Hoppa yfir valmynd
14. október 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Álit, að því er tekur til samrekstrar leik- og grunnskóla og aðgerðaleysis skólayfirvalda gagnvart einelti

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vísar til erindis í tölvupósti, dags. 9. desember 2009, þar sem lýst er alvarlegri stöðu í samreknum leik- og grunnskóla X þar sem málshefjandi á börn. Einkum snýst málið um aðgerðaleysi skólayfirvalda gagnvart einelti og spurt er hvað hægt sé að gera til vernda nemendur í viðkomandi skóla.

Í leik- og grunnskólalögum eru skýr ákvæði um að skólum beri að tryggja öryggi og velferð nemenda og að skólinn eigi að vera griðarstaður fyrir börn. Skólar eiga m.a. skv. aðalnámskrá frá ráðuneytinu að hafa eineltisáætlanir og sérstaklega er í aðalnámskránum fjallað um mikilvægi góðrar samvinnu heimila og skóla til að stuðla að sem bestum skólabrag og velferð nemenda.

Ráðuneytið hefur hvatt foreldra sem lenda í svipuðum aðstæðum og ykkar fjölskylda að beita sér fyrir umræðu um þessi mál í skólunum, þ.e. taka málið upp í foreldraviðtölum við kennara, ræða á opnum foreldrafundum og hvetja til umræðu í foreldrafélögum, foreldraráðum og nú síðast í nýjum skólaráðum við grunnskóla sem er nýr samráðsvettvangur um skólahald skv. nýjum grunnskólalögum. Þar eiga foreldrar tvo fulltrúa og nemendur tvo í 9 manna ráði sem er afar góður vettvangur til að ræða almennt um skólabrag, viðbrögð við eineltismálum, forvarnir og slíkt, án þess að fjallað sé um einstök mál. Þegar kemur að einstökum málum hefur ráðuneytið hvatt foreldra til að beina þeim málum til nemendaverndarráða grunnskóla en því ráði er ætlað að samhæfa þjónustu gagnvart einstökum málum.

Ef ekki tekst að leysa þessi mál innan skólanna með samhentum aðgerðum eða að skólastjórnendur hreinlega viðurkenna ekki vandann þá hafa foreldrar verið hvattir til að leita til sérfræðiþjónustu sveitarfélaganna. Einnig hafa foreldrar verið hvattir til að leita til Heimilis og skóla eftir ráðgjöf en mennta- og menningarmálaráðuneytið veitir þeim samtökum fjárhagslegan stuðning til að geta veitt foreldrum ráðgjöf, t.d. hvað varðar eineltismál. Enn fremur geta foreldrar leitað beint til framkvæmdastjóra Olweusaráætlunarinnar, sjá olweus.is. Loks er hægt að leita til fræðsluyfirvalda viðkomandi sveitarfélaga og umboðsmanns barna.

Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er unnið að endurskoðun á aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og áform eru um að setja mun skýrari viðmiðanir um aðgerðir skóla til að vinna gegn einelti og almennt stuðla að sem bestum skólabrag. Ráðuneytið áformar einnig að hafa betra eftirlit með þessum málum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum