Hoppa yfir valmynd
8. september 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tilnefningar til fjölmiðlaverðlauna á Degi íslenskrar náttúru

Verðlaunagripur fjölmiðlaverðlaunanna kallast Jarðarberið og er hannaður af Finni Arnari Arnarssyni  - mynd

Dómnefnd hefur tilnefnt fjóra til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem veitt verða föstudaginn 15. september í tengslum við Dag íslenskrar náttúru.

Tilnefnd til verðlaunanna eru Bergljót Baldursdóttir, Sunna Valgerðardóttir og Arnhildur Hálfdánardóttir, fréttamenn á RÚV; Áslaug Karen Jóhannsdóttir, blaðamaður á Stundinni; Ævar vísindamaður og; Birgir Þór Harðarson, blaðamaður á Kjarnanum.  Rökstuðningur dómnefndar fyrir valinu er eftirfarandi:

Áslaug Karen Jóhannsdóttir er tilnefnd fyrir fréttaskýringar um loftslagsmál í Stundinni, apríl – júní 2017. Áslaug Karen fjallaði á vandaðan og eftirtektarverðan hátt um stöðu Íslendinga í loftslagsmálum. Í greinunum rýnir Áslaug m.a. í pólitíska stefnu núverandi og fyrrverandi stjórnvalda í málaflokknum og fjallar ítarlega um helstu mengunarvalda og leiðir til að draga úr vægi þeirra.

Bergljót Baldursdóttir, Sunna Valgerðardóttir og Arnhildur Hálfdánardóttir eru tilnefndar fyrir fréttaskýringar fréttastofu RÚV um loftslagsmál, janúar – febrúar 2017. Fréttastofa RÚV hélt á lofti markvissri umfjöllun með vönduðum fréttum og fréttaskýringum í umsjón þeirra Bergljótar, Sunnu og Arnhildar um viðhorf, breytingar og afleiðingar loftslagsbreytinga með aðgengilegri framsetningu fyrir áhorfendur.

Birgir Þór Harðarson er tilnefndur fyrir umfjöllun um loftslagsmál í Kjarnanum, veturinn 2016 - 2017. Birgir hefur fjallað ötullega um loftslagsmál með umfjöllun um innlenda sem erlenda þróun loftslagsmála á síðum Kjarnans.

Ævar Þór Benediktsson er tilnefndur fyrir fjölbreytta umfjöllun um náttúru og umhverfismál í þáttunum Ævar vísindamaður á RÚV, janúar – mars 2017. Ævar fjallaði á skemmtilegan, fjölbreyttan og frumlegan hátt um málefni umhverfis og náttúru fyrir yngri kynslóðina.

Í dómnefnd sitja Ragna Sara Jónsdóttir formaður, Jón Kaldal og Snæfríður Ingadóttir.

Þakkað er fyrir allar ábendingar og tilnefningar vegna verðlaunanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum