Hoppa yfir valmynd
13. desember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 406/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 406/2022

Þriðjudaginn 13. desember 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, móttekinni 8. ágúst 2022, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. maí 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 3. maí 2022. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 11. maí 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og var hann veittur með bréfi, dags. 8. júní 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. ágúst 2022. Með bréfi, dags. 17. ágúst 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. september 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. september 2022. Með bréfi, dags. 14. október 2022, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. október 2022. Með bréfi, dags. 3. nóvember 2022, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar samdægurs. Með bréfi, dags. 18. nóvember 2022, bárust frekari athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. nóvember 2022. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.


 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. maí 2022, um synjun umsóknar um örorku. Kærandi krefjist þess að ákvörðun Tryggingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði ákvörðuð hámarksörorka. Til vara sé þess krafist að ákvörðun Tryggingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju þannig að ákvörðunin taki mið af fyrirliggjandi sérfræðigögnum.

Kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. apríl 2018. Kærandi sé greind með áfallastreituröskun, óskilgreinda kvíðaröskun og alvarlega geðlægðarlotu með geðrofseinkennum. Meðferð hafi verið reynd bæði á Landspítala og á heilsugæslu hjá sálfræðingi og heimilislækni, án þess að ástand hennar hafi batnað. Heimilislæknir kæranda hafi ítrekað mælt með örorku.

Kærandi hafi fjórum sinnum sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur á síðastliðnum fjórum árum. Fyrst hafi kærandi sótt um með umsókn til Tryggingastofnunar, dags. 29. apríl 2019, og því næst þann 2. apríl 2020. Í bæði skiptin hafi umsókn kæranda verið synjað með vísan til þess að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri í þriðja sinn þann 16. apríl 2021. Með ákvörðun, dags. 29. apríl 2022, hafi umsókn kæranda verið synjað á ný á þeim forsendum að endurhæfing væri ekki fullreynd. Farið hafi verið fram á rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar þann 14. maí 2021 og hann hafi verið veittur með bréfi, dags. 22. maí 2021.

Ákvörðun Tryggingastofnunar hafi í kjölfarið verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, dags. 23. ágúst 2021. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 432/2021, dags. 9. mars 2022, hafi niðurstaða Tryggingastofnunar verið staðfest með vísan til þess að rétt hafi verið hjá Tryggingastofnun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur í þeim tilgangi að láta reyna á frekari endurhæfingu áður en til örorkumats kæmi.

Með umsókn, dags. 3. maí 2022, hafi kærandi sótt um örorkumat á ný. Þá hafi hún lagt fram nýtt læknisvottorð, dags. 8. apríl 2022, sem hafi verið móttekið af Tryggingastofnun samdægurs. Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 11. maí 2022, hafi umsókn kæranda verið synjað með vísan til þess að endurhæfing væri ekki fullreynd. Tryggingastofnun hafi talið að samkvæmt meðfylgjandi gögnum væri ekki tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Ekki væri að sjá á gögnum að breyting hafi orðið þar á frá síðustu umsókn. Beiðni um örorkumat hafi því verið synjað. Þann 8. júní 2022 hafi rökstuðningur verið veittur fyrir synjuninni. Rökstuðningurinn hafi verið efnislega samhljóða því sem hafi komið fram í ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 11. maí 2022.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar meti Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Í 3. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat, sem sett sé með stoð í síðastnefndu lagaákvæði, komi fram að þegar umsókn um örorkulífeyri og fullnægjandi læknisvottorð hafi borist Tryggingastofnun sendi stofnunin umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat sé unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þyki læknisskoðunar hjá tryggingayfirlækni og öðrum gögnum sem tryggingayfirlæknir telji nauðsynlegt að afla.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat, sé Tryggingastofnun heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Í frumvarpi til breytingarlaga þeirra sem lögfestu síðastnefnt ákvæði komi fram að mikilvægt sé að allir sem hafi einhverja starfsgetu hafi kost á endurhæfingarúrræði sem leiði til aukinna möguleika á atvinnuþátttöku.

Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007 eigi Tryggingastofnun að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt sé tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Tryggingastofnun hafi byggt ákvörðun sína um að endurhæfing væri ekki fullreynd á læknisvottorði, dags. 11. apríl 2022, læknisvottorði, dags. 3. maí 2022, spurningalista, dags. 4. maí 2022, og umsókn, dags. 3. maí 2022.

Læknisvottorð það sem Tryggingastofnun hafi móttekið, dags. 11. apríl 2022, hafi verið sent frá heilsugæslunni fyrir mistök á meðan það hafi enn verið í vinnslu af hálfu læknis kæranda og Tryggingastofnun hafi verið tilkynnt um framangreint. Hið rétta læknisvottorð, sem Tryggingastofnun hafi borið að byggja á, hafi verið móttekið af Tryggingastofnun hinn 3. maí 2022, en vottorðið sé dagsett 8. apríl 2022. 

Í læknisvottorði því sem hafi verið móttekið af hálfu Tryggingastofnunar þann 3. maí 2022, útgáfud. 8. apríl 2022, sé skilmerkilega greint frá sjúkrasögu kæranda og þeim andlegu veikindum er hún glími við. Fram komi að kærandi sé óvinnufær og hafi verið það frá 1. apríl 2018. Ekki megi búast við að færni aukist á næstu fimm árum. Þá sé fjallað um endurhæfingu, sem sé fullreynd.

Synjun Tryggingastofnunar sé reist á þeim grunni að endurhæfing sé ekki fullreynd, en ekki sé að sjá að breyting hafi orðið þar á frá síðustu umsókn. Tilgangur heimildar Tryggingastofnunar til þess að meta möguleika á endurhæfingu og kveði á um viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sé að þeir sem hafi einhverja starfsgetu eigi kost á endurhæfingarúrræðum sem leiði til aukinna möguleika á atvinnuþátttöku. Því sé um að ræða matskennda heimild sem Tryggingastofnun sé heimilt að beita þar sem ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings verði til frambúðar, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Slíkt eigi ekki við í þessu máli en fyrirliggjandi sé að kærandi verði ekki hæf til starfa á næstu fimm árum. Sú staðreynd að ekki hafi orðið breyting á heilsufari kæranda frá síðustu umsókn og raunar frá fyrstu umsókn hennar þar sem hún hafi verið óvinnufær allan þann tíma og allt aftur til apríl 2018, styðji niðurstöðu um örorku, enda til marks um að kæranda skorti starfsgetu og að það ástand hafi ekki breyst í fjögur ár. Í hinu nýja læknisvottorði, ólíkt læknisvottorði, dags. 23. mars 2021, sem lagt hafi verið til grundvallar í síðustu ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 29. apríl 2021, komi fram berum orðum að kærandi verði ekki vinnufær næstu fimm árin. Í eldra vottorðinu hafi hins vegar komið fram að búast mætti við að færni myndi aukast með tímanum, en það hafi verið óvíst.

Skilyrði beitingar hinnar matskenndu heimildar 2. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, séu því ekki fyrir hendi, enda beri öll gögn málsins með sér að það sé fyrirséð að starfshæfni kæranda verði engin á gildistíma örorkumats. Einnig sé endurhæfing fullreynd samkvæmt læknisfræðilegu mati. Þetta endurspeglist jafnframt í staðreyndum málsins, þ.e. að endurhæfing hafi verið reynd, en ástand kæranda hafi engu síður ekkert batnað á síðustu fjórum árum. Því sé engin lagastoð fyrir hendi fyrir ákvörðun Tryggingarstofnunar.

Ógjörningur sé að ráða af því hvernig Tryggingastofnun komist að gagnstæðri niðurstöðu, en hvorki í ákvörðun Tryggingastofnunar né rökstuðningi þeim sem hafi verið veittur, séu færð rök fyrir niðurstöðunni. Í þessu samhengi sé bent á að niðurstaða Tryggingastofnunar skuli reist á svörum umsækjanda við framlögðum spurningalista, læknisvottorði og ef þörf þyki læknisskoðun tryggingayfirlæknis og öðrum gögnum sem tryggingayfirlæknir telji nauðsynlegt að afla. Ekki fáist séð að Tryggingastofnun hafi aflað neinna slíkra gagna og sé niðurstaðan því reist á ofangreindu læknisvottorði og spurningalista þeim er kærandi hafi fyllt út, en hvort tveggja styðji niðurstöðu um örorku og að endurhæfing sé fullreynd. Að þessu virtu sé því heldur ekki að finna stoð fyrir niðurstöðu Tryggingastofnunar, hvorki í gögnum málsins né staðreyndum þess.

Ef eigi að hnekkja mati óháðra sérfræðinga verði samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og 38. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins, að gera þá kröfu til Tryggingastofnunar að sú niðurstaða byggi á fullnægjandi rannsókn, sé studd gögnum og sé reist á málefnalegum grunni. Niðurstaðan sé því jafnframt andstæð lögum að þessu leyti.

Að framansögðu sé skýrt af gögnum málsins að kærandi sé óvinnufær og að endurhæfing hafi ekki borið árangur. Ekki sé að vænta að það breytist á gildistíma örorkumatsins. Því eigi að taka aðalkröfu kæranda til greina.

Í hið minnsta eigi að ógilda hina kærðu ákvörðun og vísa henni til löglegrar meðferðar Tryggingastofnunar, enda byggi hún ekki á fullnægjandi rannsókn eða málefnalegum sjónarmiðum og stríði raunar gegn gögnum málsins.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að í greinargerðinni sé ekki að finna neinn rökstuðning þess efnis að endurhæfing geti komið kæranda að gagni, aðeins vísanir afar almenns eðlis til þverfaglegrar endurhæfingar. Á engan hátt séu færð rök fyrir því að hnekkja eigi læknisvottorði því sem kærandi hafi lagt fram, dags. 8. apríl 2022, þar sem komi fram að kærandi sé óvinnufær og að það muni ekki breytast á gildistíma örorkumatsins sem og að endurhæfing sé fullreynd.

Í þessu samhengi sé vakin athygli á bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 10. júní 2021, til félags- og barnamálaráðherra sem hafi verið sent með vísan til yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldna ráðherra. Í því hafi umboðsmaður gert ráðherra grein fyrir kvörtunum sem höfðu borist embættinu og höfðu átt það sammerkt að Tryggingastofnun hafi synjað umsóknum um örorkulífeyri á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Ákvarðanir um synjanir hafi verið teknar, án þess að stofnunin hefði lagt mat á raunverulega möguleika umsækjanda á endurhæfingu. Þetta hafi verið niðurstaðan jafnvel þótt fyrir lægi álit sérfræðinga, svo sem lækna, um að frekari endurhæfing myndi ekki skila árangri. Af þessu tilefni hafi umboðsmaður óskað eftir svörum um hvort framkvæmd Tryggingastofnunar við afgreiðslu umsókna um örorkulífeyri hafi breyst og ef ekki hvort ráðherra teldi tilefni til að bregðast við þeim aðstæðum sem væri lýst í bréfinu. Niðurstöður þessarar frumkvæðisathugunar umboðsmanns liggi ekki enn fyrir.

Bréfið sé þó lýsandi fyrir þær aðstæður sem séu uppi í fyrirliggjandi máli. Tryggingastofnun hafi haldið því fram að öll gögn málsins bentu til þess að endurhæfing með utanumhaldi fagaðila muni að öllum líkindum hjálpa kæranda í baráttu sinni við læknisfræðilegan vanda sinn. Þessum fullyrðingum Tryggingastofnunar sé hafnað, enda sé enginn fótur fyrir þeim í gögnum málsins. Tryggingastofnun hafi engan reka gert að því að benda á hvað í umræddum gögnum leiði til þessarar niðurstöðu. Ef fyrirliggjandi gögn séu tekin til skoðunar blasi við gagnstæð niðurstaða. Frá því að kærandi hafi síðast lagt fram umsókn um örorku hafi hún skilað inn nýju læknisvottorði, dags. 8. apríl 2022, þar sem skýrlega sé kveðið á um að endurhæfing sé fullreynd og að kærandi verði ekki vinnufær á næstu fimm árum. Ítrekað sé að um ræði breytingu frá fyrra vottorði þar sem komið hafi fram að búast mætti við að færni myndi aukast með tímanum, en það væri óvíst. Niðurstaða á grundvelli umsóknar umrætt sinn virðist að miklu leyti hafa byggst á framangreindri setningu. Í nýja læknisvottorðinu komi aftur á móti fram að meðferð hafi verið reynd á Landspítalanum en andlegt ástand kæranda hafi versnað mjög við meðferðina. Meðferð hafi þá verið reynd á heilsugæslunni hjá heimilislækni og sálfræðingi. Samdóma álit þeirra sé að kærandi sé ekki hæf í endurhæfingu hjá VIRK eða öðrum stofnunum. Þetta hafi enn verið raunin við síðustu læknisskoðun, þeirri sem vottorðið byggi á. Samkvæmt framansögðu hafi álit læknis kæranda verið að hún yrði ekki vinnufær næstu fimm árin og þar af leiðandi væri mælt með örorku. Öll tvímæli hafi verið tekin af því að ekki sé búist við að færni aukist á gildistíma örorkumatsins. Endurhæfing sé fullreynd, enda sé kærandi ekki hæf til hennar. Tryggingastofnun hafi í engu tekið tillit til þessara nýju gagna.

Engu að síður reisi Tryggingastofnun niðurstöðu sína á síðastnefndum gögnum, þvert gegn efni þeirra, en stofnunin hafi ekki aflað neinna sjálfstæðra gagna um heilsufar kæranda. Sú niðurstaða standist enga skoðun með tilliti til þeirra rannsóknarskyldu sem hvíli á Tryggingastofnun samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Enn fremur megi vera ljóst að hið skyldubundna mat sem 2. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar áskilji, þ.e. að framkvæmt sé sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar, hafi í engu verið framkvæmt í tilviki kæranda. Hvorki í upprunalegri niðurstöðu Tryggingastofnunar, eftirfarandi rökstuðningi né í greinargerð sé að finna umfjöllun um hvernig endurhæfing kunni að gagnast kæranda, sér í lagi þegar sérfræðigögn kveði á um hið gagnstæða.

Greinargerð Tryggingastofnunar bendi frekar til þess að stofnunin líti á heimild 2. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sem undantekningarlaust skilyrði örorkumats, þ.e. að alltaf skuli ljúka fullu endurhæfingartímabili samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð áður en til örorkumats komi. Í þessu samhengi sé bent á eftirfarandi umfjöllun í greinargerð Tryggingastofnunar:

,,Örorkumati var synjað, skv. 18. gr. og 19. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 með bréfi TR, dags. 11. maí 2022, vegna þess að samkvæmt öllum innsendum gögnum málsins mátti ráða að kærandi hefði ekki lokið endurhæfingu vegna þeirra læknisfræðilegu kvilla sem hrjá kærandann og eru að valda honum vandkvæðum.‘‘

Hið rétta sé að tilgangur endurhæfingarlífeyris sé að allir sem hafi einhverja starfsgetu hafi kost á endurhæfingarúrræðum sem leiði til aukinna möguleika á atvinnuþátttöku líkt og fram komi í athugasemdum við ákvæðinu í greinargerð. Bæði 18. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð miði þá að því að veita einstaklingi þá aðstoð sem 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 áskilji. Það gangi þannig gegn tilgangi og markmiðum ákvæðanna að neita einstaklingi um örorkumat og þannig félagslega aðstoð af þeim sökum að endurhæfingu sé ekki lokið þegar sýnt hafi verið fram á að slík endurhæfing komi ekki að gagni. Það liggi þá í augum uppi að slík niðurstaða geti ekki verið reist á málefnalegum sjónarmiðum. Þar sem skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu, og kærandi sé ekki hæf til slíkar endurhæfingar, sé framkvæmd Tryggingastofnunar raunar til þess fallin að útiloka að hún njóti þeirrar aðstoðar sem hún eigi rétt á samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, líkt og löggjafinn hafi útfært þau réttindi með lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar og lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Í athugasemdum kæranda við viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að athugasemdir Tryggingastofnunar i viðbótargreinargerðinni séu afar almenns eðlis en lúti ekki sérstaklega að kæranda og hennar persónubundnu aðstæðum. Þannig verði ekki séð að ákvörðun Tryggingastofnunar útskýri hvernig mat hafi farið fram á möguleikum kæranda til endurhæfingar. Í rauninni beri athugasemdirnar með sér að slíkt mat hafi aldrei verið framkvæmt, enda engin rök færð fyrir því að ástand kæranda geti batnað með endurhæfingu.

Í viðbótargreinargerðinni sé jafnframt dylgjað að því að sú endurhæfing sem hafi þó verið reynd hafi ekki gengið eftir sökum ,,áhugahvatar og sinnuleysis kæranda sjálfs [sjálfrar].“ Með umræddum ummælum virðist Tryggingastofnun raunar vera að kenna kæranda um eigin heilbrigðisvanda og séu þau til marks um algjört skilningsleysi stofnunarinnar á veikindum kæranda. Stofnunin hafi þannig ekki haft neina hliðsjón af eðli veikinda kæranda.

Hið rétta sé, líkt og komi skýrlega fram í gögnum málsins, að andleg líðan og heilbrigði kæranda hafi versnað verulega í endurhæfingunni. Meðal annars af þeim sökum að meðferðaraðilar kæranda hafi metið heilbrigðisvanda hennar þannig að endurhæfing myndi ekki koma að gagni og að vinnufærni hennar myndi ekki aukast á gildistíma örorkumatsins.

 

 

 

 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati hjá stofnuninni, dags. 11. maí 2022, en kæranda hafi verið bent á lög og reglur um endurhæfingarlífeyri.

Kærandi sé einungis búin að ljúka níu mánuðum á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun, þrátt fyrir að læknisvottorð og önnur gögn málsins beri með sér að ýmsar endurhæfingarmeðferðir gætu komið til greina hjá kæranda miðað við læknisfræðilegan vanda hennar. Þeim endurhæfingarúrræðum sem nú þegar hafi verið reynd hjá kæranda hafi lokið í lok febrúar 2020. Þá um leið hafi greiðslur vegna endurhæfingarlífeyris hætt til kæranda samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð þar sem kærandi hafi hætt í þeim úrræðum sem hafi verið lagt upp með. Ekki sé að sjá á gögnum málsins nú að læknisfræðilegt ástand kærandans hafi lagast eða batnað síðan þá.

Öll gögn málsins virðast hins vegar nú eins og áður benda til þess að endurhæfing með utanumhaldi fagaðila myndi að öllum líkindum hjálpa kæranda í baráttu hennar við læknisfræðilegan vanda sinn og af þeim forsendum hafi kæranda enn og aftur verið synjað um örorkumat að svo stöddu. Vísað sé á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun og ef ekki sé útséð um að endurhæfing geti komið að gangi, sé ekki tímabært að senda umsækjendur um örorku í skoðun hjá matslæknum Tryggingastofnunnar.

Áður hafi kærandi þessa máls verið til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni á sömu forsendum og nú, eða í máli nr. 432/2021. Í því máli hafi synjun Tryggingastofnunar um örorkumat hjá kæranda verið staðfest að svo stöddu þar sem ekki hafi þá frekar en núna þótt tímabært að meta örorku hjá kæranda.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Fjallað sé um framkvæmd örorkumats í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Í niðurlagi 2. mgr. 18. gr. komi fram að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Fjallað sé um endurhæfingarlífeyri í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Þar segi meðal annars að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. sömu greinar um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Í 51. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé einnig kveðið á um að bætur sem ætlaðar séu bótaþegum sjálfum greiðist ekki ef hlutaðeigandi vanræki að fara að þeim læknisráðum eða neiti að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem bætt gæti afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf.

Í 37. gr. laga um almannatryggingar sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn þann 3. maí 2022. Örorkumati hafi verið synjað samkvæmt 18. gr. og 19. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 11. maí 2022, vegna þess að samkvæmt öllum innsendum gögnum málsins hafi mátt ráða að kærandi hefði ekki lokið endurhæfingu vegna þeirra læknisfræðilegu kvilla sem hrjái hana og séu að valda henni vandkvæðum. Á þeim forsendum hafi verið bent á lög og reglur um endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni.

Við mat á örorku styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir. Við örorkumat lífeyristrygginga þann 11. maí 2022 hafi legið fyrir læknisvottorð C heimilislæknis, dags. 8. apríl 2022, læknisvottorð sama læknis, dags. 5. mars 2022, svör kæranda við spurningalista Tryggingastofnunar vegna færniskerðingar, dags. 4. maí 2022, og umsókn kæranda, dags. 3. maí 2022. Auk þess hafi legið fyrir beiðni kæranda um rökstuðning, dags. 25. maí 2022, og rökstuðningsbréf lækna Tryggingastofnunar, dags. 8. júní 2022, vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Þá hafi einnig verið til staðar fyrirliggjandi gögn vegna fyrri umsókna kæranda um örorkumat.

Sömu sjúkdómssögu kæranda eins og nú sé að finna í öðrum og eldri gögnum málsins og verði því að telja að enn sé sama læknisfræðilega ástandið til staðar og fyrir tæpu ári síðan hjá kæranda þegar fyrri úrskurður úrskurðarnefndar í máli kæranda nr. 432/2021 hafi verið felldur með því að staðfesta sams konar ákvörðun og sé kærð í þessu máli. Fyrirliggjandi gögn eftir þann úrskurð varðandi kæranda bæti í raun ekki neinu við sem ekki hafi komið fram áður um sjúkdómssögu kæranda, þrátt fyrir að lengri tími sé nú liðinn.

Af öllum fyrirliggjandi gögnum í málinu sé ekki að sjá að nægjanlega hafi verið reynt að taka á heilsufarsvanda kæranda með skipulögðum og markvissum hætti með starfshæfni að markmiði, að undanskildum þeim níu mánuðum fram í febrúar 2020 þegar greiðslum vegna endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun hafi lokið.

Tryggingastofnun telji eins og áður og hafi verið fjallað um í úrskurði úrskurðarnefndar nr. 432/2021 og synjunarbréfum og rökstuðningsbréfum Tryggingastofnunar í málum kæranda að hægt sé að taka á þeim heilsufarsvandamálum kæranda sem nefnd séu í læknisvottorði með fjölmörgum endurhæfingarúrræðum. Það verði því eins og áður að teljast eðlilegt skilyrði að kærandi gangist undir þverfaglega endurhæfingu áður en hún verði metin til örorku, sbr. niðurlag 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Þar af leiðandi telji Tryggingastofnun ekki heimilt að svo komnu máli að meta örorku kæranda áður en sýnt hafi verið fram á að endurhæfing hennar sé fullreynd.

Það sé enn mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði um örorkumat hjá stofnuninni að svo stöddu þar sem endurhæfing hafi ekki verið reynd nægjanlega og telji stofnunin að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnun ríkisins það vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja um örorkumat í tilviki kæranda að svo komnu máli.

Þá skuli áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna umsækjenda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni. Að einhverju leyti hafi það nú þegar verið reynt eins og gögn málsins sýni og einkum virðist það vera vegna áhugahvatar og sinnuleysis kæranda sjálfrar sem það hafi ekki gengið hingað til. Í því samhengi skuli benda á 51. gr. laga um almannatryggingar um að það eigi ekki að vera til marks um hvenær endurhæfingu teljist lokið að kærandi sinni einfaldlega ekki þeim úrræðum sem séu í boði hverju sinni því að þá greiðist ekki þær bætur sem hugsanlega væri hægt að greiða ef úrræðum hefði verið sinnt. Þá skuli það heldur ekki vera til marks um að endurhæfingu sé lokið í tilviki kæranda að sama læknisfræðilega ástand hafi varað í langan tíma.

Tryggingastofnun telji að nauðsynlegt sé að kærandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Mikilvægt sé að einstaklingar, sem hugsanlega sé hægt að endurhæfa, fullnýti öll möguleg endurhæfingarúrræði sem í boði séu við þeim heilsufarsvandamálum sem hrjái þá. Með endurhæfingarúrræðum í þessum skilningi sé átt við þverfagleg, einstaklingsmiðuð úrræði sem eigi að stuðla að virkri þátttöku einstaklingsins í samfélaginu. Þá verði ekki ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að endurhæfing geti ekki komið að gagni.

Beiting undantekningarákvæðis 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 sé að mati Tryggingastofnunar aðeins heimil ef líkamleg og andleg færni sé svo mikið skert að augljóst sé að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati Tryggingastofnunar eigi það ekki við í tilviki kæranda.

Niðurstaða stofnunarinnar sé sú að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja um örorkumat að svo stöddu og vísa áfram í endurhæfingu, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Jafnframt skuli áréttað að kærð ákvörðun byggist á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum. Einnig sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar í máli kæranda nr. 432/2021 og fyrri sambærilegra fordæma fyrir úrskurðarnefndinni þar sem staðfest hafi verið að Tryggingastofnun hafi heimild til þess að krefjast þess af umsækjendum um örorkulífeyri að þeir fullreyni fyrst öll þau úrræði sem þeim standi til boða áður en til örorkumats komi. Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu á ákvörðun sinni um synjun á örorkumati að svo stöddu, sbr. synjunarbréf stofnunarinnar þess efnis þann 11. maí 2022, fyrir nefndinni.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að Tryggingastofnun sé framkvæmdaraðili endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í því felist að leggja mat á þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni með starfsfólki stofnunarinnar sem samanstandi af sérfræðilæknum, félagsráðgjöfum og öðrum sérfræðingum stofnunarinnar.

Á þeim forsendum leggi Tryggingastofnun sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skipti máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins. Þá sé helst skoðað hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs og hvort endurhæfing sú sem sé reynd sé virk, markviss og líkleg til þess að stuðla að endurkomu á vinnumarkað. Af öllum fyrirliggjandi gögnum í málinu sé ekki að sjá að nægjanlega hafi verið reynt að taka á heilsufarsvanda kæranda með skipulögðum og markvissum hætti með starfshæfni að markmiði.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. maí 2022 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð C, dags. 8. apríl 2022. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„ANXIETY DISORDER, UNSPECIFIED

STRESS DISORDER, POST TRAUMATIC

ALVARLEG GEÐLÆGÐARLOTA MEÐ GEÐROFSEINKENNUM“

Um sjúkrasögu kæranda segir í vottorðinu:

„Er með thalassemiu. Hún hefur traumatiska sögu frá D sem hún hefur enn ekki treyst sér til að tala um nema að hluta. Hún hefur oft á tíðum ekki treyst sér til að koma á stöðin vegna kvíðan en kom þann 7 apríl 2022. Undirritaður hefur endurtekið sent beiðni um örorku sem hefur verið hafnað. Vinnugetna hefur ekki aukist á seinasta ári og undirritaður telur ljóst að A mun ekki verða fær til að vinna á næstu 5 árum“

Um heilsuvanda og færniskerðingu segir í vottorðinu:

„A kom til Íslands ásamt eiginmanni í byrjun árs X. Hún var veik stóran hluta meðgöngu og datt niður í kvíða og þunglyndi eftir meðgöngu. Vegna þessa var hún send í FMB (foreldrar - meðganga - barn) teymi á Landsspítala. A mætti þar í 10 viðtöl. Samkvæmt bréfi var ljóst við upphaf meðferðar að A glímdi við mikla andlega vanlíðan. Hún lýsir hins vegar miklum einkennum ofsakvíða, félagskvíða og OCD ásamt vandamálum varðandi reiðistjórnun. Hún upplifði meðferðina á landspítalanum mjög neikvætt. Hún gat ekki hugsað sér innlögn og eftir að teymið ráðlagði innlög hætti hún

að geta hugsað sér að fara þangað. Vegna þunglyndis A var E sett inn í málið en búið er að leggja niður málið í bili. Var A á tímabili á mörkum geðrofseinkenna. Ákveðið var að hún yrði í reglulegri meðferð hjá sálfræðingi stöðvarinnar (F) ásamt undirrituðum . Áætlað var að hún héldi áfram meðferð hér enda hefur hún sem stendur enga trú á meðferð á Landspítalaunum og var nánast komin með ranghugmydnir um meðferð Landspítalans.

Hún tekur nú Sertral 100 mg

Hefur reynt quietipenin en þurfti að stöðva vegna aukaverkana. Það hefur komið í ljós að hún hefur mikla pósttraumatiska sögu sem hún hefur átt mjög erfitt með að tala um sem voru ma ofsóknir, kynlífsofbeldi og lífshótanir sem hún varð fyrir áður en hún kom til Íslands . Meðferð hér gaf ekki bata og ákv að sjá hvort hvíld og ró gætu gert einkenni skárri með tímanum“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„A var hér þann 07.04.2022. Hún kvartar undan stöðugri þrytu og orkuleysi og þurfi að fá hjálp eiginmanns við marga hluti. Einnig að hún þoli ekki stress og geti orði æst og grátio án ástæðiu. Fái auðveldlega höfuðverk og ógleði. Hún hætti á sínum tíma hjá Sálfræðing stöðvarinnar Það var þá samdóma álits undirritaðs og sálfræðings að endurhæfing væri ekki raunhæf. A hefur ekki komist úr húsi án stuðnings vegna veikinda sinna. Eiginmaður þá farið með henni. Ekki getað verið án eiginmanns án þess að fyllast af hamlandi hræðslu. Á erfitt með samskipti þar sem hún vantreystir flestum. Vegna kvíða í langan tíma ekki treyst sér til að koma til undirritað í viðtal en kom sjálf þann 07:04“

Í vottorðinu segir að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. apríl 2018 og að búast megi við að færni aukist með tímanum. Í athugasemdum í vottorðinu segir:

„Endurhæfing hefur verið reynd en ekki borið árangur. Vegna andlegra veikinda A telur undirritaður ekki möguleika á endurhæfingu og að hún þurfi fyrst að fá betra andlegt jafnvægi áður en endurhæfing er möguleg. Undirrituðum finnst ljóst að það verður ekki á næstu 5 árum og undirritaður mælir með örorku. Meðferð hjá Sálfræðing ásamt lyfjameðferð bar ekki þann árangur að hún gæti byrjað í annarri endurhæfingu og það er alls óvíst hvort/hvenær það verður. Endurhæfing telst því fullreynd.“

Í vottorði C læknis vegna umsóknar um örorkubætur lífeyristrygginga eða endurmats örorku, dags. 5. mars 2022, segir um fyrra heilsfar:

„Vinsamlegast notið þessa umsókn um örokubætur þar sem búið er að gera viðbót á henni. Ekki þá sem var móttekin 11 apríl.“

Að öðru leyti er lýsing á fyrra heilsufari samhljóða áðurnefndu vottorði. Um lýsingu á heilsuvanda og færniskerðingu nú segir:

„Í nótu frá landspítala kemur eftirfarandi fram:

„Þar sem líðan A hrakaði stöðugt frá byrjun ágúst þar til um miðjan desember,mátu læknir teymissins og meðferðaraðili stöðuna á þann veg að best væri fyrir A að fara í innlögn á 33C til að hægt væri að kanna ástand hennar betur. Á þeim tímapunkti lýsti A einnig ítrekað einkennum sem gátu gefið til að kynna að um alvarlegt ástand væri að ræða eins og geðrof. Hún lýsti einnig miklu stjórnleysi í hegðun og sjálfskaðandi hegðun " Hún gat hins vegar sjálf ekki hugsað sér innlögn á landspítalann og upplifði meðferðin mjög traumatiskt og aðdlegt ástand versnaði á tímabilinu og hún var lengi að ná sér.“

Önnur lýsing á heilsuvanda og færniskerðingu nú í vottorðinu er samhljóða áðurnefndu vottorði frá 8. apríl 2022. Til viðbótar við umfjöllun í því vottorði um lýsingu læknisskoðunar segir í vottorðinu:

„Varðandi mögulega endurhæfingu:

Meðferð var reynd á Landpsítala (Foreldrar - meðganga - barn). Það gekk ekki . A versnaði mikið andlega og fór nánast í geðrof þegar var þar

Meðferð var reynd hér á Heilsugæslunni gegnum sálfræðing og undirritaðan. Samdóma álit beggja var að hún væri ekki fær í endurhæfingu gegnum Virk eða aðrar stofnanir.

við seinustu komu ekki enn fær um að byrja endurhæfingu.

Undirritaður er þeirrar skoðunar að A verði ekki vinnufær næstu 5 árin.

Því áfram mælt með örorku.“

Í vottorðinu kemur fram að læknirinn telji kæranda hafa verið óvinnufæra frá 1. apríl 2018 og búast megi við að færni aukist eftir læknismeðferð eða ekki.

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, sem lagður var fram með umsókn um örorku, en þar svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í svörum kæranda greinir hún frá því að heilsuvandi hennar samanstandi af miklu þunglyndi, kvíða og áfallastreituröskun.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing sé ekki fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af andlegum toga og að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í níu mánuði. Í læknisvottorði C, dags. 8. apríl 2022, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og búast megi við að færni kæranda aukist með tímanum. Í öðru læknisvottorði C, dags. 5. mars 2022, kemur fram að ekki megi búast við að færni kæranda aukist eða að færni aukist eftir læknismeðferð. Greint er frá því í framangreindum vottorðum að það sé samdóma álit C og sálfræðings að endurhæfing sé ekki raunhæf í tilviki kæranda. Þá segir að vegna andlegra veikinda kæranda þurfi hún fyrst að fá betra andlegt jafnvægi áður en endurhæfing sé möguleg. Einnig er greint frá því mati læknisins að kærandi verði ekki vinnufær næstu fimm árin.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af lýsingum á veikindum kæranda að endurhæfing sé fullreynd. Lýsingarnar í framangreindum læknisvottorðum C eru að mestu leyti sambærilegar þeim sem komu fram í eldri læknisvottorðum hans og fjallað var um í kærumáli nr. 432/2021. Úrskurðarnefndin telur enn að sérhæfð endurhæfing þar sem kærandi væri í virkum tengslum við geðlækni eða geðheilsuteymi Landspítala eða annað sambærilegt þar sem geðlæknir myndi stýra meðferð og endurhæfingu, væri til þess fallin að auka líkur á að kærandi næði heilsu. Fyrir liggur að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í níu mánuði en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Kærandi byggir á því að mál hennar hafi ekki verið nægilega rannsakað af hálfu Tryggingastofnunar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 38. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt 38. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir. Að mati úrskurðarnefndar liggja fyrir nægjanleg gögn í máli þessu til þess að taka ákvörðun. Ekki er því fallist á framangreinda málsástæðu kæranda.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. maí 2022, um að synja kæranda um örorkumat.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum