Hoppa yfir valmynd
10. september 2003 Heilbrigðisráðuneytið

53. Evrópufundur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar

10. september 2003


Evrópufundur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar
53. fundur Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar var haldinn í Vín í vikunni. Á fundinum voru þrjú megin dagskrárefni rædd í þaula. Í fyrsta lagi endurskoðun á stefnuáherslum WHO um Heilbrigði fyrir alla, í öðru lagi geðheilbrigðismál og í þriðja heilsufar barna og ungmenna.

Umræðurnar um geðheilbrigðismál einkenndust af þeirri staðreynd að geðrænir kvillar og sjúkdómar virðast fara vaxandi hvarvetna í álfunni, geðheilbrigðismálum er nú gefinn meiri gaumur víða um lönd en áður og að á næstu árum þykir einsýnt að WHO mun leggja ríka áherslu á og hvetja til þess að geðheilbrigðismálin verði sett í brennipunkt.

Í umræðum um endurskoðun áætlunar WHO um Heilbrigði fyrir alla kom meðal annars fram að afar brýnt væri að koma upp gagnabanka svo safna mætti saman allri þeirri gagnreyndu þekkingu sem liggur fyrir á sviði lýðheilsu í álfunni og beita þannig hagkvæmustu og árangursríkustu aðferðunum til að efla þá þjónustu sem veita þarf. Gert er ráð fyrir að heildarendurskoðun á heilbrigðisáætlun WHO verði lokið innan tveggja ára. Margar þjóðir í Evrópu hafa sett sér heilbrigðisáætlanir sem byggjast á grunnstefjum Heilbrigðis fyrir alla sem WHO sett fram og er Ísland eitt þeirra ríkja. Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri og stjórnarmaður í WHO, fjallaði á þinginu um áætlanagerð af þessu tagi, hann greindi frá sérkennum íslensku heilbrigðisáætlunarinnar og útskýrði fyrir fundarmönnum nokkra þætti hennar. Þá dró Davíð fram og tók undir nokkra þætti sem fram höfðu komið hjá framkvæmdastjóra Evrópuskrifstofunnar, Dr. Marc Danzon, m.a. að huga yrði sérstaklega að siðfræði heilbrigðisþjónustunnar á næstu árum.

Lee Jong-wook, hinn nýi aðalframkvæmdastjóri WHO, ávarpaði Vínarfundinn og var það í fyrsta skipti sem aðalframkvæmdastjórinn kemur fram gagnvart Evrópudeild samtakanna. Lee dró fram í máli sínu helstu áherslur samtakanna. Hann lagði áherslu á að heilbrigðisþjónustuna bæri að skilgreina sem eina heild í þeim skilningi að veikindi á unga aldri gætu og hefðu oft varanleg áhrif á þann sem í hlut á. Hann fjallaði, eins og fleiri gerðu á Vínarfundinum, um tóbakssáttmálann sem samkomulag náðist um og skrifað var undir í Genf í vor og dró fram að 50 lönd hefðu skrifað undir sáttmálann en að aðeins eitt land hefði staðfest hann, en það er Noregur. Hvatti Lee þjóðir heims til að fara að dæmi Norðmanna. [Ræða Lees Jong-wook ]. Nokkrar umræður urðu um ræðu aðalframkvæmdastjórans. Davíð Á. Gunnarsson flutti aðalframkvæmdastjóranum árnaðaróskir íslenskra yfirvalda og lýsti ánægju sinni með áherslur hans. Tók Davíð undir með Lee sem sagt hafði að ójöfnuður í heilbrigðisþjónustunni væri eitt það alvarlegasta sem margar þjóðir heims stæðu frammi fyrir. Davíð Á. Gunnarsson ítrekaði í máli sínu að hann myndi í störfum sínum í stjórn WHO einbeita sér að verkefnum sem stuðla myndu að heilsusamlegum lífsháttum, að fækka umferðarslysum og þar með alvarlegum afleiðingum þeirra, og að WHO léti meira til sín taka í málefnum fatlaðra og hreyfihamlaðra í frmtíðinni.

Guðjón Magnússon, einn framkvæmdastjóra WHO í Kaupmannahöfn, hafði framsögu um geðheilbrigðismál og um heilsufar barna og ungmenna af hálfu WHO. Varðandi geðheilbrigðismálin greindi hann meðal annars frá undirbúningi evrópskrar ráðherraráðstefnu um efnið, sem haldin verður í Finnlandi 2005, en þar er gert ráð fyrir að evrópskir ráðherrar heilbrigðismála móti sameiginlega stefnu eða áherslur álfunnar í geðheilbrigðismálum.

Sigurður Guðmundsson, landlæknir, kynnti á fundinum áherslur Íslendinga í geðheilbrigðismálum. Sigurður fjallaði sérstaklega um samband geðraskana og sjálfsvíga og dró fram það sem gert hefur verið af hálfu embættisins og heilbrigðisyfirvalda í forvarnaskyni og sagði frá rannsóknum og verkefnum sem unnið er að á þessu sviði á Íslandi.

Annað mál sem mjög bar á góma utan hinnar fyrirfram ákveðnu dragskrár voru afleiðingar hitabylgjunnar í sunnanverðri Evrópu í sumar. Í máli fransks fulltrúa á þinginu kom fram að um 11 þúsund og fimm hundruð manns hefðu látist vegna hitanna, yfirgnæfandi meirihluti eldri borgarar. Ýmislegt bendir til þess að hjálpin sem aldraðir njóta venjulega, s.s. heimilishjálp, umönnun ættingja og vina og hvers konar önnur aðstoð, hafi að engu orðið í hitabylgjunni sem reið yfir Frakkland þegar flestir Frakkar voru í sumarfríi og þannig orðið til þess að aldraðir fengu ekki þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þurftu á að halda. Í umræðunum um málið kom fram að heilbrigðiyfirvöld í Evrópu líta það sem gerðist mjög alvarlegum augum og eins hitt að menn skuli hafa staðið ráðþrota gagnvart því ástandi sem skapaðist. Voru forystumenn Evrópuskrifstofu WHO eggjaðir til að setja málið með afgerandi hætti á dagskrá samtakanna, reyna að skýra hvað gerðist með vísindalegum hætti og miðla upplýsingunum til aðildarlandanna. Var á fundinum lagt fram bráðabirgðayfirlit af hálfu WHO um það sem gerðist en þar koma m.a. fram leiðbeiningar um hvernig bregðast skuli við og jafnframt eru aðildarþjóðirnar hvattar til að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að freista þess að koma í veg fyrir að atburðirnir frá í sumar endurtaki sig.






Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum