnar og uppfylltu sex teymi tilskyldar hæfniskröfur. Fimm stigahæstu teymunum verður nú boðið að taka þátt í hönnunarsamkeppninni en ábyrgðaraðilar þeirra eru Mannvit hf., Almenna verkfræðistofan hf., TBLarkitektar ehf., Verkís hf. og Efla hf. Fjögur fyrstnefndu teymin hlutu fullt hús stiga í hæfismatinu, 180 stig, og fimmta teymið hlaut 160 stig en lágmarksstigafjöldi teymis til að teljast hæft var 135 stig.

Forvalsnefndin mat hæfi umsækjendanna samkvæmt þeim skilyrðum sem sett voru fram í forvalsgögnunum og er það niðurstaða hennar að öll teymin fimm uppfylli mjög vel þær kröfur sem gerðar eru um starfsreynslu við hönnun stórra og meðalstórra bygginga, reynslu af stjórnun, háskólamenntun, vottað gæðakerfi, árangur í samkeppnum og fleira.

Skilafrestur í júní og úrslit í júlí 2010

Keppnislýsing hönnunarsamkeppninnar verður tilbúin 5. mars næstkomandi en skilafrestur er í byrjun júní 2010 og eiga úrslit að liggja fyrir mánuði seinna, eða í byrjun júlímánaðar.

Meginforsenda hönnunarsamkeppninnar er að ljúka sameiningu stóru spítalanna á höfuðborgarsvæðinu þannig að starfsemi Landspítala í Fossvogi flytji á Hringbraut. Samkeppnin er tvíþætt og tekur annars vegar til áfangaskipts skipulags lóðar Landspítala við Hringbraut í heild og hins vegar til útfærslu á fyrsta áfanga þess sem er spítalastarfsemi í 66 þúsund fermetra nýbyggingu sem skiptist í þrjá meginhluta:

  • Bráðakjarna með bráðamóttöku, myndgreiningu, gjörgæslu, skurðstofum og rannsóknarstofum.
  • Legudeildir með 180 rúmum sem öll eru í einbýli.
  • Sjúklingahótel með 80 herbergjum.

Við mat á innsendum lausnum verður m.a. litið til arkitektúrs, ytra- og innra skipulags, áfangaskiptingar, sveigjanleika, tækni og tæknikerfa, umhverfissjónarmiða, byggingarkostnaðar, rekstrarkostnaðar bygginga og heildarhagkvæmni starfseminnar. Er ráðgert að sá þáttur vegi 80-90% af heildareinkunn en tilboð í hönnunarþóknun vegi 10-20%.

Gert er ráð fyrir að það teymi sem verður hlutskarpast í samkeppninni vinni að hönnun verkefnisins fram að einkaframkvæmdarútboði en starfi að því loknu við verkefnisstjórn og hönnunarrýni með verkkaupa. Hvert teymi sem skilar inn tillögu sem uppfyllir skilyrði keppnislýsingar og tekið er til dóms í hönnunarsamkeppninni fær greiddar 15 milljónir króna, án virðisaukaskatts, fyrir vinnu sína við tillögugerðina í samkeppninni. Áætlaður kostnaður við nýbyggingu Landspítalans er um 33 milljarðar króna á verðlagi í mars 2009. Vonir standa til að framkvæmdir við hana geti hafist á síðari hluta árs 2011 og er áætlað að þær standi fram á árið 2016.

Álfheiður Ingadóttir og Gunnar Svavarsson

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra ávarpar fundinn, en með henni á myndinni er Gunnar Svavarsson formaður verkefnisstjórnar Nýs Landspítala.      

Fjölmenni mætti til að fylgjast með þegar tilkynnt var hvaða fimm teymi voru valin til þátttöku í forvalinu Það var fjölmennur hópur sem mætti til að fylgjast með þegar tilkynnt var hvaða 5 teymi voru valin til þátttöku í forvalinu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum