Hoppa yfir valmynd
9. ágúst 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 348/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 9. ágúst 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 348/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18070037 og KNU18070038

 

Beiðni […],

[…] og barns þeirra um endurupptöku

I.             Málsatvik

Með úrskurði nr. 204/2018 uppkveðnum þann 24. apríl 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 25., 29. og 31. janúar 2018, um að taka umsóknir […], fd. […] (hér eftir K), […], fd. […] (hér eftir M), og barns þeirra, […], fd. […] (hér eftir A), öll ríkisborgarar Íraks, um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda þau til Frakklands. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 30. apríl 2018. Kærendur óskuðu eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 7. maí 2018. Beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 22. maí 2018. Þann 22. júlí sl. barst kærunefnd endurupptökubeiðni kærenda ásamt greinargerð.

II.            Málsástæður og rök kærenda

Í beiðni kærenda um endurupptöku er byggt á því að barn M og K, A, uppfylli skilyrði ákvæðis I til bráðabirgða í lögum nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016, og því beri að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendur benda á að þau hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þann 15. október 2017 og hafi dvalið hér á landi í yfir níu mánuði.

Í greinargerð kærenda er jafnframt fjallað um aðstæður þeirra og bakgrunn. Segir m.a. að þau séu ung hjón með barn, hafi verið skilgreind í sérstaklega viðkvæmri stöðu og óttist ofsóknir í Frakklandi. Telja kærendur að í úrskurði kærunefndar hafi ekki verið tekið nægjanlegt tillit til sérstaklega viðkvæmrar stöðu fjölskyldunnar, m.a. í ljósi slæms andlegs ástands K. Er farið fram á endurupptöku málsins með vísan til 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur óska einnig eftir því að kærunefnd fresti réttaráhrifum úrskurðar nr. 204/2018 á meðan beiðni þeirra um endurupptöku er til meðferðar hjá nefndinni, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir m.a. að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Þann 29. september 2017 tóku gildi lög nr. 81/2017 sem bættu tveimur ákvæðum til bráðabirgða við lög um útlendinga nr. 80/2016. Í 1. mgr. ákvæðis I til bráðabirgða segir að þrátt fyrir 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli miða við níu mánuði í stað 12 mánaða ef um barn sé að ræða og umsókn þess um alþjóðlega vernd hafi fyrst borist íslenskum stjórnvöldum fyrir gildistöku laga þessara, enda hafi umsækjandi ekki þegar yfirgefið landið.

Samkvæmt gögnum málsins voru umsóknir M, K og A um alþjóðlega vernd hér á landi lagðar fram þann 15. október 2017. Umsókn A var því ekki lögð fram fyrir gildistöku laga nr. 81/2017 þann 29. september 2017 líkt og kveðið er á um í 1. mgr. ákvæðis I til bráðabirgða í lögum um útlendinga, sbr. lög nr. 81/2017. Kærunefnd telur því skilyrði 1. mgr. ákvæðis I til bráðabirgða í lögum um útlendinga ekki uppfyllt og er beiðni kærenda um endurupptöku mála þeirra hjá nefndinni á þeim grundvelli því hafnað.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 24. apríl 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kærenda til Frakklands bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki talið eiga við í máli kærenda, þ.e. kærendur hefðu ekki slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður þeirra væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Í beiðni kærenda um endurupptöku er þess m.a. getið að þau séu ung hjón með barn, að þau hafi verið metin í sérstaklega viðkvæmri stöðu, að heilsufari K sé ábótavant og að þau óttist ofsóknir í Frakklandi sem og að vera send þaðan til heimaríkis. Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kærenda um endurupptöku á áðurnefndum úrskurði. Telur kærunefnd að um sé að ræða sömu upplýsingar um það sem fyrir lá þegar úrskurður í máli kærenda var kveðinn upp. Að teknu tilliti til frásagnar kærenda og gagna málsins er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 24. apríl 2018 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Að mati kærunefndar liggja ekki fyrir aðrar ástæður í málinu sem leitt gætu til endurupptöku málsins. Kröfu kærenda um endurupptöku mála þeirra er því hafnað.

Með úrskurði nr. 245/2018 frá 22. maí 2018 hefur kærunefnd þegar tekið afstöðu til beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar, nr. 204/2018 frá 24. apríl 2018, en þá beiðni lögðu kærendur fram með vísan til 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Hvað varðar kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á grundvelli 29. gr. stjórnsýslulaga vekur kærunefnd athygli á því að ákvæðið fjallar um réttaráhrif kærðrar ákvörðunar og mögulega frestun réttaráhrifa vegna stjórnsýslukæru. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd þegar kveðið upp úrskurð í máli kærenda sem felur í sér endanlega niðurstöðu í máli þeirra á stjórnsýslustigi. Kemur því ekki til skoðunar að veita frestun réttaráhrifa á grundvelli þessa ákvæðis.

 

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfum kærenda er hafnað.

 

The requests of the appellants are denied.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                             Árni Helgason


 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum