Hoppa yfir valmynd
28. júlí 2022 Utanríkisráðuneytið

Mikil fjölgun flóttafólks í Afríku

Búðir flóttafólks í Malaví. Ljósm. gunnisal - mynd

Þrefalt fleiri íbúar Afríku eru nú á flótta en fyrir réttum áratug, alls 36 milljónir. Flóttafólki í álfunni fjölgar ár frá ári, einkum vegna átaka, ofbeldis og ofsókna. Alls bættust 3,7 milljónir í þennan hóp á síðasta ári, 12 prósentum fleiri en árið áður. Hlutfall Afríkubúa í heildarfjölda flóttafólks í heimnum er komið upp í 44 prósent.

Þorri þeirra sem hrekjast burt af heimilum sínum eru á hrakhólum innan eigin ríkis, eða 75 prósent. Fjórðungur flýr yfir landamæri og veldur álagi á nærliggjandi samfélög og ríki sem eru engan veginn í stakk búinn til að taka á móti skyndilegum straumi flóttafólks.

Af rúmlega fimmtíu ríkjum Afríku kemur flóttafólk einkum frá átta ríkjum. Mest hefur fjölgunin á síðustu misserum verið í Eþíópíu vegna skálmaldarinnar í Tigray héraði. Alls hafa 4,7 milljónir íbúa stöðu flóttafólks. Litlu færri, eða 4,6 milljónir íbúa Suður-Súdan, eru á vergangi vegna langvinnra átaka í landinu. Hlutfall flóttafólks af íbúafjölda er hvergi hærra í heiminum, eða 40 prósent.

Einnig hrekst fólk burt af heimilum sínum í miklum mæli í Búrkínó Fasó, Súdan, Nígeríu, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Miðafríkuríkinu og Mósambík.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, benti á það fyrr í sumar að aldrei frá dögum síðari heimsstyrjaldarinnar, hafi fleiri börn verið á hrakhólum en einmitt nú. Í lok síðasta árs voru þau 36,5 milljónir talsins.

Nánar á Reliefweb

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum