Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 523/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 523/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18070003

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. júlí 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. júní 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hans til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 1., 2. og 3. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 30. janúar 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 7. febrúar 2018 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. d-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 9. febrúar 2018 barst svar frá sænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 27. júní 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 3. júlí 2018 og kærði kærandi ákvörðunina samdægurs til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 21. júlí 2018, ásamt fylgigögnum. Óskaði kærandi eftir því að fá að tjá sig við nefndina um efni málsins og að sérfræðimat yrði gert á andlegri heilsu hans. Það var mat nefndarinnar að ekki væri ástæða til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 2. málsl. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Þann 29. ágúst sl. bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir kæranda, ásamt fylgigögnum. Þann 5. nóvember sl. barst kærunefnd skýrsla vegna sálfræðimats á kæranda og þann 6. nóvember sl. bárust nefndinni viðbótargögn í málinu.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi fluttur til Svíþjóðar. Flutningur kæranda til Svíþjóðar fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Hins vegar var það mat stofnunarinnar að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda um alþjóðlega vernd því synjað um efnismeðferð, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Svíþjóðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi verið [...] ára gamall þegar hann hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi en ekki sé deilt um aldur hans í málinu. Fyrstu vikurnar hafi kærandi verið undir eftirliti barnaverndarnefndar og honum skipaður tilsjónarmaður. Skömmu eftir að kærandi hafi náð [...] ára aldri, [...], hafi hann verið fluttur á Arnarholt og þjónustu við hann sem fylgdarlaust barn hafi verið hætt. Kærandi kveður að þann 8. maí sl. hafi hann þurft að fresta viðtali hjá Útlendingastofnun vegna andlegra veikinda. Hann hafi [...] um mánuði áður og hafi jafnframt verið í viðtals- og [...] meðferð hjá geðlækni.

Kærandi gerir athugasemd við þá fullyrðingu Útlendingastofnunar í ákvörðun sinni að hann byggi á því að hans bíði endursending til [...], verði hann sendur aftur til Svíþjóðar. Að mati kæranda virðist sem Útlendingastofnun hafi virt að vettugi allar málsástæður og rök hans er lúti að viðkvæmri stöðu hans, ungum aldri, andlegu ástandi og afleiðingum endursendingar til Svíþjóðar á heilsu hans og velferð. Þá gerir kærandi athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar um andlegt ástand hans og heilsufar. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 1. júní 2018, hafi kæranda ítrekað verið vísað á [...] vegna [...] og [...]. Þá hafi kærandi verið greindur með [...] og hafið lyfjameðferð vegna hennar. Í ákvörðun stofnunarinnar sé m.a. byggt á því að andleg líðan kæranda fari batnandi en sú fullyrðing sé studd takmörkuðum gögnum. Kærandi gerir enn fremur athugasemd við að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé hvergi vísað til 7. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Þá hafi Útlendingastofnun ekki lagt sjálfstætt mat á möguleika kæranda á því að leggja fram viðbótarumsókn eða beiðni um endurupptöku máls hans í Svíþjóð. Vísar kærandi í þessu sambandi til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo og 23. og 25. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings kröfu sinni um efnismeðferð byggir kærandi aðallega á því að beita skuli meginreglu 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í máli hans. Með tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, þ. á m. stöðu hans sem fylgdarlauss ungmennis frá [...], skuli c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga því ekki beitt í málinu. Þá byggir kærandi, kröfu sinni til stuðnings, á 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga um útlendinga um non-refoulement. Í því sambandi vísar kærandi til ýmissa alþjóðlegra skýrslna og gagna um óstöðugleika og stríðsátök í heimaríki hans og þess að hann hafi fengið lokasynjun á umsókn sinni í Svíþjóð.

Þá gerir kærandi athugasemd við greiningu Útlendingastofnunar á stöðu hans m.t.t. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, sbr. 6. tölul. 3. gr. sömu laga. Í ákvörðun stofnunarinnar sé hvorki minnst á ungan aldur kæranda né ákvæði 7. mgr. 32. gr. reglugerðar um útlendinga, sem fyrr segir. Í því sambandi vísar kærandi til lögskýringargagna að baki lögum nr. 80/2016 um útlendinga og lögum nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga. Óumdeilt sé í málinu að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, hann eigi í basli með einföldustu þætti daglegs lífs og sé á lyfjum til þess að halda sér gangandi. Ljóst sé að hann muni eiga erfitt uppdráttar í Svíþjóðar vegna stöðu sinnar.

Í greinargerð kæranda kemur fram að, í samræmi við lögmætisreglu stjórnskipunarréttar og lögskýringarreglur í íslenskum rétti, verði að túlka reglugerð um útlendinga, með áorðnum breytingum, í samræmi við lög og með hliðsjón af markmiðum og tilgangi með setningu þeirra. Vísar kærandi í því sambandi til úrskurðar kærunefndar nr. 199/2018 frá 24. apríl 2018. Þá vísar kærandi til einstaklingsbundinna aðstæðna sinna. Í framlögðum gögnum kæranda frá Svíþjóð komi fram að hann hafi aðlagast samfélaginu þar vel og verið virkur í skóla, íþróttum og tómstundum. Þá hafi hann lagt hart að sér við að læra tungumálið. Í kjölfar ítrekaðra synjana á umsókn hans um alþjóðlega vernd hafi von hans þó farið að dvína, sem hafi haft talsverð áhrif á virkni hans. Hafi hann hætt að mæta í skóla í kjölfarið og vonleysið hafi náð tökum á honum með þeim afleiðingum að hann hafi ekki talið lífið þess virði að lifa því. Kærandi sé ungur að árum og hafi verið á flótta frá því að hann var barn, auk þess sem hann glími við andleg veikindi. Því myndi hann eiga í miklum erfiðleikum með að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, enda ætti hann ekki rétt á endurgjaldslausri lögfræðiaðstoð við slíkan málarekstur.

Kærandi byggir jafnframt á því að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi m.a. til lögskýringargagna að baki ákvæðinu, lagaáskilnaðarreglu 2. málsl. 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Þá beri lögskýringargögn með sér að stjórnvöldum sé eftirlátið víðtækt mat við beitingu 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, umfram það sem leiði af sérstökum reglum. Í lögskýringargögnum komi skýrt fram að matið sé ekki jafn strangt og t.d. mat Mannréttindadómstóls Evrópu við túlkun á 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 28. ágúst 2018, kemur m.a. fram að kærandi telji Útlendingastofnun hafa gerst brotlega við málshraðareglu stjórnsýsluréttar í máli hans, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þá árétti kærandi sérstaklega viðkvæma stöðu sína. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi m.a. til framlagðra fylgiskjala og úrskurða kærunefndar útlendingamála nr. 241/2016 frá 28. júní 2016, nr. 494/2016 frá 13. desember 2016 og nr. 582/2017 frá 24. október 2017.

Kærandi hefur við meðferð málsins lagt fram ýmis gögn með kæru sinni, þ. á m. komunótur frá Göngudeild sóttvarna og Göngudeild geðsviðs, skýrslu vegna sálfræðimats á kæranda, dags. 27. október 2018, meðmæli vina og aðstandenda hér á landi og vinnuskýrslur persónulegs ráðgjafa kæranda hjá félagsþjónustunni.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að sænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Svíþjóðar er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Greining á hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Kærandi er einhleypur og barnlaus [...] ára karlmaður sem er staddur einn hér á landi. Kærandi kvað í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hann glímdi við verki í bringu og uppköst, áhyggjur, svefn- og lystarleysi, streitu, áfallastreitu og andlega vanlíðan. Þá hafi hann sætt líkamlegu ofbeldi á barnsaldri. Í framlögðum komunótum frá Göngudeild sóttvarna og Göngudeild geðsviðs kemur m.a. fram að kærandi glími við [...] og hafi [...]. Í kjölfar þess hafi hann verið færður[...]. Þá hafi fundist [...] í búsetuúrræði hans hér á landi. Hafi kærandi í kjölfarið verið metinn í [...] og sætt reglubundnu eftirliti og lyfjameðferð. Þá kemur fram að kæranda hafi verið ávísað ýmsum [...], [...]og [...]. Í framlagðri skýrslu sálfræðings, dags. 27. október 2018, vegna sálfræðimats á kæranda kemur m.a. fram að niðurstaða sjálfsmatskvarða sýni fram á alvarlega þjónustuþörf og verulega sálræna vanlíðan. Þá uppfylli kærandi greiningarskilmerki [...], alvarlegrar yfirstandandi [...]og [...] og hafi þörf fyrir áfallamiðaða sálfræðimeðferð til að styrkja eigin bjargráð og draga úr einkennum [...], [...] og [...].

Í ljósi gagna málsins er það mat kærunefndar að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Freedom in the World 2018 – Sweden (Freedom House, 28. maí 2018);
  • Sweden 2017 Human Rights Report (United States Department of State, 20. apríl 2018);
  • Asylum Information Database, National Country Report: Sweden (European Council on Refugees and Exiles, 28. mars 2018);
  • Amnesty International Report 2017/18 (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • ECRI Report on Sweden (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 27. febrúar 2018);
  • Annual Report on the situation of Asylum in the European Union 2016 (European Asylum Support Office, 5. júlí 2017);
  • Good Advice for Asylum seekers in Sweden (The Swedish Network of Refugee Support Groups, janúar 2018);
  • Observations by the United Nations High Commissioner for Refugees Regional Representation for Northern Europe on the draft law proposal on restrictions of the possibility to obtain a residence permit in Sweden (The UN High Commissioner for Refugees, 10. mars 2016);
  • Upplýsingar af vefsíðu sænsku útlendingastofnunarinnar (www.migrationsverket.se).

Í gögnum og skýrslum um aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð, sem kærunefnd hefur kynnt sér, kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Svíþjóð sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni hjá sænsku útlendingastofnuninni (s. Migrationsverket) og stjórnsýsludómstólum (s. Migrationsdomstolen og Migrationsöverdomstolen) eiga þess kost að leggja fram viðbótarumsókn hjá sænsku útlendingastofnuninni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ef nýjar upplýsingar eða ný gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst verulega eða verulegir annmarkar hafa verið á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði fyrir viðbótarumsókn verið uppfyllt. Synjun sænsku útlendingastofnunarinnar um að taka viðbótarumsókn til skoðunar má kæra og engin takmörk eru á því hversu oft umsækjandi getur lagt fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Umsækjendur eiga rétt á takmarkaðri félagslegri aðstoð á meðan viðbótarumsókn er til meðferðar. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að sænsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd leggja fram umsókn um vernd í Svíþjóð í fyrsta skipti eiga þeir rétt á lögfræði- og túlkaþjónustu án endurgjalds þegar umsókn er til meðferðar hjá sænsku útlendingastofnuninni og á kærustigum málsins. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga hins vegar ekki rétt á lögfræðiþjónustu án endurgjalds við að leggja fram viðbótarumsókn en þeir geta átt rétt á að fá tilnefndan lögmann ef sænska útlendingastofnunin samþykkir að taka viðbótarumsóknina til skoðunar. Endurgjaldslaus túlkaþjónusta er ekki í boði við framangreinda málsmeðferð. Umsækjendur um alþjóðlega vernd geta einnig leitað til frjálsra félagasamtaka, t.d. ráðgjafarmiðstöðvar (s. Rådgivningsbyrån) sem veitir lögfræðilega aðstoð og ráðgjöf.

Svíþjóð er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samkvæmt framangreindum skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Svíþjóð eiga þeir rétt á húsnæði, mataraðstoð og vasapeningum, geti þeir ekki framfleytt sér sjálfir. Að sama skapi er umsækjendum tryggður aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda. Líkt og fram hefur komið var kærandi fylgdarlaust barn þegar hann yfirgaf heimaríki og kom til Svíþjóðar. Við meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd þar var litið á kæranda sem fylgdarlaust barn. Jafnframt bera gögn málsins með sér að kærandi var barn þegar hann kom hingað til lands 30. janúar sl. og naut þjónustu sem barn þar til hann varð [...]. Samkvæmt framansögðu er kærandi ungur að árum, þótt hann hafi náð [...] ára aldri, og var fylgdarlaust barn við komu til landsins.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga eru sett fram sérviðmið varðandi börn og ungmenni sem líta ber til við mat á því hvort taka beri umsóknir til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna. Þar segir m.a. að sé barn fylgdarlaust beri að taka ríkt tillit til afstöðu þess og þeirrar sérstaklega viðkvæmu stöðu sem það er í skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun sé heimilt að taka umsókn fylgdarlauss barns til efnislegrar meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna samrýmist það hagsmunum þess og afstöðu. Þá segir að við mat á sérstökum ástæðum sé heimilt að horfa til ungs aldurs viðkomandi sem náð hefur 18 ára aldri en sannanlega verið fylgdarlaust barn við komu til landsins.

Þótt kærandi sé ekki barn að aldri liggur fyrir að kærunefnd hefur metið hann í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá liggja fyrir nokkuð umfangsmikil gögn um heilsufar kæranda frá því að hann kom til landsins, þ.m.t. um [...], [...], alvarlega yfirstandandi [...] og [...] sem hann hefur verið greindur með, svo og [...] og eftirlit í tengslum við framangreint. Þótt ekki verði litið svo á að kærandi glími við mikil og alvarleg veikindi, eða veikindi sem ekki verður litið framhjá, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga, telur kærunefnd óhjákvæmilegt að líta til þess að þau gögn sem liggja fyrir um andlega heilsu kæranda í Svíþjóð bera með sér að heilsu hans hafi hrakað frá því að hann kom til landsins. Líkt og áður segir eiga umsækjendur sem hafa fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Svíþjóð þess almennt kost að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd hjá sænsku útlendingastofnuninni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þ.m.t. ef nýjar upplýsingar liggja fyrir eða ef aðstæður hafa breyst verulega. Aftur á móti njóta einstaklingar hvorki endurgjaldslausrar lögfræðiaðstoðar né túlkaaðstoðar við að leggja fram slíka umsókn. Að mati kærunefndar vega þessar samtvinnuðu aðstæður kæranda, sem er eins og áður segir ungur að árum, hefur verið á flótta í Evrópu síðan hann var barn og glímir við andleg veikindi, þungt í málinu í ljósi þeirrar takmörkuðu aðstoðar sem stendur einstaklingum sem hafa fengið synjun á umsókn um alþjóðlega vernd í Svíþjóð til boða.

Að framangreindu virtu og þegar litið er á mál kæranda í heild sinni, er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að staðfesting sænskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd liggi fyrir þá séu einstaklingsbundnar aðstæður kæranda svo sérstakar að í þessu tilviki sé nærtækast að taka mál hans til efnislegrar meðferðar hér á landi. Beri því, eins og hér háttar sérstaklega til, að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og flytja ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd yfir á íslensk stjórnvöld á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á sérstökum aðstæðum kæranda, þ. á m. ungum aldri hans og stöðu í Svíþjóð, einkum í ljósi þess að hann var fylgdarlaust barn við komuna til landsins, sbr. sérviðmið fyrir börn og ungmenni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu telur kærunefnd ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um athugasemdir kæranda varðandi ákvörðun Útlendingastofnunar.

Samantekt

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

 

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum