Hoppa yfir valmynd
4. mars 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Embætti skólameistara Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu - mynd

Mennta- og barnamálaráðuneytið auglýsir laust til umsóknar embætti skólameistara Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu. Umsóknarfrestur er til og með 22. mars 2022.

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu er um 150 nemendaskóli sem var stofnaður árið 1987 og er staðsettur í Höfn í Hornarfirði. Í skólanum er lögð áhersla á að þjóna þörfum nemenda á persónulegan hátt með sveigjanlegu námsframboði. Fjarnám og tölvutengt nám er mikilvægur hluti náms við skólann.

Starfssvið

Skólameistari veitir skólanum forstöðu. Hann stjórnar daglegum rekstri og starfi skólans og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar og að henni sé fylgt auk þess að hafa frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans. Skólameistari gegnir mikilvægu hlutverki í mótun skólastarfs á grundvelli laga og aðalnámskrár framhaldsskóla og er mikilvægt að umsækjendur hafi skýra framtíðarsýn.

Hæfni- og menntunarkröfur

  • Starfsheitið kennari ásamt viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi
  • Umfangsmikil stjórnunarreynsla og leiðtogahæfni
  • Þekking á fjármálum, rekstri og áætlanagerð
  • Reynsla af verkefnastjórn og stefnumótunarvinnu
  • Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu
  • Góð samskiptahæfni og færni í að skapa liðsheild á vinnustað
  • Frumkvæði, skipulagshæfni og sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Skýr framtíðarsýn og hæfileiki til nýsköpunar.

Ráðning og kjör

Mennta- og barnamálaráðherra skipar skólameistara til fimm ára í senn að fenginni umsögn hlutaðeigandi skólanefndar skv. 6. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla sbr. lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum. Skipað er í embættið frá 1. ágúst 2022.

Um ráðningu og launakjör skólameistara fer eftir 39. gr. a í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og 2. mgr. 12. gr. laga nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Umsóknir

Sótt er um starfið á vef Starfatorgs.

Með umsókn skal fylgja 1) ítarleg starfsferilskrá með upplýsingum um núverandi starf umsækjanda ásamt ítarlegum upplýsingum um menntun og fyrri störf, 2) kynningarbréf þar sem fram kemur hvernig umsækjandi uppfyllir hæfnikröfur samkvæmt starfsauglýsingu og 3) greinargerð um framtíðarsýn fyrir Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu út frá faglegum og rekstrarlegum áherslum í skólastarfi.

Við skipun í embætti hjá mennta- og barnamála-ráðuneyti er tekið mið af jafnréttisáætlun ráðuneytisins.

Nöfn allra umsækjenda verða birt á vef ráðuneytisins að loknum umsóknarfresti og verða umsóknir þar sem óskað er nafnleyndar ekki teknar til greina.

Nánari upplýsingar: Björg Pétursdóttir, skrifstofustjóri, [email protected]

Uppfært 07.03.22 kl. 10:52

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum