Hoppa yfir valmynd
18. september 2015 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra skipar nefnd sem geri tillögur um einföldun leyfisveitinga og eftirlits

Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga hefur forsætisráðherra í dag skipað samstarfsnefnd með aðilum vinnumarkaðarins um starfshætti eftirlitsstofnana. Nefndinni er falið að gera tillögur til breytinga á löggjöf sem miði að endurskoðun leyfisveitinga og eftirlits með atvinnurekstri. Jafnframt er nefndinni ætlað að gera tillögur um sameiningu eftirlitsverkefna og eftirlitsstofnana. Samræmist hlutverk nefndarinnar vel þeirri fyrirætlan ríkisstjórnarinnar, sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu hennar, að regluverk atvinnulífsins verði endurskoðað með einföldun og aukna skilvirkni að leiðarljósi. Skal nefndin skila tillögum sínum til forsætisráðherra eigi síðar en 1. apríl 2016. 

Í nefndinni eiga sæti Sigurður Örn Guðleifsson lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, sem jafnframt er formaður, Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Samtaka iðnaðarins, Guðrún Ögmundsdóttir sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Pétur Reimarsson forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins, Skúli Sveinsson lögmaður og Valgerður Rún Benediktsdóttir skrifstofustjóri í avinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum