Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Matvælaráðuneytið

Endurmat á losun gróðurhúsalofttegunda frá ræktarlandi

Heyskapur í Landsveit - myndHugi Ólafsson

Matvælaráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafa falið Landgræðslunni að endurmeta losun gróðurhúsalofttegunda frá ræktarlandi í losunarbókhaldi Íslands.

Við útreikninga á hluta landbúnaðar í losunarbókhaldi Íslands er stuðst við rannsókn um losun og bindingu ræktarlands frá 1975. Ræktarland, einkum tún í framræstu mýrlendi, er stór hluti heildarlosunar frá landbúnaði. Talsverður breytileiki er í losun ólíkra landflokka og landsvæða og benda nýlegar rannsóknir til að þörf sé á að endurmeta stuðla um losun og bindingu frá ólíkum svæðum. Landgræðslan mun leiða vinnu við öflun nýrra gagna m.a. með sýnatökum og mælingum á fjölda svæða víðs vegar um landið í því skyni að bæta losunarbókhald Íslands og þá stuðla sem það byggir á.

Ráðuneytin hafa unnið í sameiningu að undirbúningi verkefnisins og gert er ráð fyrir að Landgræðslan leiti samstarfs við háskólastofnanir eða aðra hæfa aðila í verkefninu. Reikna má með að fyrstu niðurstöður liggi fyrir árið 2024, en lokaniðurstöður í árslok 2026.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Framræstur jarðvegur er í dag helsta uppspretta losunar frá ræktarlandi. Flestir eru þó sammála um það að enn vanti ákveðna vissu í útreikninga á losun frá landi.  Með þessu verkefni ætlum við að tryggja að framkvæmdar verði rannsóknir sem taki fram fullnægjandi gögn um losun gróðurhúsalofttegunda frá ræktarlandi fyrir losunarbókhald okkar enda er mikilvægt að hægt sé að taka ákvarðanir út frá eins góðum gögnum og mögulegt er.“

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra: „Við þurfum að bæta þekkingu okkar á samspili landnýtingar og loftslagsmála. Það styður við stefnumótun stjórnvalda m.a. varðandi það hvernig landbúnaðurinn getur haft sem minnst neikvæð áhrif á loftslagið og aðra umhverfisþætti. Auk þess er þessi þekking nauðsynleg til að efla samstarf bænda, vísindamanna og stjórnvalda á þessu sviði.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum