Hoppa yfir valmynd
6. mars 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Göngudeildarþjónusta SÁÁ mikilvægur hluti af meðferð og endurhæfingu

Frá heimsókn ráðherra á göngudeild SÁÁ í Efstaleiti - myndHeilbrigðisráðuneyti

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti sér starfsemi göngudeildarþjónustu SÁÁ þegar hún heimsótti starfsstöð samtakanna í Efstaleiti í gær. Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga, segir göngudeildarþjónustuna mjög mikilvægan hluta af meðferð og endurhæfingu vegna neyslu- og fíknivanda og hluta af heilsteyptri meðferð á mismunandi stigum. Þá sé unnið að því að tryggja samfellu og samstarf þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu á þessu sviði.

Heimsóknin kom til að frumkvæði ráðherra sem leggur áherslu á að hafa góða yfirsýn og þekkja til þeirra meðferðarúrræða sem veitt eru fólki með neyslu- og fíknivanda. Valgerður, framkvæmdastjóri lækninga, ásamt fleiri sérfræðingum SÁÁ, tók vel á móti ráðherra og fulltrúum ráðuneytisins. Hún leiddi gesti um húsakynni göngudeildarþjónustunnar í Efstaleiti, kynnti síðan þjónustuna með stuttu erindi og að því búnu gafst tími til spurninga og umræðu.

Rætt var um hve miklu skiptir að þjónusta við fólk með neyslu- og fíknivanda sé fjölbreytt og taki tillit til mismunandi þarfa einstaklinga og aðstæðna þeirra. Eins verði hún að vera byggð á bestu vísindalegu þekkingu hverju sinni og skila raunverulegum árangri fyrir skjólstæðinga. SÁÁ hefur sýnt mikilvægt frumkvæði í þróun þjónustu sinnar, meðal annars með innleiðingu lágþröskuldaúrræðisins U–hópsins fyrir ungmenni og ungt fólk.

Mikil tækifæri í þróun fjarþjónustu

Valgerður kynnti fyrir ráðherra nýjungar í meðferð sem verið er að þróa með hagnýtingu fjartæknilausna. Þar má nefna viðtöl við áfengis- og vímuefnaráðgjafa við fólk um allt land sem þarf á meðferð og stuðningi að halda, einnig fyrirlestrar á vefnum og verkefni sem fólk getur nýtt sér óháð staðsetningu og fleira mætti telja. „Það eru greinilega mikil sóknarfæri í því að beita fjölbreyttum lausnum í meðferð á þessu sviði og gaman að fylgjast með þessari nýsköpun sem fram fer hjá SÁÁ“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum