Hoppa yfir valmynd
15. júní 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Framleiðsla bóluefnis, mansal og velferð á norðurslóð á dagskrá ráðherra

Norrænu heilbrigðismálaráðherrarnir eru sammála um að freista þess að vinna áfram að því að framleitt verði sameiginlega bóluefni vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu. Þetta var ein niðurstaðna fundar ráðherranna í Norður-Noregi sem stóð dagana 11. til 13. júní. Á fundinum var samþykkt að kanna áfram kosti og galla tveggja mögulegra lausna í þessu sambandi. Annars vegar að framleiða bóluefni á vegum landanna sjálfra undir opinberri stjórn, en sú leið nýtur stuðnings meiri hluta landanna, og hins vegar að gera samkomulag við tiltekin lyfjafyrirtæki um að stofna fyrirtæki í eigu landanna og viðkomandi fyrirtækis eða fyrirtækja. Er þessi leið er kennd við Svía og kölluð sænska leiðin. Endanlegt faglegt mat á kostum og ókostum þessara tveggja leiða á að liggja fyrir 1. nóvember í haust.

Á fundinum var einnig fjallað sérstaklega um mansal, vændi, glæpi og mannréttindabrot gegn konum sem tengjast mansali og vændi. Lögðu allir ráðherrarnir ríka áherslu á skyldur Norðurlandanna í samfélagi þjóða til að berjast gegn mansali og vændi. Brýnt er talið að setja málið á dagskrá með afgerandi hætti og er m.a. fyrirhugað að Norðurlöndin freisti þess að gera það á næstunni.

Á fundinum gerðu fulltrúar Norðmanna grein fyrir áformum um gríðarlega uppbyggingu á norðurslóðum í tengslum við fyrirhugaða olíu- og gasvinnslu við norðurströnd Noregs og Rússlands. Var í þessu sambandi sérstakleg rætt um samstarf þjóða á Norðurslóðum, einkum Norðmanna og Rússa. Fram kom í máli norska heilbrigðisráðherrans og í erindi, sem Hans Kristian Asmundsen, ritstjóri Norðurljóss, flutti um framtíðina á norðurslóð séð með augum blaðamanns, að hvergi í heiminum væri nú eins mikill lífskjaramunur eins og á þessu svæði. Á milli Norðurlandanna og á tilteknum svæðum í Rússlandi sem liggja að þremur Norðurlandanna, að hvergi væri meiri munur á heilbrigðisþjónustu og að hvergi væri munurinn meiri þegar horft væri til dæmis til alvarlegra smitsjúkdóma en einmitt á afmörkuðu svæði við Barentshaf. Lögðu norrænu ráðherrarnir áherslu á að mjög reyndi á velferðakerfi Norðurlandanna í tengslum við ástand og horfur nyrst á svæðinu og eins hitt að ábyrgð Norðurlandanna gagnvart grönnum sínum í austri væri mikil.

Norrænu heilbrigðismálaráðherrarnir (frá vinstri): Hans Pauli Ström, Færeyjum, Eva Kjer Hansen, Danmörku, Liisa Hyssälä, Finnlandi, Siv Friðleifsdóttir, Morgan Johannsson, Svíþjóð, Harriet Lindeman, Álandseyjum, og Sylvia Brustad, Noregi.

Norrænir ráðherra



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum