Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2021

Opinber heimsókn forseta Alþingis til Rússlands

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Vyacheslav Volodin, forseti Ríkisdúmunnar  - mynd

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og sendinefnd Alþingis var í opinberri heimsókn í Rússlandi í liðinni viku. Forsetinn átti m.a. fund með Vyacheslav Volodin, forseta Ríkisdúmunnar, og rússneskum þingmönnum. Á fundinum bar umræður um málefni norðurslóða hátt, en Rússland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu af Íslandi á ráðherrafundinum í Reykjavík í vor. Voru forsetarnir sammála um mikilvægi sameiginlegra hagsmuna á norðurslóðum og að þróa beri svæðið með virðingu fyrir umhverfi og íbúum.

Þá ræddu þingforsetarnir tvíhliða samstarf og starf á vettvangi alþjóðlegra þingmannasamtaka. Forseti Dúmunnar gerði athugasemd við nýsamþykkta skýrslu og yfirlýsingu um stöðu Krím-Tatara á vettvangi Evrópuráðsþingsins. Forseti Alþingis lagði áherslu á mikilvægi þess að geta átt samtal, jafnt um það sem sameinar en ekki síður um ágreiningsmál. Einnig gerði forseti Alþingis að umræðuefni mikilvægi mannréttinda, mannréttindasamninga og mannréttindadómstóls Evrópu, og að virða bæri réttindi fólks án tillits til uppruna og tryggja stöðu minnihlutahópa.

Forseti Alþingis og þingmannasendinefndin fundaði einnig með varaforseta Sambandsþingsins, Konstantin Kosachov. Á fundinum voru umræður um málefni norðurslóða ofarlega á dagskrá og mikilvægi þingmannasamstarfs. Þá fundaði sendinefndin með Leonid E. Slutsky, formanni utanríkismálanefndar og fulltrúum þingflokka í Dúmunni. Að því loknu lá leiðin í Moskvuháskóla þar sem forseti átti fund með Viktor Sadovnichyi rektor og ræddu þeir endurnýjun samstarfssamnings milli Moskvuháskóla og Háskóla Íslands.

Fyrir utan fundi í rússneska þinginu og heimsókn í Moskvuháskóla átti forseti Alþingis og sendinefnd meðal annars fundi með Vladimir Titov, 1. varautanríkisráðherra Rússlands, og Anatolíj Bobrakov, vararáðherra norðurslóða og þróunar austursvæða. Á fundunum var m.a. rætt um stöðu og horfur í þróun samskipta Rússlands og Íslands, samvinnu um málefni norðurslóða með hliðsjón af formennsku Rússlands í Norðurskautsráðinu, auk stöðunnar í alþjóðamálum. Á fundunum kom fram vilji til að efla enn gagnkvæm samskipti.

Þá átti íslenska sendinefndin fund með Andrei Kolesnikov, sérfræðingi um rússnesk innanríkisstjórnmál hjá Carnegie hugveitunni, þar sem fjallað var um stöðu stjórnmála í Rússlandi, einkum með hliðsjón af komandi kosningum í haust.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum