Hoppa yfir valmynd
16. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Öryggi og heilbrigt vinnuumhverfi í öndvegi á 110. Alþjóðavinnumálaþinginu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, á þinginu.  - mynd

Alþjóðavinnumálaþingið var haldið í 110. skipti í Genf dagana 30. maí til 12. júní. Á þingið mættu yfir 4000 fulltrúar launafólks og atvinnurekenda frá 178 aðildarlöndum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, ávarpaði þingið og ræddi mikilvægi vinnumarkaðar fyrir öll og mikilvægi þess að viðkvæmir hópar fái tækifæri til þess að þroska hæfileika sína, mennta sig og finna sér starf við hæfi.

Á þinginu var ákveðið að bæta öryggi og heilbrigði á vinnustöðum við sem fimmtu grundvallarreglunni við yfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu frá árinu 1998.

Þá fór fram almenn umræða um mannsæmandi vinnu og félagslegt samstöðuhagkerfi, og var samþykkt ályktun um þetta efni. Einnig fór fram á þinginu fyrri umræða af tveimur um að setja tilmæli um lærlinga. Umræðurnar snérust meðal annars um skilgreiningu á lærlingum, gæði lærlingastaða, framkvæmd og þóknun.

Á þinginu voru samþykktar átta breytingar á samþykkt  nr. 186 um vinnuskilyrði farmanna. Þessar breytingar voru samþykktar í maí 2022 á fjórða fundi sérfræðinefndar sem skipuð er af fulltrúum farmanna, eiganda skipa og viðeigandi ríkja. Breytinarnar munu taka gildi í desember 2024 og fela í sér aukna vinnuvernd fyrir farmenn um allan heim eftir heimsfaraldurinn.

Auk þess fór fram umfjöllun um framkvæmd aðildarríkjanna á fullgildum alþjóðasamþykktum. Verkefni nefndarinnar er að fylgjast með framkvæmd samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og vera í samskiptum við aðildarríki sem hafa ekki innleitt fullgiltar samþykktir eða benda á bein brot á þeim.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum