Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 192/2021 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 28. apríl 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 192/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21030082

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. mars 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Georgíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. mars 2021, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins hafði lögregla afskipti af kæranda vegna gruns um brot á ákvæðum laga um útlendinga og var honum birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann hinn 23. febrúar 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. mars 2021, var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann til Íslands í tvö ár. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 26. mars 2021. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 13. apríl 2021.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að lögregla hefði haft afskipti af kæranda og birt fyrir honum tilkynningu um hugsanlega brottvísun og endurkomubann þann 23. febrúar 2021. Hafi kæranda verið gefinn sjö daga frestur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum auk þess að leggja fram andmæli vegna tilkynningarinnar. Kærandi hefði við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun ekki lagt fram andmæli eða önnur gögn sem sýndu fram á að hann hefði yfirgefið landið í samræmi við framangreinda tilkynningu. Samkvæmt stimpluðum síðum í vegabréfi kæranda hefði hann komið inn á Schengen-svæðið hinn 13. mars 2019 og hefði því dvalið samfleytt á Schengen-svæðinu í um 728 daga.

Útlendingastofnun komst að þeirri niðurstöðu í ákvörðun sinni að dvöl hans hefði ekki takmarkast við 90 daga dvöl á Schengen-svæðinu á 180 daga tímabili. Hefði að mati stofnunarinnar ekkert komið fram í málinu sem leiddi til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans með hliðsjón af tengslum hans við landið eða atvikum máls, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu væri Útlendingastofnun rétt og skylt að brottvísa kæranda frá Íslandi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann til landsins í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga, með hliðsjón af alvarleika brots kæranda.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er byggt á því að kærandi hafi haft fullan hug til að fara aftur til heimaríkis eftir að honum var birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann hinn 23. febrúar 2021. Hafi sú tilraun verið án árangurs þar sem fá flug hafi verið frá landinu vegna Covid-19. Hafi markmið kæranda ávalt verið það að fá dvalarleyfi á grundvelli atvinnu hér á landi og greiða hér skatta og gjöld. Að mati kæranda verði það að teljast brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga að beita slíku íþyngjandi úrræði, sérstaklega í ljósi þess að það geri honum ókleift að ferðast innan Schengen-svæðisins á meðan endurkomubannið gildir. Þá hafi kærandi við birtingu hinnar kærðu ákvörðunar kosið að þiggja boð stoðdeildar ríkislögreglustjóra um flutning til heimaríkis þar sem honum hafi reynst ófært um að finna flug og snúa aftur heim innan þess sjö daga frests sem honum hafi verið veittur til sjálfviljugrar heimfarar. Þá byggir kærandi á því að vegna harðra sóttvarnaraðgerða á Íslandi hafi hann mátt gera ráð fyrir því að vera í löglegri dvöl á landinu.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er útlendingi, sem ekki þarf vegabréfsáritun til landgöngu, heimilt að dveljast hér á landi í 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu telst jafngilda dvöl hér á landi. Þá segir í 1. mgr. 50. gr. laganna að útlendingur sem hyggist dvelja hér á landi lengur en honum sé heimilt skv. 49. gr. þurfi að hafa dvalarleyfi.

Í 8. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum, er nánar fjallað um dvöl án dvalarleyfis. Þar segir í 1. mgr. 8. gr. að útlendingur, sem þurfi vegabréfsáritun til landgöngu, megi ekki dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum sé óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu teljist jafngilda dvöl hér á landi. Samanlögð dvöl á Schengen-svæðinu megi ekki fara yfir 90 daga á 180 daga tímabili. Þá segir í 2. mgr. 8. gr. að dvalartími útlendings sem er undanþeginn áritunarskyldu reiknist frá þeim degi er hann kom inn á Schengen-svæðið. Ef útlendingurinn hefur dvalarleyfi í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu reiknist dvalartíminn frá þeim degi er hann fór yfir innri landamæri Schengen-svæðisins.

Á grundvelli a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann dvelst ólöglega í landinu. Kærandi er ríkisborgari Georgíu og þarf því ekki vegabréfsáritun til landgöngu hér á landi, sé hann handhafi vegabréfs með lífkennum. Samkvæmt stimpli í vegabréfi kæranda kom hann inn á Schengen-svæðið hinn 13. mars 2019 í gegnum Berlín í Þýskalandi. Ekki er um það deilt í málinu að kærandi hefur dvalið á Schengen-svæðinu frá þeim tíma. Þegar lögregla birti fyrir kæranda tilkynningu um hugsanlega brottvísun frá landinu þann 23. febrúar 2021 hafði hann dvalið á Schengen-svæðinu í 714 daga, eða tæplega tvö ár. Hin kærða ákvörðun var birt fyrir kæranda hinn 15. mars 2021, eða 21 degi eftir að honum var birt framangreind tilkynning um hugsanlega brottvísun. Að mati kærunefndar gafst kæranda nægt ráðrúm til þess að yfirgefa landið á þeim tíma þrátt fyrir ferðatakmarkanir vegna Covid-19. Enn fremur er ljóst að kærandi var frá 11. júní 2019 í ólögmætri dvöl en á þeim tíma voru engar ferðatakmarkanir til og frá landinu.

Með vísan til framangreinds er skilyrðum a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga um brottvísun fullnægt. Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að brottvísun kæranda geti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans með hliðsjón af tengslum hans við landið.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda dvaldi hann ólöglega í landinu. Þá verður ákvörðun Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. jafnframt staðfest, en samkvæmt ákvæðinu skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár og ljóst er að endurkomubanni er m.a. ætlað að hafa almenn varnaðaráhrif gegn brotum útlendings á ákvæðum laga hér á landi, m.a. á ákvæðum laga um útlendinga. Gögn málsins bera ekki með sér að kærandi hafi yfirgefið landið og mun endurkomubann til landsins því hefjast þann dag sem hann verður færður úr landi eða fer af sjálfsdáðum af landi brott, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga er heimilt, samkvæmt umsókn þar um, að fella endurkomubann úr gildi hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson, varaformaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum