Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2010 Dómsmálaráðuneytið

Lagastofnun HÍ falið að semja kynningarefni vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar 6. mars

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur falið Lagastofnun Háskóla Íslands að semja hlutlaust kynningarefni fyrir almenning vegna fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um lög nr. 1/2010, sem fram fer laugardaginn 6. mars 2010. Þetta er gert í samræmi við nefndarálit allsherjarnefndar Alþingis um mikilvægi slíkrar kynningar og umræður á Alþingi. Efnið var kynnt nefndinni á fundi í gær.

Lagastofnun var falið að semja texta þar sem útskýrð eru í stuttu máli nokkur meginatriði sem varða þjóðaratkvæðagreiðsluna 6. mars, ástæður hennar og afleiðingar. Efninu er ekki ætlað að reifa ólík sjónarmið um það efni sem kosið verður um. Ekki koma að verkefninu einstaklingar sem hafa tekið þátt í umræðum á opinberum vettvangi um það efni sem kosið er um í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Textinn er ætlaður til notkunar á sérstakri vefsíðu, thjodaratkvaedi.is, sem opnuð verður á næstu dögum og í kynningarbæklingi sem dreift verður um allt land. Miðað er við að dreifingu hans verði lokið um tíu dögum fyrir kjördag. Lagastofnun hefur fengið til liðs við sig almannatengslafyrirtækið Athygli sem annast hönnun og framsetningu efnis á vef og í bæklingi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira