Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2007 Utanríkisráðuneytið

Málefni Ratsjárstofnunar

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 086

Íslensk stjórnvöld munu hinn 15. ágúst næstkomandi taka að fullu yfir rekstur og verkefni Ratsjárstofnunar frá Bandaríkjamönnum en stofnunin hefur hingað til verið rekin á grundvelli bandarískra reglna og starfsemin að fullu kostuð af bandarískum yfirvöldum. Á þessum tímamótum er mikilvægt að yfirtakan raski ekki núverandi starfsemi sem lýtur bæði að öryggis- og varnarmálum og að leitað verði leiða til að auka hagræðingu í rekstri starfseminnar og draga úr kostnaði ríkissjóðs.

Á leiðtogafundi NATO í Riga í nóvember 2006 óskaði forsætisráðherra eftir því að NATO tæki að sér eftirlit með íslenskri lofthelgi. Niðurstaða hermálanefndar bandalagsins 2. júlí og fastaráðsins 26. júlí var að vegna varnarþarfa yrði að tryggja áfram rekstur loftvarnakerfisins og samræmingar þess við evrópska loftvarnarkerfið. Þetta er forsenda þess að hingað til lands komi flugsveitir til tímabundins eftirlits og æfinga a.m.k. fjórum sinnum á ári.

Meðan unnið er að endurskipulagningu starfseminnar er nauðsynlegt að losa um allar fjárhagsskuldbindingar Ratsjárstofnunar þannig að rekstrarskipulag Bandaríkjamanna standi ekki í vegi fyrir nauðsynlegri endurskipulagningu og hagræðingu. Meðal þeirra skuldbindinga sem nauðsynlegt er að losa um eru samningar við starfsmenn stofnunarinnar en þeir eru nú 46 talsins. Samráð er þegar hafið við starfsmenn á grundvelli laga um hópuppsagnir nr. 63/2000. Uppsagnarfrestur hefst eftir tilkynningu til svæðisvinnumiðlunar. Að öllu óbreyttu má gera ráð fyrir því að uppsagnarfrestur renni út í lok mars 2008 enda verður öllum starfsmönnum gefinn kostur á sex mánaða uppsagnarfresti.

Samfara endurskipulagningu verður horft til flutnings starfa frá Reykjavík og nýtingu ljósleiðaranets loftvarnarkerfisins að hluta til borgaralegra gagnaflutninga. Aðilar á markaði hafa lýst áhuga á að fá aðgang að ljósleiðurunum og er starfshópur á vegum utanríkisráðuneytisins því að kanna hvernig, að höfðu samráði við NATO, megi flýta því að almenningur fái aðgang að netinu. Breytingin gæti leitt til þess að gagnaflutningagetan innanlands aukist um allt að 60%.

Ljóst má vera að sérþekking, reynsla og þjálfun einstakra starfsmanna Ratsjárstofnunar kann að vera afar mikilvæg fyrir framtíðarrekstur íslenska loftvarnakerfisins. Fastlega má gera ráð fyrir að leitað verði eftir starfskröftum margra núverandi starfsmanna að endurskipulagningu lokinni og því afar mikilsvert að staðið verði vel að þessu ferli og leitað eftir góðu samráði við starfsmenn og stéttarfélög þeirra þar sem það á við.

Meðan unnið er að endurskipulagningu starfseminnar er nauðsynlegt að Ratsjárstofnun starfi áfram á grundvelli gildandi skipulags frá 15. þessa mánaðar, bæði til að vernda þá fjárfestingu sem liggur í íslenska loftvarnakerfinu og til tryggingar þjóðaröryggishagsmunum Íslands. Auk þess er áframhaldandi rekstur loftvarnarkerfisins forsenda samstarfs við grannríki á sviði öryggismála og gegnir veigamiklu hlutverki í lofthelgiseftirliti NATO. Jafnframt er upplýsingum miðlað til Flugstoða vegna borgarlegra flugöryggisþátta á íslenska flugumsjónarsvæðinu og til viðkomandi aðila vegna toll- og löggæslu. Án loftvarnarkerfisins geta flugvélar komist óséðar inn í íslenska lofthelgi hvort heldur sem það eru herflugvélar eða loftför í ólögmætum tilgangi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum