Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 148/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 16. apríl 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 148/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19110041

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 19. nóvember 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. október 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 11. janúar 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 23. september 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 30. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 19. nóvember 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 6. desember 2019 ásamt fylgigagni. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda þann 10. febrúar 2020. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi heldur því fram í greinargerð að hann sé fæddur og uppalinn í Kinshasa, höfuðborg Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó. Af greinargerð má ráða að kærandi telji sig tilheyra minnihlutahópi í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana þar sem hann hafi stutt stjórnarandstöðuflokkinn Union pour la Démocratie et le Progrès Social (UDPS) og borið upplýsingar á milli flokksmeðlima. Kærandi kveður að í valdatíð fyrrverandi forseta landsins, Joseph Kabila, hafi verið sett á fót leyniþjónusta til að kúga stjórnarandstöðu í landinu. Leyniþjónustan hafi áreitt meðlimi UDPS, þ. á m. foreldra kæranda, sem hafi hafi sinnt mikilvægu hlutverki fyrir flokkinn við upplýsingaöflun. Faðir kæranda hafi, starfs síns vegna, verið á svörtum lista leyniþjónustunnar og margsinnis verið handtekinn af grímuklæddum útsendurum leyniþjónustunnar á heimili fjölskyldunnar. Í lok árs 2011 hafi foreldrar kæranda flúið til Angóla í kjölfar afskipta leyniþjónustunnar af opinberum stjórnmálafundi UDPS. Af greinargerð má ráða að kærandi hafi þrívegis verið handtekinn vegna tengsla foreldra sinna við UDPS. Nóttina sem kærandi hafi verið handtekinn í þriðja skiptið hafi hann verið nýkominn heim af spítala þar sem hann hafi gengist undir aðgerð vegna botnlangabólgu og kviðslits. Kærandi hafi verið yfirheyrður og pyndaður í fjóra daga en í kjölfar pyndinganna hafi farið að blæða úr skurðinum og sýking komist í sárið. Hafi hann því verið fluttur í fangelsi sem herinn hafi haft stjórn á. Í því fangelsi hafi nágranni kæranda starfað sem hermaður og hafi hann upplýst frænku kæranda um ástand hans. Í kjölfarið hafi frænka kæranda borgað mútur svo að kærandi yrði látinn laus úr fangelsinu.

Kærandi kveðst ekki getað snúið aftur til heimaríkis. Yfirvöld muni líta á hann sem stjórnarandstæðing, líkt og aðra einstaklinga sem séu sendir tilneyddir til landsins, og eigi hann því yfir höfði sér fangelsisvist. Þá eigi hann ekkert bakland í Kongó. Systkini hans hafi flutt frá landi í kjölfar ofangreindra atburða og foreldrar hans hafi bæði látist í Angóla. Þá greini kærandi frá því að UDPS flokkurinn, sem sé nú við völd, sé ekki sá flokkur sem hann hafi stutt. Undir stjórn Étienne Tshisekedi hafi flokkurinn barist gegn einræði Joseph Kabila. Frá því að sonur hans, Felix Tshisekedi, hafi tekið við formannsstöðu UDPS og embætti forseta landsins hafi gildi flokksins hins vegar verið virt að vettugi. Joseph Kabila stjórni landinu í raun og þó nokkrir flokksmeðlimir UDPS sitji nú í fangelsi.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður í Kongó. Þá er að finna almenna umfjöllun um ástand mannréttindamála og vísar kærandi í alþjóðlegar mannréttindaskýrslur máli sínu til stuðnings. Þar komi m.a. fram að öryggisástandið í Kongó hafi lengi verið afar ótryggt. Frá því að Kongó öðlaðist sjálfstæði hafi, með stuttum hléum, geisað vopnuð átök í landinu sem séu þau mannskæðustu í heiminum frá síðari heimsstyrjöld. Sameinuðu þjóðirnar hafi lýst yfir hæsta mögulega viðbúnaðarstigi í Kongó vegna ástands mannréttindamála í landinu haustið 2017 sem þó hafi verið aflýst ári síðar vegna mannúðaraðstoðar. Þá hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum til átakasvæða í austurhluta landsins og miðhluta Kasai svæðisins. Þá er fjallað um stjórnmálaástand í Kongó og erfiða stöðu stjórnarandstæðinga, þ.m.t. meðlima UDPS, og birtingarmyndir ofsókna í þeirra garð.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana, sbr. e- lið 3. mgr. 38. gr. Í greinargerð kemur fram að þrátt fyrir að kærandi hafi ekki verið háttsettur innan UDPS stjórnmálaflokksins hafi hann sætt ofsóknum í heimaríki vegna ofangreindra tengsla hans við þann hluta flokksins sem styðji ekki Felix Tshisekedi sem formann og forseta landsins. Þá hafi foreldrar kæranda orðið fyrir miklu áreiti vegna starfa sinna fyrir flokkinn. Kærandi beri sama nafn og faðir sinn og stefni það honum í frekari hættu í heimaríki. Með vísan til framangreinds og heimilda um ofsóknir í garð stjórnarandstæðinga í Kongó telur kærandi sannað að ótti hans við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana sé ástæðuríkur. Þá telur kærandi að þeir sem hann óttist falli undir ákvæði a- og c- liða 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi óttist yfirvöld og geti því ekki fært sér í nyt vernd þeirra. Þá hafi yfirvöld hvorki getu né vilja til að veita borgurum vernd gegn vopnuðum hópum sem herji á borgara landsins.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er til vara gerð sú krafa að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í tengslum við aðalkröfu kæranda sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði fyrri hluta 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands síns. Kærandi óttist áframhaldandi ofsóknir af hálfu yfirvalda og fangelsisrefsingu vegna stjórnmálaskoðana sinna. Kærandi telji, með vísan til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Peers gegn Grikklandi frá 19. apríl 2001, að aðstæður í kongóskum fangelsum séu svo slæmar að vistun þar ein og sér feli í sér brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá telji kærandi að síðari hluti 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi einnig við þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði hann sendur aftur til heimaríkis. Í því sambandi vísar kærandi til þess sem rakið hafi verið um langvarandi ófriðarástand í Kongó og blóðug átök ótal vopnahópa.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hafi verið rakið telji kærandi ljóst að viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í Kongó og að yfirvöld hafi hvorki getu né vilja til að veita þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Þá verði að líta til þess að meðal alvarlegustu mannréttindabrota í Kongó sé ill meðferð á pólitískum föngum. Í ljósi framangreinds, og veikrar stöðu kæranda sem einstaklingur með tengsl við UDPS stjórnmálaflokkinn, telur kærandi að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt og beri því að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í greinargerð gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað í málinu. Fyrir hið fyrsta gerir kærandi athugasemd við staðhæfingu stofnunarinnar að ríkisborgarar Kongó sem snúi til baka til landsins eigi almennt ekki á hættu ofsóknir eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Ljóst sé að kærandi óttist ekki ofsóknir eða fangelsisvist í heimaríki af þeirri ástæðu einni að honum verði gert að snúa til baka heldur sé um að ræða samspil þess að hann hafi áður sætt ofsóknum af hálfu yfirvalda vegna stjórnmálaskoðana og hafi flúið land vegna tengsla sinna við UDPS stjórnmálaflokkinn. Í þessu sambandi vísar kærandi til skýrslna þar sem fjallað sé um aðgerðir á hendur pólitískum aðgerðarsinnum sem snúi aftur til baka til Kongó. Þá ítrekar kærandi að það að hann eigi lítið sem ekkert bakland í heimaríki geti haft mikið um það að segja hvernig meðhöndlun hann fái hjá yfirvöldum við heimkomu.

Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar um frásögn hans af handtökum í heimaríki. Óljóst sé af hinni kærðu ákvörðun hvort verið sé að vísa í ítrekaðar handtökur föður kæranda eða tvær fyrri handtökur kæranda. Þá telji kærandi að einfalt hefði verið að spyrja sig nánar út í handtökurnar í viðtali ef þess hafi verið þörf. Jafnframt þyki kærandi það sérkennilegt að stofnunin staðhæfi að frásögn hans af því hvar ofangreindar handtökur hafi átt sér stað hafi ekki verið í samræmi við þær heimildir sem stofnunin hafi kynnt sér. Enn fremur mótmæli kærandi því að misræmi hafi verið í svörum hans hvað varðar handtökur á systkinum sínum. Í því sambandi gagnrýni kærandi að þjónustuviðtali, sem sé fyrst og fremst ætlað til að meta þjónustuþörf umsækjanda, sé gefið slíkt vægi að það hafi afgefandi áhrif á trúverðugleika hans.

Í þriðja lagi gerir kærandi athugarsemd við mat stofnunarinnar um að frásögn hans af flótta frá heimaríki og fjármögnun mútugreiðslna til að koma þeim flótta í kring hafi verið fjarstæðukennd. Mikilvægt sé að gera sér grein fyrir því að í Kongó gangi hlutirnir ekki fyrir sig eins og í hinum vestræna heimi. Því sé ekki unnt að bera sölu á búgarði föður kæranda við viðskiptahætti vestrænna ríkja og byggja trúverðugleikamat á því hvort stofnunin telji sennilegt eður ei að slík sala hafi getað farið fram á þeim fimm dögum sem kærandi hafi verið í fangelsi.

Að lokum mótmælir kærandi því að hann hafi ekki gert það sennilegt að hann eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda í heimaríki. Kærandi hafi, líkt og að framan er rakið, gert grein fyrir þeim ofsóknum sem hann og fjölskylda hans hafi þurft að þola af hálfu yfirvalda og með því leitt líkur að því að hann eigi á hættu áframhaldandi ofsóknir eða alvarlegan skaða við heimkomu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem væri til þess fallið að sanna á honum deili. Leysti stofnunin því úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats. Það var mat Útlendingastofnunar, með vísan til þess að kærandi tali frönsku og kvaðst tala Lingala, að engin ástæða væri til að draga í efa að hann sé ríkisborgari Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2019 Country Report on Human Rights Practices: Democratic Republic of the Congo (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Country Policy and Information Note. Democratic Republic of Congo: Opposition to government. Version 3.0. (UK Home Office, nóvember 2019);
  • Country Policy and Information Note. Democratic Republic of Congo: Unsuccessful asylum seekers. Version 4.0. (UK Home Office, janúar 2020);
  • Democratic Republic of Congo: Background and U.S. Relations (Congressional Research Service, 30. apríl 2019);
  • Democratic Republic of the Congo: The situation in North Kivu, South Kivu and Ituri (Asylum Research Centre, ágúst 2019); • Democratic Republic of the Congo 2020 Crime & Safety Report (OSAC, 12. mars 2020);
  • Democratic Republic of Congo: The Union for Democracy and Social Progress (Union pour la démocratie et le progrès social, UDPS), including its political agenda, structure and leaders; documents issued to members; relations with the government and treatment of members by the authorities. 2016-July 2018. (Research Directorate, Immigration and Refugee Board of Canada, 24. júlí 2018);
  • Democratic Republic of the Congo: Treatment of opposition members since the 2018 elections, including members of the Union for Democracy and Social Progress (Union pour la démocratie et le progrès social, UDPS) as well as clergy. December 2018–July 2019. (Research Directorate, Immigration and Refugee Board of Canada, 15. júlí 2019);
  • Democratic Republic of the Congo. Improving aid coordination in the health sector (World Health Organization, 2015);
  • Democratic Republic of the Congo. Global Health. (USAID, 5. september 2019);
  • UNHCR Position on Returns to North Kivu, South Kivu, Ituri, and Adjacent Areas in the Democratic Republic of Congo Affected by Ongoing Conflict and Violence – Update II (UNHCR, september 2019);
  • The state of emergency care in Democratic Republic of Congo (African Journal of Emergency Medicine, 21. september 2015);
  • The World Factbook: Democratic Republic of Congo (Central Intelligence Agency, 13. mars 2020); 
  • World Report 2020 – Democratic Republic of Congo. Events of 2019 (Human Rights Watch, 15. janúar 2020).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Lýðstjórnarlýðveldið Kongó (e. Democratic Republic of the Congo, hér eftir Kongó) stjórnarskrárbundið lýðveldi með tæplega 102 milljónir íbúa. Kongó var nýlenda Belgíu fram að sjálfstæði þess þann 30. júní 1960 og sama ár gerðist Kongó aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1976. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, en ríkið hefur hins vegar ekki undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn. Þá fullgilti ríkið samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990. Kongó fullgilti jafnframt samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1996 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2010.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að fyrstu árin í kjölfar sjálfstæðis Kongó hafi einkennst af óstöðugleika og átökum milli hersveita og aðskilnaðarhreyfinga í suð-austurhluta landsins. Herforinginn Joseph Mobutu hafi náð völdum árið 1965 með valdaráni og hafi hann haldið stöðu sinni í 32 ár í krafti ólögmætra kosninga og með valdbeitingu. Mobutu hafi, í kjölfar fyrra Kongóstríðsins svokallaða, verið steypt af stóli árið 1997 af uppreisnarhópi Laurent Kabila og bandamanna hans frá Rúanda, Úganda og Búrúndí. Að því búnu hafi Laurent Kabila sest á forsetastól og stofnað stjórnmálaflokkinn People‘s Party for Reconstruction and Democracy (PPRD). Af ótta við að valdarán yrði framið gegn sér hafi Kabila skipað bandamönnum sínum að hverfa frá Kongó en þeir hafi brugðist með því að gera innrás í landið. Hafi það markað upphaf seinna Kongóstríðsins; mannskæðs borgarastríðs sem hafi, vegna þátttöku níu Afríkuríkja og ótal stríðandi vopnahópa, einnig verið þekkt sem Afríkustríðið mikla (e. The Great War of Africa). Borgarastríðið, sem hafi að mestu farið fram í austurhluta Kongó, hafi formlega lokið árið 2003.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að Laurent Kabila hafi verið ráðinn af dögum árið 2001 og hafi sonur hans, Joseph Kabila, þá tekið við formannsstöðu PPRD og embætti forseta. Joseph Kabila hafi á umdeildan hátt sigrað forsetakosningar árin 2006 og 2011. Þá hafi hann neitað að láta af embætti og halda forsetakosningar í landinu þegar að stjórnarskrárlegt umboð hans hafi fallið úr gildi árið 2016. Hafi það leitt til víðtækra mótmæla og aukið á stjórnmálalegan og félagslegan óstöðugleika í landinu. Í kjölfar vikulangra mótmæla hafi yfirvöld náð samkomulagi við stjórnarandstöðu í landinu þess efnis að valdi yrði skipt milli yfirvalda og stjórnarandstöðuflokka, pólitískum föngum yrði sleppt og forsetakosningar yrðu haldnar árið 2017. Yfirvöld hafi hins vegar gengið á bak orða sinna og ítrekað frestað kosningum þar til Joseph Kabila hafi, í ágúst 2018, tilkynnt að kosningarnar færu fram þann 30. desember s.á. og að hann myndi þá stíga til hliðar. Í aðdraganda kosninganna hafi yfirvöld m.a. haft afskipti af dómstólum og fjölmiðlum, beitt óhóflegri valdbeitingu til að stöðva mótmæli og handtekið mótmælendur.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að það séu um sex hundruð stjórnmálaflokkar í Kongó. Union pour la Démocratie et le Progrès Social (UDPS), sem hafi verið stofnaður árið 1982, sé elstur þeirra og einn sá stærsti. Andlát Étienne Tshisekedi, formanns UDPS og fyrrum forsætisráðherra Kongó, í byrjun árs 2017 hafi leitt til átaka og klofnings innan flokksins, m.a. vegna ósættis um þá ráðstöfun að láta syni hans, Felix Tshisekedi, völdin í hendurnar. Þann 11. nóvember 2018 hafi Felix Thisekedi og sex aðrir leiðtogar stjórnarandstöðuflokka gert samkomulag um að Martin Fauylu, formaður Engagement for Citizenship and Development Party, yrði forsetaefni samsteypuframboðsins Lamuka. Innan við sólarhring síðar hafi Felix Thisekedi hins vegar afturkallað stuðningsyfirlýsingu sína og tilkynnt að hann myndi bjóða sig fram til forseta fyrir hönd UDPS og kosningabandalagsins Course for Change (CACH). Felix Thisekedi hafi óvænt staðið uppi sem sigurvegari kosninganna og hafi það verið í fyrsta skipti í sögu landsins þar sem valdaskipti hafi átt sér stað án umtalsverðra átaka eða valdaráns. Frjáls félagasamtök hafi þó gagnrýnt kosningarnar vegna skorts á gagnsæi og frávika í skráningu á atkvæðum. Þá hafi Martin Fauylu neitað að viðurkenna kjör Felix Thisekedi og haldið því fram að hann sé réttkjörinn forseti landsins. Í kjölfar þingkosninga í mars 2019 þar sem samsteypuflokkur Laurent Kabila, Common Front for Congo (FCC), hafi unnið mikinn meirihluta sæta á þingi hafi CACH og FCC ákveðið að ganga til stjórnarsamstarfs. Samkvæmt stjórnarmyndunarsamningi hafi FCC fengið 65 % ráðherrastóla en CACH 35 %. Eftir að Felix Tshisekedi hafi tekið við embætti forseta hafi dregið úr pólitískri spennu í landinu en hann hafi náðað um sjö hundruð pólitíska fanga, hvatt pólitíska útlaga til að snúa aftur til landsins, lagt áherslu á baráttu gegn spillingu og tilkynnt um ýmsar endurbætur, m.a. á sviði öryggis- og stjórnmála. Þá hafi staða stjórnarandstæðinga í landinu tekið framförum en yfirvöld hafi sýnt aukið umburðarlyndi í garð stjórnarandstöðuflokka.

Samkvæmt ofangreindum gögnum sé löggæsla ríkisins í höndum ríkislögreglu Kongó, Congolese National Police Service (PNC), og heyri hún undir innanríkisráðuneyti ríkisins. Hersveitir á vegum yfirvalda (e. The Armed Forces of the Democratic Republic of Congo, FARDC) fari þó einnig með löggæsluvald. Spilling og skortur á gagnsæi á öllum stigum stjórnvalda, þ. á m. hjá lögreglu og hersveitum, hafi verið vandamál og séu dæmi um að lögregluþjónar og hermenn þiggi mútur. Yfirvöld hafi ekki fulla stjórn yfir hersveitum sínum og dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda fremji alvarleg mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur, mannrán, handahófskenndar handtökur og pyndingar í varðhaldi. Refsileysi hafi verið vandamál og hafi yfirvöld ekki alltaf rannsakað eða ákært mannréttindabrot sem opinberir starfsmenn hafi verið sakaðir um. Þá sé reglulega brotið á grundvallarréttindum fanga í kongóskum fangelsum og séu aðstæður þar taldar vera lífshættulegar.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að öryggisástandið í Kongó sé breytilegt eftir landshlutum en Kinshasa hérað sé talið eitt af öruggustu héruðum landsins. Langvarandi átök milli hersveita á vegum yfirvalda og ótal vopnahópa hafi að mestu verið staðbundin við austurhluta landsins, n.tt. héruðin norður- og suður Kivu og Ituri. Alvarleg mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Kongó sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Kongómanna frá þeim svæðum þar sem átök geisi. Þá sé það mat stofnunarinnar að í miklum meirihluta mála sé ekki grundvöllur til að líta svo á að Kongómenn frá þessum svæðum geti notið verndar í öðrum hlutum landsins.

Af ofangreindum gögnum, þ. á m. skýrslum breska innanríkisráðuneytisins frá 2019 og 2020, verður ráðið að einstaklingar sem hafi tekið þátt í stjórnarandstöðu í Kongó að því leyti að það hafi vakið neikvæða athygli yfirvalda eigi á hættu að sæta gæsluvarðhaldi eða fangelsisrefsingu við endursendingu til heimaríkis. Á hinn bóginn eigi meðlimir eða stuðningsmenn stjórnarandstöðuflokka eða UDPS, eða aðrir sem hafi ekki vakið athygli yfirvalda, almennt ekki á hættu ofsóknir, pyndingar, refsingar eða aðra ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð við endursendingu til heimaríkis af þeirri ástæðu einni.

Af ofangreindum gögnum verður ráðið að heilbrigðiskerfið í Kongó sé undirfjármagnað og innviðir þess veikburða. Þrátt fyrir að heilbrigðisaðstoð sé í boði fyrir alla sé skortur á heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki auk þess sem litlar kröfur séu gerðar til heilbrigðisstofnana. Aðgengi sé almennt betra á þéttbýlli svæðum landsins en á öðrum svæðum. Þá sé lækniskostnaður almennt hár og aðgengi að lyfjum takmarkað. Yfirvöld hafi, í samvinnu við alþjóðastofnanir, lagt áherslu á eflingu heilbrigðiskerfisins og uppbyggingu innviða undanfarin ár, þ. á m. með því að auka fjárframlög til heilbrigðismála sem hafi leitt til marktækra framfara.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna tengsla við stjórnarandstöðuflokkinn UDPS.

Í endurriti viðtals við kæranda, sem tekið var hjá Útlendingastofnun þann 23. september 2019, kemur fram að kærandi hafi greint frá því að foreldrar hans hafi verið meðlimir í UDPS og sinnt mikilvægu hlutverki fyrir flokkinn við upplýsingaöflun. Kærandi hafi ekki verið meðlimur í flokknum en hann hafi verið virkur í starfi flokksins og borið upplýsingar á milli föður síns og háskólaprófessors. Faðir kæranda hafi, starfs síns vegna, margsinnis verið handtekinn af grímuklæddum útsendurum á vegum Joseph Kabila. Þá hafi kærandi þrívegis verið handtekinn í heimaríki en af viðtali verður ráðið að það hafi verið vegna tengsla foreldra hans við UDPS. Þegar kærandi hafi verið handtekinn í þriðja skiptið hafi ofangreindir útsendarar tekið kæranda í stað foreldra hans þar sem þau hafi ekki verið heima við. Kærandi hafi verið vistaður í fangelsi og pyndaður þar til frænka hans hafi borgað mútur svo að hann yrði látinn laus úr fangelsinu.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd hefur hann framvísað handskrifuðu bréfi á frönsku sem hann kveður að snúi að pólitískum aðstæðum og öryggisaðstæðum í Kongó og dagblaði (Le Centriste), dags. 14. mars 2012, sem kærandi kveður að innihaldi grein um sig og föður sinn. Við rannsókn málsins fann kærunefnd ekki nein gögn eða upplýsingar um umrætt dagblað. Óskaði kærunefnd því eftir því í tölvupósti, dags. 19. mars 2020, að kærandi myndi leggja fram gögn eða vísa til upplýsinga um útgáfu dagblaðsins. Í svörum sem bárust frá kæranda þann 30. mars s.á. kemur fram að blaðið hafi verið gefið út frá því fyrir árið 2010 en ólíklegt sé að finna megi upplýsingar um blaðið, líkt og önnur bæjarblöð í Kongó, á internetinu. Þá hvatti kærandi nefndina til að hafa samband við dagblaðið í gegnum tölvupóst og símanúmer á forsíðu dagblaðsins. Þann sama dag sendi nefndin fyrirspurn á framangreindan tölvupóst en ekkert svar hefur borist nefndinni. Þá hefur kærandi, líkt og áður hefur komið fram, ekki lagt fram gögn sem sýna fram á hver hann er eða tengsl hans við þann aðila sem um er ritað í fyrrgreindu dagblaði. Að teknu tilliti til skýringa kæranda er það mat kærunefndar að ofangreind gögn séu ekki til þess fallin að leggja grunn að frásögn hans.

Þá framvísaði kærandi flokkskírteini sem ber með sér að vera útgefið af UDPS stjórnmálaflokknum og kosningaskírteini, dags. 29. maí 2010, sem ber með sér að vera útgefið af yfirvöldum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Óskaði kærunefnd eftir því að Flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum framkvæmdi rannsókn á gögnunum, en skýrsla lögreglu barst 3. mars sl. Í niðurstöðu skýrslunnar kemur m.a. fram að ofangreint kosningaskírteini sé grunnfalsað og að um mjög grófa eftirlíkingu sé að ræða. Þá hafi ekki fundist samanburðargögn fyrir ofangreint flokkskírteini en það sé ótraust og að öllum líkindum falsað.

Kæranda var gefinn kostur á að koma með athugasemdir varðandi niðurstöðu lögreglunnar á Suðurnesjum. Í athugasemdum kæranda, dags. 12. mars sl., kom fram að samkvæmt hans bestu vitund væri ekki um fölsuð gögn að ræða. Hann hafi fengið gögnin á sínum tíma í Kongó og lagt þau fram í góðri trú um að þau væru ófölsuð. Þá bendi kærandi á að í niðurstöðu lögreglunnar á Suðurnesjum komi fram að ekki hafi fundist samanburðargögn fyrir flokkskírteinið sem kærandi hafi lagt fram. Þrátt fyrir að skjalið sé metið ótraust sé ekki fullyrt að um falsað skjal sé að ræða heldur einungis tekið fram að það sé að öllum líkindum falsað. Kærandi telur að túlka beri allan hugsanlega vafa sér í hag og að rétt sé að horfa til þeirra fyrirvara sem settir séu í skýrslunni. Kærunefnd telur ofangreindar skýringar kæranda ekki vera til þess fallnar að niðurstaða lögreglunnar á Suðurnesjum verði dregin í efa. Að mati kærunefndar dregur framlagning gagnanna, sem tengjast meginatriðum í frásögn kæranda, að verulegu leyti úr trúverðugleika frásagnar hans í málinu.

Kærandi hefur að öðru leyti ekki fært fram trúverðug gögn, t.a.m. um þátttöku sína eða foreldra sinna í starfi UDPS, sem þykja til þess fallin að styðja við frásögn hans af þeim atvikum sem hann hefur lagt til grundvallar umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Í ljósi frásagnar kæranda sjálfs um að ætlaðar ofsóknir hafi átt sér stað fyrir um níu árum síðan er að mati kærunefndar ekki ósanngjarnt að gera kröfu um að kærandi leggi fram einhver gögn sem leiði að því líkur að hann eigi á hættu ofsóknir á grundvelli stjórnmálaskoðana í heimaríki, s.s. ófölsuð gögn um aðild hans að UDPS flokknum. Það er því mat kærunefndar að skortur á gögnum til stuðnings frásögn kæranda og framlagning falsaðra og ótrúverðugra gagna leiði til þess að frásögn hans af atburðum og ástæðum flótta teljist ótrúverðug. Verður hún því ekki lögð til grundvallar í málinu. Þá verður ekki ráðið af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér við meðferð málsins, og rakin eru að framan, að stuðningsmenn UDPS flokksins, þ. á m. þeir sem styðji ekki Felix Thisekedi sem formann flokksins og forseta, eigi almennt á hættu ofsóknir af þeirri ástæðu einni. Að mati kærunefndar benda gögn málsins og framburður kæranda samkvæmt framangreindu ekki til þess að hann eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda á grundvelli stjórnmálaskoðana í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærunefnd telur gögn málsins að öðru leyti ekki benda til þess að kærandi eigi á hættu ofsóknir af því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Líkt og að ofan er rakið hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Kongómanna til þeirra svæða þar sem átök geisa, þ.e. norður- og suður Kivu og Ituri í austurhluta landsins. Flóttamannastofnun hefur ekki lagst gegn endursendingu til Kinshasa, þess héraðs sem kærandi kveðst vera frá, eða annarra svæða þar sem átök geisa ekki og öryggisástand er talið stöðugt.

Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, í Kinshasa héraði, á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur þangað. Þá er ekkert sem bendir til þess að kærandi eigi á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Með vísan til mats kærunefndar á trúverðugleika kæranda verður heldur ekki talið að hann eigi á hættu að sæta meðferð í heimaríki sem fellur undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vegna stjórnmálaskoðana.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi ber fyrir sig að verði hann sendur aftur til heimaríkis muni bíða hans erfiðar félagslegar aðstæður þar. Mannréttindabrot séu viðvarandi og yfirvöld hafi hvorki getu né vilja til að veita þegnum sínum vernd gegn handahófskenndum ofeldisbrotum eða glæpum. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Af framangreindum gögnum er ljóst að öryggisástand í heimaríki kæranda hefur í gegnum tíðina verið ótryggt auk þess sem innviðir, svo sem refsivörslukerfi, séu veikir. Eins og rakið hefur verið er það hins vegar mat kærunefndar, með hliðsjón af gögnum þar að lútandi, að öryggisástand í Kinshasha héraði sé ekki með þeim hætti að almennar aðstæður þar teljist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og að kærandi hafi ríka þörf á vernd af þeim sökum.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun kom fram að hann væri almennt við góða líkamlega heilsu en í gögnum frá göngudeild sóttvarna kemur fram að hann glími við kvíða og geðlægðarröskun og hafi fengið lyf vegna háþrýstings og gyllinæð. Ekki verður talið að um alvarleg eða lífshættulega veikindi sé að ræða og þá verður af gögnum um heimaríki kæranda ekki ráðið annað en að hann hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu og lyfjum í heimaríki sínu.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Þegar framangreindar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 11. janúar 2019 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                    Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum