Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 45/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 26. janúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 45/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21100077

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 13. september 2021 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Póllands (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. apríl 2021, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í 12 ár.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að endurkomubannið verði fellt úr gildi eða stytt verulega.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi fyrst skráður með lögheimili á Íslandi á tímabilinu 5. september 2013 til 20. mars 2015 en þá var lögheimili hans skráð í Póllandi. Hinn 17. september 2018 skráði kærandi lögheimili sitt á Íslandi að nýju og hefur kærandi verið með lögheimili á landinu frá þeim tíma. Á tímabilinu 2013 til 2014 hlaut kærandi þrjá dóma fyrir brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæðum þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987. Með bréfi Útlendingastofnunar þann 8. júní 2018 var kæranda tilkynnt að til skoðunar væri hjá stofnuninni að brottvísa honum og ákvarða endurkomubann vegna ofangreindra brota. Kærandi lagði af því tilefni fram andmæli þar sem m.a. kom fram að hann væri faðir barns á Íslandi og féll stofnunin í kjölfarið frá fyrirhugaðri brottvísun.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann [...] í máli nr. [...] var kærandi dæmdur til átta mánaða fangelsisrefsingar ásamt því sem ævilöng svipting á ökuréttindum var áréttuð. Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 15. janúar 2021, sem birt var fyrir kæranda hinn 22. janúar 2021, var kæranda tilkynnt að til skoðunar væri að nýju hjá stofnuninni að brottvísa honum og ákvarða endurkomubann vegna framangreindra afbrota. Þann 28. janúar 2021 barst Útlendingastofnun greinargerð kæranda. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. apríl 2021, var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann til Íslands í 12 ár. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda og þáverandi lögmanni hans hinn 2. september 2021.

Þann 28. október 2021 barst kærunefnd tilkynning um kæru á ákvörðun Útlendingastofnunar. Þar sem kæran barst að liðnum kærufresti var umboðsmanni kæranda, með tölvubréfi kærunefndar dags. 2. nóvember 2021, veitt tækifæri til að gera grein fyrir ástæðum þess að kæran barst ekki fyrr, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í athugasemdum kæranda, dags. 3. nóvember 2021, kemur fram að þáverandi lögmaður kæranda hafi sent tölvubréf á Útlendingastofnun, dags. 13. september 2021, þar sem hann hafi mótmælt brottvísuninni og byggir kærandi á því að líta hafi átt á erindið sem stjórnsýslukæru. Þá hafi Útlendingastofnun jafnframt borið að áframsenda erindi hans á kærunefnd, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærunefnd hefur farið yfir framangreint tölvubréf þáverandi lögmanns kæranda. Jafnvel þótt efni bréfsins sé ekki að öllu leyti skýrt og að þar sé ekki tekið fram berum orðum að um stjórnsýslukæru sé að ræða lítur kærunefnd til þess að bréfið var sent á Útlendingastofnun innan lögmælts kærufrests 7. gr. laga um útlendinga og gaf tilefni til athafna af hálfu stofnunarinnar, s.s. með því að áframsenda erindið á kærunefnd samkvæmt 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga eða að stofnunin óskaði eftir frekari upplýsingum um efni tölvubréfsins án tafa. Þáverandi lögmanni kæranda var svarað með tölvubréfi Útlendingastofnunar, dags. 22. september 2021, þar sem honum var leiðbeint um að leggja fram kæru til kærunefndar. Á þeim tíma var kærufrestur hins vegar liðinn og því til lítils fyrir kæranda að bregðast við þeim leiðbeiningum sem þar koma fram. Með vísan til þess sem að framan er rakið og réttaröryggis kæranda telur kærunefnd rétt að líta beri á tölvubréf þáverandi lögmanns kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 13. september 2021, sem stjórnsýslukæru á ákvörðun Útlendingastofnunar og þar af leiðir að kæran barst innan lögmælts frests 7. gr. laga um útlendinga. Greinargerð kæranda barst kærunefnd hinn 10. nóvember 2021. Upplýsingar bárust frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hinn 12. janúar 2022.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til og fjallað um ákvæði 95., 96. og 97. gr. laga um útlendinga. Með vísan til afbrota kæranda var það mat stofnunarinnar að kærandi hefði sýnt af sér háttsemi sem gæfi til kynna að hann muni brjóta af sér aftur hér á landi og því væru til staðar nægilega alvarlegar ástæður fyrir brottvísun, með skírskotun til allsherjarreglu. Þá kæmi fram í umsögn lögreglu, dags. 13. nóvember 2020, að kærandi væri með sjö opin mál hjá lögreglu. Væri það mat lögreglu að kærandi muni halda áfram afbrotahegðun sinni hér á landi og að hann ógni allsherjarreglu samfélagsins. Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að skilyrði 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga væru uppfyllt í máli kæranda og að takmarkanir 97. gr. sömu laga gætu ekki hróflað við þeirri niðurstöðu. Var kæranda því vísað brott frá Íslandi og með hliðsjón af alvarleika brota kæranda og lengd fangelsisrefsinga var honum ákvarðað endurkomubann til Íslands í 12 ár, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga um útlendinga.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til þess að kærandi hafi verið rétt [...] þegar hann kom til Íslands í fyrsta skipti og að hann hafi verið búsettur á landinu í um átta ár. Kærandi eigi barn hér á landi sem sé um [...] ára gamalt og búi hjá móður sinni. Hann líti á Ísland sem sitt heimaríki enda hafi hann meiri tengsl við landið heldur en heimaríki þar sem hann hafi lítil sem engin tengsl og að hann óttist að tengsl hans við barn sitt rofni verði honum brottvísað. Kærandi hafi glímt við mikla erfiðleika undanfarin ár þar sem hann sé með mikinn áfengisvanda og andleg veikindi vegna þess. Hann hafi fengið nokkra dóma á sig sem séu aðallega vegna neyslutengdra afbrota og aksturs undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá hafi hann nokkrum sinnum leitað sér aðstoðar á Vogi við áfengisvanda sínum án árangurs en sé nú loks að ná tökum á vandanum. Kærandi hafi unnið markvisst í sjálfum sér með aðstoð félagsráðgjafa til þess að ná tökum á lífi sínu og að hann geri sér fulla grein fyrir því að hegðun hans hafi ekki verið til sóma. Síðasta fangelsisrefsing hafi verið honum til góða og það sé hans ósk að komast yfir þennan hjalla í lífi sínu svo hann getið verið til staðar fyrir barn sitt og komið að uppeldi þess í framtíðinni. Telji kærandi að það beri að gefa honum tækifæri til að sanna sig þar sem hann sé að koma lífi sínu í fastar skorður og vilji lifa eðlilegu lífi. Hann óttist að tengsl sín við barn sitt rofni ef honum verði brottvísað en mikilvægt sé að rjúfa ekki þau tengsl. Þá hafi Útlendingastofnun í ákvörðun sinni lagt til að kærandi geti haft samskipti við barn sitt í gegnum fjarskiptabúnað sem sé mjög ósanngjörn ráðstöfun af hálfu Útlendingastofnunar í garð barnsins sem myndi augljóslega fela í sér tengslarof milli þeirra. Sé afar mikilvægt að barn fái að njóta umgengni og umönnunar beggja foreldra og sé sá réttur lögvarinn.

Kærandi byggir á því að brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart sér og barni sínu og við það mat sé mikilvægt að virtur sé réttur barnsins um að njóta umgengni og umönnunar beggja foreldra. Sé þessi réttur varinn af 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu verði m.a. ráðið að vernd 8. gr. taki til sambands föður og barns óháð sambúðar hans við móður, sbr. Makdoudi gegn Belgíu. Jafnframt hafi verið talið að slík vernd geti jafnvel náð til mögulegs sambands á milli föður og barns sem enn hafi ekki myndast, sbr. Nylund gegn Finnlandi. Þá beri að líta til ákvæðis 1. mgr. 9. gr. laga nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, þar sem kveðið sé á um að aðildarríki skuli tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldum sínum. Sé að mati kæranda nauðsynlegt að leggja sjálfstætt mat á tengsl hans við barn sitt þar sem slíkt sé ekki lögfræðilegs eðlis, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Sé mikilvægt í ljósi aðstæðna að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Í 95. gr. laga um útlendinga er fjallað um brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis. Í 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga segir að brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. sé heimil ef framferði viðkomandi feli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Ákvörðun um brottvísun skuli ekki eingöngu byggjast á almennum forvarnaforsendum. Ef viðkomandi hafi verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar sé brottvísun af þessari ástæðu því aðeins heimil að um sé að ræða háttsemi sem geti gefið til kynna að viðkomandi muni fremja refsivert brot á ný. Fyrri refsilagabrot nægi ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði var kærandi með viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] í máli nr. [...] dæmdur til sektargreiðslu og sviptur ökuréttindum í sex mánuði fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga og 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] í máli nr. [...] var kærandi dæmdur til 30 daga fangelsisrefsingar fyrir brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] í máli nr. [...], var kærandi dæmdur til að sæta 13 mánaða fangelsisrefsingu fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. og 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. þágildandi umferðlaga og 106. gr., 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga ásamt því að vera sviptur ökuréttindum ævilangt. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] í máli nr. [...] var kærandi dæmdur til að sæta 8 mánaða fangelsisrefsingu fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 49. gr., 1. sbr. 2. mgr. 50. gr., 1. mgr. 58. gr. og 3. og 5. mgr. 7. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og 19,. sbr. 44. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Þá var kærandi sviptur ökuréttindum ævilangt. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] í máli nr. [...] var kærandi dæmdur til að sæta 4 mánaða fangelsisrefsingu fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 49. gr., 1. sbr. 2. mgr. 50. gr. og 1. mgr. 58. gr. umferðarlaga. Þá var áréttuð ævilöng ökuréttarsvipting kæranda.

Við mat á því hvort framferði kæranda sé með þeim hætti að skilyrðum 1. mgr. 95. gr. laga um útlendinga sé fullnægt horfir kærunefnd til endurtekinna og alvarlegra brota kæranda gegn umferðarlögum með akstri undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Þrátt fyrir að tjón hafi ekki hlotist af síðastnefndum brotum kæranda hlýst af háttseminni mikil hætta gegn lífi og heilsu fólks í umferðinni. Þá hefur kærandi gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum, þ. á m. fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, sbr. ákvæði 2. mgr. 218. gr. Jafnframt lítur kærunefnd til þess að kærandi er með ólokin mál í refsvörslukerfinu sem veitir vísbendingar um að hann hafi ekki látið af háttsemi sinni. Að mati kærunefndar getur framangreind háttsemi gefið til kynna að kærandi muni fremja refsivert brot á ný, sbr. 2. ml. 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga. Þá lítur kærunefnd jafnframt til þess að afbrot kæranda hófust skömmu eftir að hann fluttist til landsins.

Í umsögn lögreglu, dags. 13. nóvember 2020, kemur fram að fyrstu afskipti lögreglu af kæranda hafi verið í október 2013 og hafi verið nær stöðug fram til dagsins í dag, að undanskildum þeim tíma sem kærandi hafi verið í afplánun fangelsisrefsingar. Afskipti lögreglu af kæranda komi í flestum tilvikum til vegna annarlegs ástands hans, en hann glími við mikinn fíknivanda og sé um að ræða tæplega 100 afskipti frá komu hans til landsins. Kærandi hafi hafið afbrotaferil sinn hér á landi í október 2013 og hafi sá ferill verið óbrotinn síðan, með hléum þar sem hann hafi verið í afplánun. Einnig sé hægt að greina að afbrot hans hafi í öllum tilvikum byrjað mjög fljótlega eftir hvert skipti sem hann hefur verið leystur úr fangelsisvist. Þá væri kærandi með sjö opin mál hjá ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, dags. 12. janúar 2021, á kærandi ólokin mál í refsivörslukerfinu en rannsóknin snýr að meintum brotum á umferðarlögum (akstur undir áhrifum áfengis og akstur án ökuréttinda), húsbroti og hótunum. Er þar um sömu meintu brot og vísað er í til hjá umsögn lögreglu fyrir utan meintar hótanir.

Með vísan til tíðni afbrota kæranda verður talið að framferði kæranda feli í sér raunverulega og yfirvofandi ógn í skilningi 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga og að háttsemi hans hafi verið slík að hún gefi til kynna að hann muni fremja refsivert brot á ný. Þá er það einnig mat kærunefndar, með vísan til langs og ítrekaðs brotaferils kæranda, að frásögn hans af því að hafa snúið blaðinu leiði ekki til þess að háttsemi hans falli ekki undir 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga.

Í 97. gr. laga um útlendinga eru ákvæði um takmarkanir á heimild til brottvísunar skv. 95. gr. laga um útlendinga. Í a-lið 1. mgr. 97. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að brottvísun skv. ákvæði 95. gr. skuli ekki ákveða ef viðkomandi hefur rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 87. gr. nema alvarlegar ástæður liggi til þess á grundvelli allsherjarreglu eða almannaöryggis. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með skráð lögheimili á Íslandi fyrst á tímabilinu 5. september 2013 til 20. mars 2015. Frá 17. september 2018 hefur kærandi verið með skráð lögheimili á Íslandi. Réttur til ótímabundinnar dvalar EES-borgara skv. 87. gr. laga um útlendinga er háður því skilyrði að viðkomandi hafi dvalist löglega á landinu samfellt í minnst fimm ár. Kemur ákvæðið því ekki til frekari skoðunar. Þá koma aðrir stafliðir 1. mgr. 97. gr. laganna ekki til álita í málinu.

Í 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga koma jafnframt fram takmarkanir á heimild til brottvísunar samkvæmt 95. gr. laganna. Í ákvæðinu segir að brottvísun skuli ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu aðstandendum hans. Við matið skuli m.a. taka mið af lengd dvalar á landinu, aldri, heilsufari, félagslegri og menningarlegri aðlögun, fjölskyldu- og fjárhagsaðstæðum og tengslum viðkomandi við heimaland sitt, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga.

Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda eða nánustu aðstandendum hans verður jafnframt að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans. Þau sjónarmið sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lagt til grundvallar í málum af þessum toga eru til að mynda eðli þess brots sem viðkomandi hefur gerst sekur um, lengd dvalar viðkomandi í því ríki sem tekur ákvörðun um brottvísun og félags-, menningar- og fjölskyldutengsl viðkomandi við dvalarríki og heimaríki, sbr. t.d. mál Üner gegn Hollandi (nr. 46410/99) og Balogun gegn Bretlandi (nr. 60286/09) frá 4. október 2013. Þá ber að hafa í huga að kærandi, sem ríkisborgari Póllands, nýtur aukins réttar til dvalar á EES-svæðinu en þriðja ríkis borgarar.

Kærandi, sem er [...] ára gamall, hefur eins og áður segir dvalið samfellt hér á landi frá 17. september 2018 en fyrir það hafði kærandi dvalið á landinu á tímabilinu 5. september 2013 til 20. mars 2015. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun ríkisins sætti kærandi gæsluvarðhaldi á tímabilinu 26. nóvember 2014 til 12. desember 2014 og frá 21. desember 2017 til 3. maí 2018. Þá afplánaði kærandi fangelsisrefsingu á tímabilinu 3. maí 2018 til 6. september 2018 og frá 27. júlí 2020 til 24. mars 2021 en þann dag var honum veitt reynslulausn á 120 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar skilorðsbundið í eitt ár.

Kærandi á barn sem fætt er á Íslandi hinn [...] og búsett er hjá barnsmóður kæranda hér á landi og fer hún ein með forsjá þess. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun óskaði stofnunin eftir áliti barnaverndar Reykjavíkur á tengslum kæranda við barn hans. Barnavernd sendi hinsvegar ekkert álit og vísaði til 74. gr. barnalaga nr. 76/2003 því til stuðnings. Meðfylgjandi svari barnaverndar voru gögn varðandi aðkomu barnaverndar að málefnum barns kæranda og móður þess.

Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að barnavernd hefur haft aðkomu að málefnum barns kæranda frá fæðingu og aðkomu að málefnum barnsmóður kæranda frá því þegar hún var þunguð af barni þeirra. Greindi móðir frá því í mæðraeftirliti að á heimilinu sem hún byggi á væri mikil áfengisneysla, reykingar og vímuefnaneysla en kærandi var á þeim tíma að afplána fangelsisrefsingu. Í endurriti af meðferðarfundi barnaverndar Reykjavíkur, dags. 27. september 2018, kemur fram það mat félagsráðgjafa að þeir hefðu ekki áhyggjur af hæfni móður til að sinna barninu en að heimilisaðstæður væru óásættanlegar. Barnsmóðir kæranda fékk útvegað félagslegt húsnæði hinn [...] og lauk barnavernd málinu hinn 23. október 2018 með bréfi til barnsmóður kæranda. Í bréfi þjónustumiðstöðvar Breiðholts til barnaverndar Reykjavíkur, dags. 21. janúar 2019, kemur fram að kærandi hafi komið í viðtal hjá þjónustumiðstöðinni hinn 7. janúar 2019 til þess að sækja um félagslegt húsnæði en húsnæðið sem hún hafi fundið hafi ekki verið á vegum Félagsbústaða heldur væri lítil stúdíóíbúð. Í viðtalinu hafi komið í ljós að kærandi væri kominn úr afplánun og hefði verið talsvert á heimili barnsmóður sinnar og barns. Hann væri í mikilli áfengisneyslu, kæmi þangað á öllum tíma sólarhrings, þá yfirleitt undir áhrifum og í andlegu ójafnvægi. Hefði hann einnig mætt með vini sína úr gistiskýlinu þangað. Hafi barnsmóðir kæranda reynt að setja honum mörk, að hann komi þangað ekki undir áhrifum áfengis- eða vímuefna og ekki með vini sína með sér, og hafi kærandi virt það að koma einn en hann kæmi þó oft undir áhrifum. Í vitjun félagsráðgjafa heima hjá barnsmóður kæranda hafi hún sýnt þeim síma og tölvu sem kærandi hefði eyðilagt tveimur dögum áður ásamt hnefafari í stofuborðinu og sagt þeim að kærandi missti stundum stjórn á skapi sínu. Þá ætti hann það til að taka kortið hennar og eyða peningunum hennar og ætti hún af þeim sökum stundu erfitt með að láta enda ná saman. Tjáði barnsmóðir kæranda þeim að kærandi hjálpaði henni stundum með barn þeirra en að hann væri þá undir áhrifum. Tók barnavernd málið til skoðunar á meðferðarfundi 4. mars 2019 og var m.a. ákveðið að tekið yrði upp óboðað eftirlit vegna aðstæðna barns þeirra.

Í fyrirliggjandi tilkynningum lögreglu til barnaverndar Reykjavíkur kemur fram að lögregla hafi farið að heimili barnsmóður kæranda hinn 6. nóvember 2019 eftir tilkynningu frá nágranna um að kærandi væri að rústa íbúðinni og leggja hendur á barnsmóður sína. Á vettvangi hafi barnsmóðir kæranda tjáð lögreglu að kærandi hafi komið í heimsókn til að hitta barn sitt og hafi hún beðið hann um að yfirgefa heimilið vegna ölvunar. Hafi kærandi skyndilega reiðst, tekið hana hálstaki, rifið í hár hennar og hrækt á andlit hennar. Hafi hann tekið fjármuni af henni og síma og yfirgefið heimilið. Síðar um kvöldið hafi lögregla handtekið kæranda og hafi hann blásið 2,90 prómill í SD-2 áfengismæli. Hinn 25. febrúar 2020 var kærandi handtekinn af lögreglu eftir að hafa brotið sér leið inn á heimili barnsmóður sinnar og blásið 2,80 prómill í SD-2 áfengismæli. Í tilkynningu til barnaverndar Reykjavíkur frá félagsráðgjafa barnsmóður kæranda, dags. 2. mars 2020, kemur m.a. fram að mikilvægt sé að hindra aðgengi kæranda að barni sínu eftir því sem hægt sé. Sé það afar mikilvægt að veita barnsmóður þann stuðning sem hún þurfti til að geta sett kæranda mörk og meina honum aðgengi að heimilinu.

Gögn málsins og önnur fyrirliggjandi gögn barnaverndar sem hafa ekki verið reifuð sérstaklega í úrskurði þessum eru að mati kærunefndar þess eðlis að stjórnvöld geti með fullnægjandi hætti metið samband kæranda við barn sitt. Er því málsástæðu kæranda þess að lútandi hafnað.

Af fyrirliggjandi gögnum barnaverndar verður ráðið af áðurnefndum gögnum að ákveðinn stöðugleiki hafi náðst í líf barnsmóður kæranda og barns þeirra eftir að þau fengu betra húsnæði með aðstoð félagsþjónustunnar. Barn kæranda er eins og áður greinir fætt hinn [...] en frá þeim tíma hefur kærandi afplánað fangelsisrefsingu á tímabilinu 3. maí 2018 til 6. september 2018 og frá 27. júlí 2020 til 24. mars 2021 eða í um 11 mánuði. Með hliðsjón af þeim tíma sem kærandi hefur afplánað fangelsisrefsingu frá fæðingu barns hans og gögnum frá barnavernd er ljóst að kærandi hefur litla aðkomu haft að uppeldi barns síns auk þess sem samskipti kæranda við barnsmóður sína og barn, sem áður eru rakin, verða ekki talin stuðla að uppbyggilegu umhverfi fyrir barn kæranda. Af öllu framangreindu er ljóst að kærandi hefur að mjög takmörkuðu leyti sinnt forsjárskyldum sínum við barn sitt og má telja ljóst að kærandi hafi á engum tímapunkti verið aðalumönnunaraðili þess. Hvað varðar önnur tengsl kæranda við landið bera fyrirliggjandi staðgreiðsluskrár Skattsins með sér að kærandi hafi að meginstefnu á dvalartíma sínum þegið greiðslur frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar og atvinnutengsl hans við landið því lítil sem engin.

Brotaferill kæranda ber þess vitni að hann hefur átt í verulegum vandræðum með að aðlagast íslensku samfélagi. Eins og áður greinir hefur kærandi ítrekað gerst sekur um brot gegn umferðarlögum og almennum hegningarlögum, m.a. stórfellda líkamsárás, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Er það mat kærunefndar að eftir því sem brot útlendings eru alvarlegri séu almennt þungvægari rök til brottvísunar hans. Í slíkum tilvikum fá grundvallarhagsmunir samfélagsins aukið vægi þegar metið er hvort ráðstöfun gangi of langt gagnvart mannréttindum einstaklings samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda fyrirliggjandi gögn barnaverndar ekki til þess að sterkt samband sé á milli kæranda og barns hans, m.a. vegna mikillar óreglu kæranda. Þá er ljóst af gögnum málsins að kærandi hefur oftar en einu sinni gengið berserksgang á heimili barnsmóður og barns og þannig raskað einkalífi þeirra með verulegum hætti. Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að þegar tengsl kæranda við landið eru vegin heildstætt á móti alvarleika brota kæranda og tíðni þeirra verði ekki talið að ákvörðun um brottvísun hans feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda bönnuð endurkoma til Íslands í tólf ár, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga um útlendinga. Að málsatvikum virtum, með vísan til alvarleika brota kæranda og fjölda þeirra en með hliðsjón af fjölskyldutengslum hans við landið verður endurkomubann kæranda ákveðið fimm ár. Athygli er vakin á því að samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga um útlendinga er samkvæmt umsókn heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar ástæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann. Einnig mælir 3. mgr. 96. gr. fyrir um að við sérstakar aðstæður getur sá sem vísað hefur verið brott, eftir umsókn, fengið heimild til stuttrar heimsóknar til landsins án þess að endurkomubannið verði fellt úr gildi en þó að jafnaði ekki fyrr en að ári liðnu frá brottvísun. Þá er athygli kæranda jafnframt vakin á því að tímabilið sem kæranda er bönnuð endurkoma til landsins hefst við framkvæmd brottvísunar.

Þá hefur kærunefnd farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð Útlendingastofnunar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana. Að öðru leyti telur kærunefnd ekki tilefni til umfjöllunar um þau rök sem kærandi hefur fært fram við meðferð málsins hjá nefndinni.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest hvað varðar ákvörðun um brottvísun kæranda. Endurkomubann kæranda er ákveðið 5 ár.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the complainant expulsion is affirmed. The complainant shall be denied entry into Iceland for 5 years.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                  Sandra Hlíf Ocares

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum