Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Norðurlandasamningur um almannatryggingar öðlast gildi með lögum

Frumvarp verður lagt fram á Alþingi til að lögfesta á Íslandi samning Norðurlandaþjóðanna um almannatryggingar



Samningurinn sem Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, undirritaði fyrir Íslands hönd í Karlskrona 18. ágúst 2003 (sbr. fréttatilkynningu ráðuneytisins nr. 40 ) öðlast gildi hér á landi með lögum. Mun utanríkisráðherra flytja frumvarp á næsta löggjafarþingi til að lögfesta hann. Þar til nýi samningurinn tekur gildi og kemur til framkvæmda gildir eldri samningur frá árinu 1992, sbr. lög nr. 46/1993.

Með samningnum sem undirritaður var í gær er verið að laga samstarf Norðurlandaþjóðanna að þeirri þróun sem orðið hefur á löggjöf Evrópusambandsins sem gildir á evrópska efnahagssvæðinu og á löggjöf norrænu landanna um almannatryggingar. Þá er það nýmæli að ákvæði Norðurlandasamningsins taka til ríkisborgara ríkja sem ekki eru aðilar að EES-samningnum. Ríkisborgarar þessara landa fá sambærileg réttindi og norrænir ríkisborgarar á Norðurlöndunum að Danmörku undanskilinni.

Í hinum nýja samningi gildir áfram sú gamla norræna regla að einstaklingur sem er búsettur í norrænu landi og dvelur tímabundið í öðru norrænu landi á rétt á því að dvalarlandið standi straum af þeim aukakostnaði við heimferð til búsetulandsins sem leiðir af því að vegna veikinda verður hann að nota dýrari ferðamáta en hann ella mundi gera.

Samhliða undirskrift Norðurlandasamningsins um almannatryggingar greindi sænski fjölskylduráðherrann frá því að sænsk yfirvöld hefðu ákveðið að sjá til þess að íslenskir námsmenn í Svíþjóð væru að fullu tryggðir í almannatryggingum Svíþjóðar. Einhver brögð hafa verið að því að íslenskir námsmenn hafi ekki notið fullra réttinda þar og er yfirlýsingin gefin af því tilefni.

Nánari upplýsingar um samninginn er að finna á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins: www.tr.is

Samningurinn fylgir hér með:
Norðurlandasamningur um almannatryggingar



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum