Hoppa yfir valmynd
26. júní 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál 12/2015.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 22. júní 2015

í máli nr. 12/2015:

Íslenskir aðalverktakar hf.

gegn

Framkvæmdasýslu ríkisins

Fjallabyggð

og Köfunarþjónustunni ehf.

Með kæru 10. júní 2015 kæra Íslenskir aðalverktakar hf. ákvörðun Framkvæmdasýslu ríkisins fyrir hönd Fjallabyggðar um að velja tilboð Köfunarþjónustunnar ehf. í útboði nr. 15849 „Snjóflóðavarnir Siglufirði, N-Fífladalir. Uppsetning stoðvirkja“. Kröfur kæranda eru að kærunefnd útboðsmála felli ákvörðunina úr gildi, gefi álit á skaðabótaskyldu og úrskurði að varnaraðilum verði gert að greiða málskostnað. Í greinargerð varnaraðila Framkvæmdasýslu ríkisins 18. júní 2015 var þess krafist að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Lítur nefndin svo á að í því felist krafa um afléttingu sjálfkrafa stöðvunar. Varnaraðili Köfunarþjónustan ehf. gerði athugasemdir við kæruna 16. júní sl. Kærunefnd útboðsmála óskaði eftir frekari upplýsingum frá varnaraðilum 18. júní sl. og bárust þær 19. júní sl. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerðir varnaraðila 22. júní 2015. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Mál þetta lýtur að útboði þar sem leitað var tilboða í uppsetningu stoðvirkis úr stáli á upptakasvæðum snjóflóða í norður Fífladölum. Í grein M2b í kafla 0.1.3 í útboðsgögnum eru settar fram kröfur og skilyrði til bjóðenda og þar kemur m.a. fram að eigið fé bjóðenda skuli vera jákvætt samkvæmt ársreikningi, endurskoðuðum af löggiltum endurskoðanda. Ársreikningurinn skuli auk þess vera án athugasemda um rekstrarhæfi. Í lok kafla 0.1.3. segir að bjóðendur skuli skila þeim gögnum sem fram komi í kafla 0.4.2 en skili bjóðandi ekki inn öllum umbeðnum gögnum með tilboði sínu, verði ekki gengið til samninga við hann. Í kafla 0.4.2. í útboðsgögnum er m.a. gerð krafa um endurskoðaða ársreikninga síðustu tveggja ára. Í kafla 0.4.6 segir að við mat á tilboðum meti kaupandi hvort bjóðandi uppfylli þær kröfur sem settar séu fram í kafla 0.1.3. Við það mat verði eingöngu stuðst við þær upplýsingar sem fram komi í þeim gögnum sem bjóðendur skili inn með tilboði sínu í samræmi við kafla 0.4.2. Skorti gögn eða þau sýni ekki fram á að bjóðandi hafi uppfyllt framangreind skilyrði teljist tilboðið vera ógilt. Tvö tilboð bárust, annars vegar frá kæranda að fjárhæð 614.089.012 krónur en hins vegar frá Köfunarþjónustunni ehf. að fjárhæð 578.845.000 krónur. Varnaraðilar tóku tilboði Köfunarþjónustunnar ehf. 1. júní 2015. Kæra var borin undir nefndina 10. júní 2015 og leiddi þannig til sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013.

            Kærandi telur að Köfunarþjónustan ehf. fullnægi ekki framangreindum kröfum um fjárhagslegt hæfi enda séu ársreikningar félagsins ekki endurskoðaðir. Kærandi hafi aflað ársreikninga Köfunar­þjónustunnar ehf. fyrir rekstrarárin 2012 og 2013. Í ársreikningnum fyrir 2012 komi fram í áritun endurskoðanda að endurskoðun hafi ekki farið fram. Í ársreikningnum fyrir 2013 komi fram að endurskoðandi hafi kannað ársreikning félagsins samkvæmt alþjóðlegum staðli ISRE 2400 en sú könnun sé ekki eins víðtæk og endurskoðun sem unnin sé í samræmi við alþjóðlega endurskoðendastaðla. Af þeim sökum láti endurskoðandinn ekki í ljós álit sitt um endurskoðun reikningsins. Kærandi telur að vöntun á endurskoðuðum ársreikningum leiði til þess að tilboð Köfunarþjónustunnar ehf. sé ógilt.

Varnaraðilar fullyrða að Köfunarþjónustan ehf. hafi skilað endurskoðuðum ársreikningum og samkvæmt þeim uppfylli fyrirtækið öll skilyrði útboðsins. Þá fullyrða varnaraðilar að 11. júní 2015 hafi kæranda verið boðið að sjá gögnin sem fylgdu tilboði Köfunarþjónustunnar ehf.

Niðurstaða

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort Köfunarþjónustan ehf. hafi uppfyllt skilyrði um fjárhagslegt hæfi með því að leggja fram endurskoðaða ársreikninga síðustu tveggja ára með tilboðum sínum. Varnaraðilar hafa lagt ársreikninga Köfunarþjónustunnar ehf. fyrir rekstrarárin 2013 og 2014 fyrir kærunefnd útboðsmála. Verður að leggja til grundvallar að þessir reikningar hafi fylgt tilboði félagsins. Ársreikningar fyrir árin 2013 og 2014 eru áritaðir af endurskoðanda og kemur fram að þeir hafi verið endurskoðaðir. Eins og málið liggur fyrir kærunefnd verður samkvæmt þessu ekki annað ráðið en að Köfunarþjónustan ehf. hafi uppfyllt þau skilyrði útboðsgagna sem áður eru rakin. Það er því álit nefndarinnar að ekki hafi verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup sem leitt geti til ógildingar ákvarðana eða annarra athafna varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að stöðvun samningsgerðar verði aflétt samkvæmt 2. mgr. 94. gr. a. laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013.

 Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun samningsgerðar varnaraðila, Framkvæmdasýslu ríkisins og Fjallabyggðar, við Köfunarþjónustuna ehf. á grundvelli útboðs nr. 15849 „Snjóflóðavarnir Siglufirði, N-Fífladalir. Uppsetning stoðvirkja“.

                                                                                     Reykjavík, 22. júní 2015.

                                                                                     Skúli Magnússon

                                                                                     Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum