Hoppa yfir valmynd
3. október 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkir þáttaröðina Með okkar augum

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, undirrita samninginn. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt tveggja milljóna króna styrk til sjónvarpsþáttanna Með okkar augum sem sýndir hafa verið á RÚV undanfarin ár. Ráðuneytið hefur um nokkurt skeið stutt við framleiðslu þáttanna, sem notið hafa mikilla vinsælda og hlotið fjölda viðurkenninga þ.m.t. Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins, gegn fordómum, hvatningarverðlaun ÖBÍ, Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar og Edduverðlaunin sem menningarþáttur ársins í sjónvarpi.

Markmiðið með þáttunum er að auka sýnileika fatlaðs fólks og varpa ljósi á fjölbreytt viðfangsefni þess og opna þannig augu almennings fyrir margbreytileika samfélagsins. Í þáttunum skoða þáttastjórnendur málefni líðandi stundar með sínum augum og spyrja þeirra spurninga sem þeim eru efst í huga hverju sinni. Efnistök þáttanna eru fjölbreytt og taka gjarnan mið af því sem er að gerast í samfélaginu hverju sinni. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Það er afar ánægjulegt að geta áfram stutt við framleiðslu Með okkar augum. Eins og svo mörg önnur hef ég fylgst með þáttunum í gegnum árin og lært margt af þeim. Ég tel mikilvægt að framleiðslu þeirra verði haldið áfram því samfélagið er sífellt að breytast og því fylgja nýjar áskoranir fyrir okkur öll. Þættirnir styðja líka við framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en hann kveður meðal annars á um skyldur okkar við að efla samfélagslega vitund um málefni og réttindi fatlaðs fólks.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum