Hoppa yfir valmynd
17. október 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 16: Friður og réttlæti

16. Friður og réttlæti - mynd

Stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla jarðarbúa, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum

Ísland er talið eitt friðsælasta land heims samkvæmt Efnahags- og friðarstofnuninni (IEP) og hefur verið það frá árinu 2008.67 Þrátt fyrir þessa jákvæðu niðurstöðu er þó margt sem má betur fara og hafa íslensk stjórnvöld einsett sér að taka sérstaklega á aðkallandi málum, s.s. á ofbeldi í íslensku samfélagi. Með utanríkisstefnu sinni leggur Ísland lóð sín á vogarskálarnar til að stuðla að friðsamlegri lausn deilumála, virðingu fyrir alþjóðalögum og mannréttindum, jafnrétti, lýðræði og hagsæld.

Réttarríki

Jafn aðgangur allra að réttarkerfinu á Íslandi er grunnþáttur í íslensku réttarfari en að efla réttarríkið er þó viðvarandi markmið. Frá og með 1. janúar 2018 er dómstólakerfið á Íslandi þriggja þrepa kerfi í stað tveggja áður. Með þeirri breytingu verður réttarkerfið á Íslandi styrkt enn frekar.

Ofbeldi

Íslensk stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á að draga úr hvers kyns ofbeldi. Í mars árið 2017 var efnt til samráðs á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds undir forystu velferðar-, dómsmála- og mennta- og menningarmálaráðuneytisins um að undirbúin yrði aðgerðaáætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Samráðshópur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins hefur skilað aðgerðaáætlun til dómsmálaráðherra og hefur ríkisstjórnin samþykkt að veita viðbótarfjármagn til innleiðingar aðgerða þeirra sem lagðar eru til. Þá var í upphafi þessa árs stofnaður stýrihópur um úrbætur gegn kynferðislegu ofbeldi sem hefur það að meginhlutverki að beita sér fyrir framsæknum og samhæfðum aðgerðum stjórnvalda gegn kynferðislegu ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni. Markmiðið er að Ísland verði í fremstu röð í baráttunni gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi.

Verndun barna

Ísland hefur fullgilt samþykktir frá Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) er varða lágmarksaldur við vinnu, samþykkt um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana, samþykkt um nauðungarvinnu eða skylduvinnu og samþykkt um afnám nauðungarvinnu. Einnig hefur Ísland fullgilt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá er unnið að nýrri aðgerðaáætlun um aðgerðir gegn mansali þar sem sérstaklega er gert ráð fyrir aðstoð fyrir börn. Stefnt er að því að leggja fram nýja áætlun haustið 2018. Í Barnahúsi fara fram könnunarviðtöl og/eða skýrslutökur fyrir dómstólum í málum þar sem grunur leikur á að börn hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða áreitni. Einnig fara fram viðtöl í Barnahúsi við börn sem komið hafa hingað til lands án forsjáraðila og sótt um alþjóðlega vernd.

Skipulögð brotastarfsemi og spilling

Brotastarfsemi verður sífellt alþjóðlegri í eðli sínu og við því hafa íslensk stjórnvöld brugðist með auknu alþjóðlegu samstarfi og eflingu innlendra stofnana í réttarvörslukerfinu og víðar. Ísland er aðili að Samningi Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi og að Alþjóðalögreglunni Interpol. Ísland er einnig aðili að alþjóðlega vinnuhópnum FATF og hafa stjórnvöld brugðist við tilmælum FATF um baráttu gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og halda áfram þeirri vinnu. Þetta er mikilvægur liður í að standa vörð um fjármálakerfið og koma sem best í veg fyrir að ágóði af ólöglegri starfsemi flæði þar í gegn. Þá skiptir sú vinna einnig miklu máli í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi. Ísland er jafnframt aðili að ríkjahópi gegn spillingu innan Evrópuráðsins (GRECO), samningi OECD um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum og Sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu (UNCAC). Stjórnvöld upplýsa þessar stofnanir reglulega um íslenska löggjöf, stjórnsýslu og annað sem máli skiptir svo hægt sé að leggja mat á frammistöðu Íslands og vinna að frekari úrbótum. Skilvirkar og ábyrgar stofnanir Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að auka gagnsæi með stefnumótun hér innanlands sem m.a. felst í lagasetningu og vitundarvakningu. í því skyni hefur Alþingi samþykkt siðareglur sem m.a. ættu að auka gagnsæi auk þess sem dómarar og ákærendur hafa sett sér siðareglur. GRECO hefur lagt áherslu á að styrkja hagsmunaskráningu þingmanna og þá um leið ráðherra sem flestir eru líka þingmenn. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á góð vinnubrögð, opna stjórnsýslu og gagnsæi. Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem á að yfirfara reglur um hagsmunaskráningu bæði ráðherra og þingmanna með hliðsjón af ábendingum og alþjóðlegum viðmiðum. Forsætisráðherra hefur einnig skipað nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla og upplýsingafrelsis sem ætlað er að vinna breytingar á lögum sem varða vernd uppljóstrara og umbætur í umhverfi stjórnsýslu, meðal annars í takt við ábendingar alþjóðastofnana. Þá verður lagt til við forsætisnefnd að reikningar Alþingis verði opnaðir í samræmi við það sem þegar hefur verið gert í Stjórnarráðinu.

Gagnsæi í stjórnsýslu og þátttaka almennings

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Einn þáttur í því er að yfirfara reglur um hagsmunaskráningu bæði ráðherra og þingmanna með hliðsjón af ábendingum og alþjóðlegum viðmiðum.

Á undanförnum árum hefur íslensk stjórnsýsla þróast í átt að aukinni viðbragðshæfni og þátttöku almennings í ákvarðanatöku. Jafnframt hafa stjórnvöld á síðustu árum unnið í anda opinnar stjórnsýslu og opnað nýjan Stjórnarráðsvef þar sem möguleiki er á endurgjöf almennings og fyrirtækja með ýmsum hætti. Einnig hefur verið opnuð samráðsgátt Stjórnarráðsins á island.is þar sem almenningi er veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum varðandi lagafrumvörp og aðra stefnumarkandi ákvarðanatöku stjórnvalda á framfæri. Árið 2016 voru jafnframt samþykkt ný lög um opinber fjármál sem tengja saman stefnumótun stjórnvalda við ríkisfjármál. Með innleiðingu laganna verður fjárlagaferlið gagnsærra, stefnuþættir opnari og beintengdir fjármagni sem einnig mun leiða til þess að fjárlagaferlið verði opnara almenningi.

Tjáningarfrelsi og aðgangur að upplýsingum eru meðal hornsteina íslensks samfélags, sbr. m.a. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, þar sem kveðið er á um að hver maður eigi rétt á að láta hugsanir sínar í ljós. Þá eiga upplýsingalög að tryggja að starfsemi stjórnvalda sé gagnsæ og allar upplýsingar og gögn skuli gerð opinber nema sérstakar aðstæður krefjist annars. Samkvæmt alþjóðlegum úttektum er frelsi fjölmiðla vel tryggt hér á landi og skipar Ísland 13. sæti á lista Samtaka blaðamanna án landamæra (e. Reporters without borders) um fjölmiðlafrelsi í heiminum. Ísland var hins vegar í 10. sæti á þessum lista árið 2017 og féll því niður um þrjú sæti á milli ára.68 Þá hefur Mannréttindadómstóll Evrópu kveðið upp dóma á undanförnum árum um að brotið hafi verið gegn tjáningarfrelsi fjölmiðla. Íslensk stjórnvöld taka þessa dóma alvarlega og vinna að því að tryggja að íslensk löggjöf og réttarframkvæmd samrýmist alþjóðlegu skuldbindingum á þessu sviði.

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Ísland leiddi viðræður um fimmtu endurskoðun á aðgerðaáætlun SÞ um aðgerðir gegn hryðjuverkum sumarið 2016 þar sem lögð var sérstök áhersla á þátt kvenna og ungmenna í baráttunni gegn hryðjuverkum. Á vettvangi mannréttindaráðs SÞ hefur Ísland beitt sér sérstaklega varðandi réttindi kvenna, barna og hinsegin fólks. Ísland studdi ásamt hinum Norðurlöndunum stofnun stöðu sérstaks fulltrúa sem eftirlit hefur með réttindum hinsegin fólks á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Frá september síðastliðnum hefur Ísland leitt félags-, mannúðar- og menningarnefnd (þriðju nefnd) allsherjarþings SÞ. Það er í fyrsta skipti í yfir 50 ár sem Ísland tók að sér formennsku í einni undirnefnda allsherjarþingsins. Nýverið gegndi Ísland einnig formennsku í nefnd um félagslega þróun (e. Commission for Social Development) og lagði fastanefnd Íslands fram drög að ályktun og leiddi samningaviðræður um meginþema aðalfundar nefndarinnar sem sneri að mögulegum leiðum til að vinna gegn fátækt. Þar að auki hefur Ísland tekið að sér viðræðustjórn í samningaviðræðum um endurskoðun á efnahags- og félagsmálanefnd Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) frá því í desember síðastliðnum. Ísland hefur áfram verið öflugur málsvari kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, meðal annars skrifaði utanríkisráðherra undir rammasamning við Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og tók forseti Íslands við hlutverki eins talsmanna HeForShe-átaksins frá fráfarandi forsætisráðherra í desember 2017. Í samvinnu við önnur ríki hafa íslensk stjórnvöld skipulagt fjölda svokallaðra rakarastofuviðburða sem hátt í 2.000 manns, þar af helmingur karlmenn, hafa sótt til að auka vitund og skilning á mikilvægi þátttöku karla í jafnréttismálum. Þá var fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands skipaður í stöðu framkvæmdastjóra Mannréttinda og lýðræðisstofnunar ÖSE (e. Office for Democratic Institutions and Human Rights, ODIHR) í júlí 2017.

Utanríkisráðuneytið fer með formennsku í landsnefnd um mannúðarrétt sem stofnuð var í samræmi við heit stjórnvalda og Rauða krossins á alþjóðaráðstefnu Rauða krossins árið 2007. Áfram er unnið að framkvæmd fjögurra sameiginlegra heita fyrir tímabilið 2016-2019 sem fulltrúar Rauða krossins á Íslandi og íslenskra stjórnvalda skuldbundu sig til að vinna að árið 2015. Heitin varða m.a. vernd til handa flóttafólki frá átakasvæðum, aukna aðstoð við fórnarlömb mansals og ráðstafanir gegn fordómum gagnvart útlendingum og til að auðvelda þeim að laga sig að samfélaginu. Framkvæmd heitanna er á áætlun. Íslensk stjórnvöld lögðu myndarleg lóð á vogarskálar að því er varðar aðstoð vegna aukins straums flóttamanna í Evrópu á árinu 2016. Alls voru veittir tveir milljarðar króna frá því síðla árs 2015 til þess að bregðast við þeim vanda sem steðjar að flóttamönnum, bæði í mannúðaraðstoð nærri stríðsátökum sem og vegna móttöku flóttafólks hér á landi. Þá verður frumvarp um innleiðingu Kampala-breytinganna á stofnsamþykktum Alþjóðlega sakamáladómstólsins um brot gegn friði og innleiðingu refsiákvæða Genfar-sáttmálanna lagt fram á Alþingi í haust. Enn fremur hafa íslensk stjórnvöld um nokkurt skeið lagt áherslu á framkvæmd ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi, sem miðar að því að tekið sé tillit til sérstöðu kvenna í átökum og áréttir mikilvægi þátttöku kvenna í friðarumleitunum og -uppbyggingu. Þessu tengt var komið á samstarfi árið 2016 við UN Women og félagsmálaráðuneytið í Mósambík um konur, frið og öryggi. Meginmarkmið verkefnisins er að tryggja að ferlar og áætlanir sem stuðla að friði, öryggi og endurreisn í mósambísku samfélagi stuðli að jafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna sem oft verða út undan í þess háttar ferlum og áætlunum.

67 vision of humanity, global peace index 2018, visionofhumanity.org/indexes/global-peace-index/

68 reporters without borders, 2018, 2018 world press freedom index

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum