Hoppa yfir valmynd
25. maí 2023 Utanríkisráðuneytið

Fimmtándi útskriftarhópurinn frá Jafnréttisskólanum lýkur námi

Útskriftarhópurinn við athöfnina í gær. Ljosmynd: KRI - mynd

Sextán konur og sjö karlar útskrifuðust í gær frá Jafnréttisskóla GRÓ en útskriftin er sú fimmtánda frá því skólinn tók til starfa. Útskriftarnemendurnir koma að þessu sinni frá sextán löndum, Kamerún, Eþíópíu, Gana, Indlandi, Jamaíka, Kenía, Kosovo, Malaví, Mósambík, Nepal, Pakistan, Síerra Leóne, Srí Lanka, Úganda, Simbabve og Tansaníu. Alls hafa 218 sérfræðingar frá þróunarríkjum og átakasvæðum lokið námi við skólann frá stofnun hans, árið 2009.

Árgangurinn sem útskrifaðist í gær kom hingað til lands í byrjun árs og nemendurnir hafa lokið sex þverfaglegum einingum á sviði jafnréttismála. Tvenn verðlaun kennd við Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands voru veitt í gær, líkt og áður við útskrift nemenda, annars vegar í flokki hagnýtra verkefna og hins vegar í flokki rannsóknarverkefna. Í fyrri flokknum hlaut Sana Salim Lokhandwala frá Pakistan verðlaun og hinum flokknum Bijal Dipak La frá Tansaníu.

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu og Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands fluttu ávörp við útskriftina og Irma Erlingsdóttir forstöðumaður skólans og Nína Björk Jónsdóttir forstöðumaður GRÓ afhentu prófskírteini. Wevyn Helen Awiti Muganda frá Kenía flutti lokaávarp fyrir hönd nemenda. Útskriftin fór fram í Háskóla Íslands.

Jafnréttisskólinn heyrir undir Hugvísindasvið Háskóla Íslands en hann er hluti af GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu sem starfar undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Jafnréttisskólinn býður upp á diplómanám í alþjóðlegum jafnréttisfræðum og veitir auk þess styrki til doktorsnáms. GRÓ skólarnir fjórir, Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn eru allir mikilvægur þáttur í þróunarsamvinnu Íslands.

  • Útskriftarhópurinn á Bessastöðum fyrr í mánuðinum. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum