Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 295/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 1. júlí 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 295/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21060015

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 25. febrúar 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. desember 2020, um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi [...], f.d. [...], ríkisborgari Alsír, ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. 

Niðurstaða kærunefndar var send lögmanni kæranda með ábyrgðarpósti hinn 25. febrúar 2021. Hinn 18. mars 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjali. Þá bárust frekari gögn og skýringar dagana 24. mars, 5., 9., 13. og 19. apríl 2021. Niðurstaða kærunefndar var send kæranda með tölvubréfi.

Hinn 6. júní 2021 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins að nýju. Þá bárust frekari gögn og skýringar 6., 7. og 8. júní 2021.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Af tölvubréfum kæranda til kærunefndar má ráða að hann krefjist endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd þar sem hann hafi þörf á vernd og dvalarleyfi hér á landi. Kærandi telji að alsírsk yfirvöld séu á eftir á honum og að hann eigi yfir höfði sér fangelsisrefsingu í heimaríki. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til þess að alsírska leyniþjónustan hafi pyndað og myrt blaðamann sem hafi snúið aftur til landsins. Þá kemur fram að kærandi glími við veikindi og minnistap í kjölfar vinnuslyss. Sökum veikindanna hafi hann keypt flugmiða frá landinu en ekki nýtt þá. Þá hafi hann gleymt að fara til læknis og endurnýja dvalarleyfi sitt hér á landi. Kærandi búi nú á götunni í Frakklandi og geti ekki nýtt sér heilbrigðiskerfið þar í landi.

III.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kæranda hinn 25. febrúar 2021. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að heimilt væri að afturkalla alþjóðlega vernd kæranda hér á landi sem og dvalarleyfi hans á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga, sbr. 59. gr. sömu laga, enda væri skilyrði þess ekki lengur uppfyllt. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þá var fyrri beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans hafnað með úrskurði kærunefndar hinn 21. apríl 2021. Fram kom m.a. í úrskurðinum að þau gögn sem bárust með beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans hafi ekki lagt grunn að frásögn hans eða gefið til kynna að úrskurður nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. Þá hafi gögn málsins ekki bent til þess að aðstæður kæranda eða aðstæður í heimaríki kæranda, t.a.m. hvað varðar aðgang að heilbrigðisþjónustu, hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í máli hans. Auk þess kom fram að ekkert í beiðni kæranda hafi raskað mati nefndarinnar á trúverðugleika frásagnar hans.

Í tölvubréfi, dags. 4. júní 2021, var kæranda leiðbeint um hver skilyrði endurupptöku væru. Með vísan til þess sem fram komi í 24. gr. stjórnsýslulaga þurfi kærandi að sýna fram á að atvik máls hans hafi breyst verulega, m.a. með framlagningu gagna. Til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi fram ýmsar ljósmyndir, þ. á m. af læknisvottorðum, Facebook færslu og samskiptum og tölvubréfssamskiptum við fulltrúa Útlendingastofnunar. Mörg gagnanna höfðu þegar borist kærunefnd og hafði nefndin tekið afstöðu til þeirra í úrskurðum nefndarinnar nr. 86/2021 og 165/2021. Kærunefnd telur, líkt og fram kemur í síðarnefndum úrskurði, óvíst hvernig framlögð gögn styðja við kröfu kæranda um endurupptöku eða tengjast persónulegum aðstæðum hans. Þá hefur kærandi ekki framvísað neinum gögnum eða leitt að því líkur að hann sé í hættu í heimaríki vegna framangreinds. Umrædd gögn eru því ekki til þess fallin að styðja við beiðni kæranda um endurupptöku.

Líkt og rakið er í fyrrnefndum úrskurðum hefur kærunefnd jafnframt litið til þess að kærandi hefur reglulega ferðast til heimaríkis síðastliðin ár og dvalið þar um langan tíma í senn. Sem fyrr hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að alsírsk yfirvöld hafi haft afskipti af kæranda í þeim ferðum.

Kærunefnd telur, með vísan til framangreinds, að hin nýju gögn leggi ekki frekari grunn að málsástæðum kæranda eða gefi til kynna að þær upplýsingar sem nefndin byggði á þegar hún kvað upp úrskurð sinn þann 25. febrúar 2021 hafi verið ófullnægjandi eða rangar. Þá telur kærunefnd að gögn málsins bendi ekki til þess að aðstæður kæranda eða aðstæður í heimaríki kæranda hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málinu á þann hátt að nefndin telji að það geti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. 

Samantekt

Að framangreindu virtu ert það því mat kærunefndar að atvik í máli kæranda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál hans upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Með vísan til alls framangreinds er beiðni kærenda um endurupptöku málsins hafnað.

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríkdóttir                                                                       Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum