Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Rúmlega 600 þátttakendur á jarðhitaráðstefnunni í Hörpu

Alþjóðalega jarðhitaráðstefnan, Iceland Geothermal Conference, hefst á morgun í Hörpu og stendur fram á föstudag. Þetta er í fjórða sinn sem ráðstefnan er haldin og þátttakendur eru rúmlega 600 talsins. Fulltrúar fimm þróunarbanka sækja ráðstefnuna.

Viðar Helgason framkvæmdastjóri Íslenska jarðvarmaklasans sem stendur fyrir ráðstefnunni segir að hún sé eitt stærsta, ef ekki stærsta, viðskiptatækifæri Íslendinga í áraraðir. Hún sendir einnig sterk skilaboð um að virkjun jarðhita geti verið mikilvæg lausn í loftslags- og fæðuöryggismálum. Að sögn Viðars hefur ráðstefnan vaxið stöðugt frá því hún var fyrst haldin árið 2010. Nú eru þátttakendur komnir yfir sex hundruð, þar af um það bil helmingur erlendis frá.

Meðal þekktra fyrirlesara má nefna Christinu Figuera fyrrverandi framkvæmdastjóra Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC), Adnan Z. Amin framkvæmdastjóra alþjóðastofnunar um endurnýjanlega orkugjafa (IRENA) og Shinichi Kitaoka framkvæmdastjóra japönsku þróunarsamvinnustofnunarinnar JICA, sem er nú í fyrstu heimsókn sinni til Íslands.

„Við erum að markaðssetja ráðstefnuna sem alþjóðlegan viðskiptaviðburð, með áherslu á framþróun og uppbyggingu í heiminum, ásamt því að marka jarðvarma sess sem hluta af endurnýjanlegum orkugjöfum. Að mínu mati hefur Íslenska jarðvarmaklasanum tekist mjög vel að koma jarðvarmanum á kortið. Við viljum leggja áherslu á að jarðvarminn geti leikið mjög mikilvægt hlutverk ásamt og með öðrum orkugjöfum, sérstaklega hvað varðar varmaorkuþörf annars vegar og sem grunnafl í raforkuframleiðslu hins vegar. Evrópa, sérstaklega austurhluti hennar, er að vakna til vitundar um að helming orkuþarfar álfunnar má rekja til húshitunar, Kínverjar eru komnir á góðan skrið í þessum efnum, og margar aðrar þjóðir til dæmis í Suður-Ameríku og Afríku horfa mjög til möguleika í fjölnýtingu, svo sem við þurrkun matvæla. Þar eru sóknarfæri sem við þurfum að grípa,“ segir Viðar.

Í morgun var einmitt hliðarviðburður í Hörpu um nýtingu jarðvarma og fæðuöryggi. Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands og Adnan Z. Amin framkvæmdastjóri IRENA fluttu aðalræðurnar.

Opnunarhátíð ráðstefnunnar hefst klukkan níu í fyrramálið með ávörpum frá Guðna Th. Jóhannssyni forseta Íslands og Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka
Heimsmarkmið - mynd
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum