Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 167/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 11. apríl 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 167/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19030028

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. mars 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Íraks (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. mars 2019, um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að hann haldi þeirri alþjóðlegu vernd sem honum var veitt hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæra fyrir lok kærufrests.

II.                  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 27. janúar 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. júlí 2017, var kæranda veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með bréfi Útlendingastofnunar til kæranda, dags. 10. október 2018, var kæranda tilkynnt um hugsanlega afturköllun alþjóðlegrar verndar. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun vegna málsins þann 26. október 2018. Þann 11. mars 2019 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 12. mars 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 29. mars 2019 ásamt fylgigagni. Þá bárust viðbótarathugasemdir og gögn frá kæranda þann 8. apríl sl.

III.                Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi fengið afhent íslenskt ferðaskilríki þann 21. ágúst 2017. Þann 2. maí 2018 hafi stofnuninni borist upplýsingar frá stoðdeild lögreglunnar þess efnis að kærandi hafi ferðast til Írak og dvalið þar í um átta mánuði. Hafi upplýsingarnar borist lögreglu frá norsku landamæralögreglunni, en kærandi hafi ferðast um Gardemoen flugvöll í Osló í september 2017 og apríl 2018. Með upplýsingum frá norsku landamæralögreglunni hafi borist myndir teknar úr íslensku ferðaskilríki kæranda sem sýni fram á stimpil frá landamæralögreglu á Al-Sulaymaniyah-flugvellinum í Kúrdistan, dags. 5. september 2017. Þá hafi að auki verið stimpill frá landamæralögreglu á flugvellinum í Erbil í Írak sem sýni fram á að kærandi hafi yfirgefið landið þann 22. apríl 2018. Kemur fram að í júlí 2018 hafi kærandi lagt fram umsókn um nýtt ferðaskilríki, en hann kvað eldra skilríki hafa farið í þvottavél. Kærandi hafi skilað inn eldra ferðaskilríki en við skoðun á því hafi komið í ljós að í það vantaði blaðsíður sem höfðu innihaldið ofangreinda stimpla frá landamæralögreglu í Noregi og Írak auk síðu sem greindi að skilríkið gilti til allra landa nema Íraks. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði dvalið í Írak frá 5. september 2017 til 22. apríl 2018 og að hann hefði reynt að hylja yfir ferðalag sitt með því að rífa blaðsíður úr íslensku ferðaskilríki sínu.

Í ákvörðuninni var rakið ákvæði a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að afturkalla veitingu alþjóðlegar verndar ef flóttamaður hefur sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns. Vísaði Útlendingastofnun til þess að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hafi verið reist á því að hann hafi sætt ofsóknum af hálfu föðurfjölskyldu sinnar vegna trúar sinnar, en hann hafi skipt um trú árið 2013. Hafi Útlendingastofnun veitt kæranda alþjóðlega vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að samkvæmt síðastnefndu ákvæði sé lagt til grundvallar að umsækjandi um alþjóðlega vernd verði að hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir til að teljast flóttamaður og að hann þurfi á vernd annars ríkis að halda þar sem slík vernd sé ekki til staðar í heimaríki. Var það mat Útlendingastofnunar að með framangreindri dvöl í heimaríki hafi kærandi sýnt fram á að hann hafi ekki ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur eða að hann eigi á hættu meðferð sem jafnað verði til ofsókna. Í ljósi framangreinds var það niðurstaða stofnunarinnar að afturkalla alþjóðlega vernd kæranda með vísan til a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga.

Í samræmi við ákvæði 4. mgr. 48. gr. sömu laga tók Útlendingastofnunar til skoðunar hvort veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Taldi Útlendingastofnun, með vísan til skýrslna um ástandið í heimaríki kæranda, að það svæði sem kærandi hefði verið búsettur á áður en hann hefði yfirgefið landið væri öruggt. Þá væru stjórnvöld á svæðinu með virkt refsivörslukerfi sem gæti aðstoðað kæranda ef þess gerðist þörf. Var kæranda því synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með vísan til framangreinds var það enn fremur mat Útlendingastofnunar að endursending kæranda til heimaríkis bryti ekki gegn 42. gr. laga um útlendinga.

IV.                Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er rakin ákvörðun Útlendingastofnunar um að afturkalla alþjóðlega vernd kæranda vegna ferðar hans til Írak. Fram kemur að kærandi hafi farið til Íraks skömmu eftir að hafa fengið ferðaskilríki hér á landi til að koma systur sinni og móður í öruggt skjól í Tyrklandi, en hann hafi óttast um líf þeirra í heimaríki. Kærandi hafi hins vegar aðeins dvalið í stuttan tíma í Írak í þessum tilgangi. Systir kæranda og móðir hans hafi flogið frá Írak til Tyrklands en kærandi hafi farið á milli landanna með rútu. Þá hafi hann farið með rútu frá Tyrklandi til Íraks fyrir brottför frá landinu þann 22. apríl 2018. Í greinargerð kæranda segir að ekki sé stimplað í vegabréf þegar menn fari með þessum hætti yfir landamæri. Vísar kærandi jafnframt til þess að hann hafi lagt fram rútufarmiða, dags. 7. október 2017 frá Erbil til Istanbúl, en kærandi telur miðann sýna með ótvíræðum hætti fram á að hann hafi í raun ferðast á umræddu tímabili milli landanna, þvert á fullyrðingar Útlendingastofnunar. Með hliðsjón af tilgangi ferðarinnar fari því fjarri að kærandi hafi með þessum hætti notfært sér á ný vernd heimalands síns. Þvert á móti hafi hann lagt líf sitt í hættu til að bjarga fjölskyldumeðlimum.

Þá telur kærandi að skýra beri a-lið 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga samkvæmt orðanna hljóðan, þ.e. að viðkomandi flóttamaður hafi sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns. Kærandi telur ákvæðið fela í sér þrjú skilyrði, í fyrsta lagi að viðkomandi flóttamaður hafi snúið aftur til heimaríkis, í öðru lagi að hann hafi fengið þar breytta réttarstöðu í samráði við stjórnvöld og í þriðja lagi að hann hafi gert það af fúsum og frjálsum vilja. Kærandi hafi farið huldu höfði í heimaríki og engin samskipti átt við írösk stjórnvöld. Þannig hafi hann ekki notfært sér á ný vernd heimaríkis í skilningi síðastnefnds ákvæðis með því einu að stíga fæti á yfirráðasvæði ríkisins. Í öllu falli hafi hann ekki notfært sér þá vernd af fúsum og frjálsum vilja. Í stað þess að sýna fram á að kærandi hafi notfært sér á ný vernd heimalands hafi Útlendingastofnun lagt það að jöfnu við að kærandi hafi farið til heimaríkis í þeirri von að bjarga fjölskyldu frá sömu hremmingum og hann hafi upphaflega flúið. Kærandi telur að hann uppfylli öll skilyrði þess að teljast flóttamaður í skilningi laga um útlendinga. Hann sé enn kakai-trúar og hafi sætt áreiti og líflátshótunum frá þeim hluta fjölskyldu sinnar sem aðhyllist íslam. Telur kærandi að engin ný sjónarmið hafi komið fram sem hnekki því.

Í greinargerð kæranda er vísað til 42. gr. laga um útlendinga, um bann við að senda fólk brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. Í hinni kærðu ákvörðun sé aðeins vikið stuttlega að þessum mikilvæga hluta heildarmatsins, sem sé lögbundið í 48. gr. laga um útlendinga. Þar sé ranglega fullyrt að kærandi hafi dvalið í heimaríki í átta mánuði og þannig dregin sú órökstudda ályktun að kærandi hafi ekki lengur ástæðu til að óttast ofsóknir í Írak. Hvergi í ákvörðuninni hafi verið gerð tilraun til að meta núverandi ástand í heimaríki kæranda eða hvernig aðstæður þar hafi breyst með tilliti til aðstæðna hans frá því honum var veitt vernd hér á landi. Að framangreindu virtu telur kærandi að rökstuðningur og rannsókn Útlendingastofnunar sé háð verulegum annmörkum og brjóti gegn 1. mgr. 22. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

V.                  Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Afturköllun alþjóðlegrar verndar skv. 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga

Í 48. gr. laga um útlendinga eru ákvæði um afturköllun alþjóðlegrar verndar. Samkvæmt a-lið 1. mgr. ákvæðisins er heimilt að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar ef flóttamaður eða ríkisfangslaus einstaklingur fellur ekki lengur undir skilyrði 37. og 39. gr. ef hann hefur sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns. Í athugasemdum við 48. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið eigi sér stoð í C-lið 1. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Útlendingastofnun taki ákvörðun um afturköllun alþjóðlegrar verndar og skuli túlkun fara fram í samræmi við leiðbeiningar í handbók flóttamannastofnunar.

Í handbók flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna er fjallað um C-lið 1. gr. flóttamannasamningsins um afturköllun alþjóðlegrar verndar. Samkvæmt 1. tölul. C-liðar 1. gr. samningsins skal samningurinn hætta að gilda um hvern þann mann, sem heimfæra má undir skilgreiningu stafliðs A, ef hann hefur sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns. Segir m.a. að flóttamaður sem hafi sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimaríkis þarfnist ekki lengur alþjóðlegrar verndar. Með því gefi hann til kynna að hann sé ekki lengur í þeirri stöðu að hann geti ekki eða vilji ekki færa sér í nyt vernd heimalands síns. Í handbókinni kemur jafnframt fram sú afstaða flóttamannastofnunar að beiting 1. tölul. C-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins krefjist þess að þrjú atriði séu til staðar. Í fyrsta lagi að flóttamaðurinn verði að haga gerðum sínum af fúsum og frjálsum vilja, í öðru lagi að flóttamaðurinn verði með athöfnum sínum að hafa í hyggju að notfæra sér á ný vernd heimalands síns og í þriðja lagi að flóttamaðurinn verði í raun að hafa fengið slíka vernd. Í umfjöllun um ákvæðið kemur m.a. fram að tiltekin ríki líti svo á að flóttamaður, sem heimsækir heimaríki, t.d. með ferðaskilríkjum frá aðsetursríki en án vegabréfs sem gefið er út í heimaríki, hafi nýtt sér vernd heimalandsins á ný. Viðkomandi sé þá talinn glata réttarstöðu sinni sem flóttamaður samkvæmt 1. tölul. C-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins. Meta beri slík tilvik út frá málsatvikum hverju sinni, en þegar lagt sé mat á tengsl flóttamanns við fyrra heimaland sitt beri að gera greinarmun á því annars vegar að heimsækja aldrað eða sjúkt foreldri eða hins vegar að ferðast til landsins í fríi eða í viðskiptaerindum.

Í samræmi við ummæli í lögskýringargögnum telur kærunefnd útlendingamála rétt að líta til framangreindra leiðbeininga flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um 1. tölul. C-liðar 1. gr. við túlkun a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. júlí 2017, var kæranda veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í þeirri ákvörðun var lagt til grundvallar að kærandi hefði ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur í heimaríki vegna trúarbragða, en hann hefði m.a. sætt áreiti og líflátshótunum af hálfu föðurfjölskyldu sinnar eftir að hann hefði skipt um trú árið 2013.

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 11. mars 2019, kemur fram að kærandi hafi fengið íslenskt ferðaskilríki afhent þann 21. ágúst 2017. Eins og áður er rakið liggja í málinu fyrir gögn sem aflað var af norskum lögregluyfirvöldum vegna viðkomu kæranda á Gardemoen-flugvelli í Osló, en um er að ræða myndir úr íslensku ferðaskilríki kæranda. Samkvæmt stimplum á ferðaskilríkinu fór kærandi með flugi frá Osló þann 3. september 2017 og lenti þann 5. september sama ár á Al-Sulaimaya-flugvellinum í Kúrdistan, sjálfstjórnarhéraði Kúrda í Írak. Í ferðaskilríki kæranda var einnig stimpill sem sýndi að kærandi hefði flogið frá flugvellinum í Erbil, Kúrdistan, þann 22. apríl 2018. Þá er meðal gagna málsins flugmiði á nafni kæranda vegna flugs frá Osló til Íslands þann 28. apríl 2018. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að þann 27. júlí 2018 hafi kærandi lagt fram umsókn um nýtt ferðaskilríki hjá Útlendingastofnun en kærandi hafi borið því við að eldra ferðaskilríkið hafi farið í þvottavél. Kærandi hafi skilað ferðaskilríkinu til Útlendingastofnunar en við skoðun á því hafi komið í ljós að í það vantaði þær blaðsíður sem höfðu innihaldið ofangreinda stimpla. Þá hafi fremstu blaðsíðuna einnig vantað í ferðaskilríkið, þar sem fram kom að ferðaskilríkið gilti til allra landa utan heimaríkis hans, Írak.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun veitti kærandi þær skýringar á ferð sinni til Íraks að hann hafi ætlað að koma móður sinni og systur úr landinu, en þær hafi verið í mikilli hættu. Kærandi hafi dvalið í tíu daga í Írak áður en hann hafi haldið til Tyrklands ásamt móður sinni og systur. Kvaðst kærandi hafa flogið frá Írak til Tyrklands eftir að hafa selt húsið sitt í Írak. Í viðtalinu var kærandi spurður um skort á stimpli í ferðaskilríki hans um flug frá Írak til Tyrklands. Kvaðst kærandi ekki vita ástæðuna fyrir því að stimpil vantaði. Aðspurður hvort kærandi hafi flogið frá Tyrklandi til Íraks á leið sinni til Íslands kvaðst kærandi ekki hafa gert það. Er kæranda var sýnt afrit af stimpli sem hafi verið í ferðaskilríki hans, sem sent var af norsku lögreglunni, sem sýndi fram á að hann hefði flogið frá Írak þann 22. apríl 2018 kvaðst hann hafa millilent þar í landi á leið sinni til Íslands. Kvað kærandi að ekki hafi verið hægt að fá beint flug frá Tyrklandi til Íslands og að hann hafi þurft að fara í gegnum Írak.

Í greinargerð kæranda segir að hann hafi óttast um líf móður sinnar og systur í Írak og að hann hafi farið til heimaríkis í þeim tilgangi að koma þeim frá Írak og í öruggt skjól í Tyrklandi. Kærandi hafi einungis dvalið í stuttan tíma í Írak og í framhaldinu farið með rútu til Tyrklands, en hafi síðan farið aftur með rútu frá Tyrklandi til Íraks fyrir brottför þaðan þann 22. apríl 2018. Kveður kærandi að ekki sé stimplað í vegabréf þegar ferðast sé með þessum hætti yfir landamæri. Framangreindu til stuðnings hefur kærandi lagt fram afrit af rútufarmiða með handskrifuðum upplýsingum, sem hann kveður sýna fram á að hann hafi ferðast frá Erbil í Kúrdistan til Istanbúl í Tyrklandi þann 7. október 2017.

Eins og áður greinir benda upplýsingar úr ferðaskilríki kæranda, sem aflað var af lögregluyfirvöldum í Noregi, til þess að kærandi hafi flogið til Írak þann 5. september 2017 og frá landinu þann 22. apríl 2018. Að mati kærunefndar hefur ekkert haldbært komið fram af hálfu kæranda sem styður frásögn hans um að hafa dvalið í Tyrklandi á framangreindu tímabili. Benda þau atriði sem rakin eru að framan þvert á móti til þess að kærandi hafi leitast við að dylja ferð sína til Íraks fyrir íslenskum stjórnvöldum, auk þess sem framburður hans í viðtali hjá Útlendingastofnun um að hann hefði flogið frá Írak til Tyrklands var ekki í samræmi við fyrirliggjandi myndir af stimplum úr ferðaskilríki hans. Telur kærunefnd einnig að framburður kæranda í viðtali hjá stofnuninni um ástæður þess að hann hafi ferðast með rútu frá Tyrklandi til Íraks í apríl 2018 sé fjarstæðukenndur. Horfir kærunefnd jafnframt til þess að í gögnum málsins liggur fyrir ljósmynd af kæranda sem var birt á samfélagsmiðlunum Facebook þann 17. desember 2017, sem virðist sýna kæranda í verslunarmiðstöðinni Family Mall í Erbil í Kúrdistan. Var kæranda veitt tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum vegna myndarinnar og bárust athugasemdir þann 8. apríl 2019. Af hálfu kæranda er því haldið fram að umrædd mynd hafi verið tekin í verslunarmiðstöðinni Istanbul Cevahir í Istanbúl í Tyrklandi. Lagði kærandi jafnframt fram ódagsetta mynd af honum úr þeirri verslunarmiðstöð. Eftir skoðun á myndunum telur kærunefnd ekki leika vafa á því að umrædd mynd af kæranda, dags. 17. desember 2017, hafi verið tekin í fyrrnefndri verslunarmiðstöð í Kúrdistan. Loks er það mat kærunefndar að afrit af handskrifuðum rútufarmiða, sem stílaður er á kæranda, færi ekki sönnur á frásögn hans af því að hafa haldið til Tyrklands skömmu eftir komu til Íraks en í því sambandi lítur nefndin til þess að skýringar kæranda á skorti á stimplum í vegabréf hans vegna þessarar ferðar, þ.e.a.s. að ekki sé stimplað í vegabréf þegar menn fari með þessum hætti yfir landamæri í rútu, séu augljóslega rangar. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að frásögn kæranda um að hann hafi dvalið að nær öllu leyti í Tyrklandi á fyrrnefndu tímabili sé með öllu ótrúverðug. Verður því lagt til grundvallar að kærandi hafi dvalið í Írak á tímabilinu frá 5. september 2017 til 22. apríl 2018. Þá tekur kærunefnd enn fremur undir það mat Útlendingastofnunar að umrædd dvöl kæranda í heimaríki dragi að verulegu leyti úr trúverðugleika kæranda um þá atburði sem leiddu upphaflega til flótta hans frá landinu. Kærunefnd telur einnig að tilraunir kæranda til að villa um fyrir stjórnvöldum á meðan mál þetta hefur verið til meðferðar hjá Útlendingastofnun og hjá kærunefnd séu einnig til þess fallnar að draga enn frekar úr trúverðugleika frásagnar kæranda um þær ástæður flótta sem lágu til grundvallar veitingar flóttamannastöðu til handa kæranda.

Kemur þá til skoðunar hvort heimilt sé að afturkalla alþjóðlega vernd kæranda á grundvelli a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga. Af þeim sjónarmiðum sem koma fram í leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna má draga þá ályktun að einstaklingur, sem hefur réttarstöðu flóttamanns, geti ferðast til heimaríkis í ákveðnum tilgangi án þess að dvölin þar leiði til afturköllunar á alþjóðlegri vernd, sbr. 1. tölul. C-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins. Sem dæmi um slíkan tilgang má meðal annars nefna ferð til heimaríkis í því skyni að sinna veikum fjölskyldumeðlimum eða aðstoða þá fjölskyldumeðlimi sem eftir urðu í heimaríki við að komast úr hættulegum aðstæðum. Eins og áður hefur komið fram dvaldist kærandi í tæpa átta mánuði í heimaríki. Þá er ljóst að kæranda reyndi að leyna dvöl sinni þar fyrir íslenskum stjórnvöldum og liggja því ekki fyrir frekari upplýsingar um dvöl hans í heimaríki á fyrrnefndu tímabili. Að teknu tilliti til trúverðugleikamats er ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en að tilgangur farar kæranda til heimaríkis og dvalar hans hafi verið þess eðlis og af þeirri tímalengd að hann teljist hafa sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns í skilningi a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga. Þá lítur kærunefnd einnig til þess að kærandi ferðaðist til heimaríkis sex vikum eftir að honum var veitt alþjóðleg vernd hér á landi og tveimur vikum eftir að hann fékk hann fékk ferðaskilríki sín afhent. Með vísan til framangreinds er því heimilt að afturkalla þá alþjóðlegu vernd sem honum var veitt hér á landi sem og dvalarleyfi hans á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga, sbr. 59. gr. sömu laga, enda eru skilyrði þess ekki lengur uppfyllt.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 4. mgr. 48. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef veiting alþjóðlegrar verndar er afturkölluð skuli stjórnvald taka til athugunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. eða hvort 42. gr. eigi við.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi er […] ára karlmaður sem er fæddur og uppalinn í Sulaymaniyah-fylki í Kúrdistan, sjálfstjórnarhéraði Kúrda í Írak. Í málinu hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að kærandi glími við heilsufarsvandamál. Þær skýrslur og þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Kúrdistan benda eindregið til þess að svæðið sé talið öruggt og að lögregla og öryggissveitir Kúrda séu öflugar og vel búnar. Að því virtu verður ekki talið að almennar aðstæður þar í landi séu þess eðlis að kærandi teljist hafa ríka þörf á vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Hvað varðar þær aðstæður kæranda í heimaríki, sem urðu grundvöllur alþjóðlegrar verndar hans hér á landi, telur kærunefnd að löng og sjálfviljug dvöl kæranda í heimaríki eftir að hafa verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi og villandi upplýsingagjöf hans til stjórnvalda í tengslum við það mál sem þessi úrskurður snýr að dragi verulega úr trúverðugleika frásagnar hans um þá atburði. Verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á ríka þörf á vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Verður kæranda því ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda og að teknu tilliti til trúverðugleikamats telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frestur til að yfirgefa landið

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi. Gögn málsins benda ekki til annars en að hann sé við góða heilsu og með hliðsjón af atvikum málsins teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                          Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum