Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 396/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. nóvember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 396/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20060024

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 16. júní 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Tadsíkistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. maí 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 78. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 4. febrúar 2020. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 15. apríl 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 27. maí 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 16. júní 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 1. júlí 2020. Þá bárust kærunefnd gögn frá kæranda þann 18. júlí 2020. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 24. september 2020 ásamt talsmanni sínum og túlki. Viðbótargögn og upplýsingar bárust þann 8. og 18. september, 12. október, 5. og 6. nóvember 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi og ætlaðra stjórnmálaskoðana.Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi dvalið á Íslandi ásamt eiginkonu sinni frá árinu 2016 og hafi þau eignast barn hér á landi árið 2018. Kærandi hafi búið í höfuðborg Tadsíkistan, Dushanbe, lengst af en hann hafi einnig búið í Moskvu í Rússlandi. Kærandi hafi greint frá því að þegar foreldrar hans hafi flutt til Tadsíkistan hafi þau ekki átt annarra kosta völ en að taka upp íslamstrú. Kærandi sé ekki þeirrar trúar og þá fylgi hann ekki trúarlegum venjum. Kærandi telji að honum sé ómögulegt að snúa aftur til heimaríkis þar sem hann óttist ofsóknir yfirvalda þar í landi en þau hafi ranglega grunað hann um að hafa tekið þátt í athæfi sem kallað sé Igil eða Mujaid á tadsikísku. Um sé að ræða þátttöku í vopnuðum átökum í erlendum ríkjum á borð við Írak og Sýrlandi. Hafi kærandi verið grunaður um að taka þátt í átökum í Sýrlandi. Ástæða þess að hann hafi legið undir grun hafi verið sú að nokkrir af vinum hans sem hann hafi búið með hafi tekið þátt í átökum þar í landi á árunum 2013 til 2015. Lögregluembætti sem hafi rannsakað mál mannanna hafi gengið út frá því að kærandi hafi gert það sama. Kærandi kveði að hið rétta sé að á umræddum tíma hafi hann starfað sem leigubílstjóri og hafi ekki kært sig um að taka þá í hinni ólöglegu starfsemi. Þó hafi komið fyrir að kærandi hafi keyrt vini sína þegar þeir hafi verið á leið til annarra landa í slíkum erindum. Þann 25. mars 2016 hafi kærandi verið tekinn af lögreglu og yfirheyrður. Við yfirheyrslur hafi kærandi neitað sök en lögreglan hafi beitt hann þvingunum og illri meðferð þegar þeir hafi reynt að fá hann til að játa að hafa tekið þátt. Kærandi hafi verið beittur líkamlegu ofbeldi og verið pyntaður. Afleiðingar hafi m.a. verið þær að hann hafi axlar-, nef- og fótbrotnað. Kærandi hafi greint frá því að mánuði áður en hann hafi verið yfirheyrður hafi vinur hans að nafni [...] verið yfirheyrður og hann spurður um ferðir sínar til Sýrlands. Kærandi kveði að [...] hafi sagt að „allir“ hafi farið til Sýrlands og að lögregla hafi túlkað það sem svo að allir þeir sem hafi búið saman hafi farið og þ.a.l. hafi lögreglan talið að kærandi hafi einnig farið þangað. Eftir að hafa verið pyndaður hafi [...] greint frá manni sem kærandi þekki að nafni [...] sem hafi staðið á bak við flutninga manna til Sýrlands. Kærandi hafi átt í viðskiptum um kaup og sölu á bifreiðum við framangreindan mann þegar kærandi hafi verið búsettur í Moskvu. Kærandi kveði að við yfirheyrslur hafi hann ákveðið að veita ekki upplýsingar um ólögmæta starfsemi [...] en hann stundi glæpastarfsemi og hafi tengsl við glæpasamtök. Eftir að kæranda hafi verið sleppt úr yfirheyrslu lögreglunnar þá hafi hann haft samband við [...] og greint honum frá því að lögreglan hafi spurt um hann. [...] hafi þá sagt kæranda að flýja vegna þess að kærandi vissi of mikið og gæti átt á hættu á að vera drepinn. Kærandi hafi flúið heimaríki sitt í maí 2016.

Þá kveður kærandi lögregluna hafa komið á heimili föður síns og spurt um sig og látið hann undirrita yfirlýsingu um að hann vissi ekki um sig. Einnig hafi lögreglan spurt aðra sem kærandi þekki að hinu sama. Kærandi óttist að verða settur í fangelsi að ósekju í heimaríki. Þá óttist hann illa meðferð líkt og hann hafi þegar orðið fyrir og að hann verði beittur ofbeldi og hann drepinn. Kærandi óttist að lögreglan komist að því að hann hafi logið hvað varði vitneskju hans um [...]. Þá óttist kærandi einnig að við komu til heimaríkis verði hann tekinn til yfirheyrslu af yfirvöldum og hann grunaður um að hafa talað illa um þau í erlendum ríkjum.

Í greinargerð er fjallað almennt um aðstæður í Tadsíkistan og stöðu mannréttinda í ríkinu. Á meðal helst vandamála tengdum mannréttindum. Meðal helstu mannréttindabrota í landinu séu pyndingar á föngum, handahófskenndar varðhaldsvistanir, ritskoðun, lokun á vefsíðum, veruleg inngrip í funda- og félagafrelsi og takmarkanir fyrir borgara landsins á þátttöku í stjórnmálum. Þrátt fyrir að lög kveði á um sjálfstæði dómstóla sé réttargæslukerfið og þeir sem starfi innan þess undir þrýstingi frá framkvæmdavaldinu. Þá er vísað til þess að samkvæmt lögum í Tadsíkistan frá árinu 2014 sé refsivert að taka þátt í vopnuðum átökum erlendis og séu refsiviðurlög fyrir slíkt athæfi 12 til 20 ára fangelsi. Samkvæmt heimildum hafi yfirvöld í Tadsíkistan handtekið einstaklinga sem hafi tekið þátt í bardögum erlendis, þ.m.t. í Sýrlandi.

Í greinargerð gerir kærandi ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Kærandi gerir í fyrsta lagi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi lagt til grundvallar á óljósum grunni að misræmi væri í frásögn hans varðandi áramótin 2016. Hafi stofnunin lagt til grundvallar áramótin 2016/2017 en kærandi hafi átt við áramótin 2015/2016. Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við að stofnunin hafi lagt til grundvallar að misræmi væri á milli framburðar hans og eiginkonu hans um hvar hann hafi búið áður en hann hafi flúið heimaríki. Kærandi hafi dvalið á heimili foreldra sinna á milli þess sem hann hafi verið í Rússlandi. Kærandi gerir þá athugasemd við að Útlendingastofnun hafi talið framburð hans hafa verið á marga vegu óskýran og að misræmi hafi verið í honum. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi ekki lagt sig fram um að setja frásögn hans í samhengi. Telur kærandi að samkvæmt framangreindu hafi stofnunin við meðferð málsins brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærandi að það að hafa leitað annarra leiða til dvalar hér á landi en sækja um alþjóðlega vernd feli ekki í sér staðfestingu á því að hann hafi ekki flúið heimaríki vegna ástæðuríks ótta. Það sé ekki skilyrði í flóttamannarétti að umsókn um alþjóðlega vernd sé fyrsta úrræða sem umsækjandi kjósi að nýta sér. Kærandi telur að ekki gagnist fyrir Útlendingastofnun að vísa eingöngu í dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu hvað varði mat á framangreindu en í því máli sem stofnunin hafi vísað í og byggt á við mat sitt hafi frásögn aðila tekið miklum breytingum á mismunandi stigum málsmeðferðarinnar auk þess sem hann hafi lagt fram skjöl sem talin hafi verið fölsuð.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði 38. gr. laganna. Kærandi byggir kröfu sína á því að hann tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi í heimaríki, sbr. ákvæði d-liðar 3. mgr. 38. gr., sem samkvæmt ákvæðinu vísi til hóps sem umfram það að sæta ofsóknum hafi sameiginleg einkenni eða bakgrunn sem ekki verði breytt. Kærandi telur að vegna bakgrunns síns sem hann geti ekki breytt hafi yfirvöld í heimaríki hann grunaðan um að hafa tekið þátt í vopnuðum átökum í Sýrlandi. Kærandi hafi greint lögreglu frá því að hafa aldrei tekið þátt í slíku athæfi en yfirvöld telji að hann tilheyri hópi manna sem hafi gerst sekir um brot á lögum Tadsíkistan sem gera slíkt athæfi brotlegt. Þá byggir kærandi framangreinda kröfu á 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að samkvæmt heimildum hafi yfirvöld í Tadsíkistan skipulega handtekið einstaklinga sem grunaðir séu um að hafa tekið þátt í vopnuðum átökum erlendis, þ.m.t. í Sýrlandi. Kærandi telji að ljóst sé af heimildum að þeir einstaklingar sem hafi verið í haldi yfirvalda hafi ítrekað orðið fyrir pyndingum og annarri illri meðferð líkt og kærandi hafi sjálfur orðið fyrir. Kærandi telur að verði hann sendur til heimaríkis síns muni hann eiga raunverulega hættu á að vera fangelsaður fyrir brot sem hann hafi ekki framið auk þess að sæta pyndingum og annarri illri meðferð. Að framangreindu virtu telur kærandi að ótti hans við ofsóknir yfirvalda í heimaríki vegna aðildar að framangreindum þjóðfélagshópi sé ástæðuríkur. Til stuðnings framangreindu er í greinargerð jafnframt vísað til a-c liða 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga hvað varði nánari skilgreiningu á því hverjir geti verið valdir að ofsóknum skv. 37. gr. laganna. Samkvæmt a-lið ákvæðisins sé það ríkið sem sé valdur að ofsóknum og eigi það ákvæði við í máli kæranda þar sem það séu yfirvöld í Tadsíkistan sem kærandi óttist.

Til vara gerir kærandi kröfu um viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í tengslum við aðalkröfu hans sé raunhæf ástæða til að ætla að hann eigi á hættu að sæta pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærandi hafi greint frá því að hann óttist að verða settur í fangelsi vegna gruns yfirvalda um að hann hafi tekið þátt í vopnuðum átökum í Sýrlandi. Samkvæmt heimildum hafi einstaklingar sem hafi legið undir grun um slíkt athæfi verið handteknir af yfirvöldum og verið beittir pyndingum og annarri illri meðferð í haldi yfirvalda. Hafi kærandi greint frá því að hafa sjálfur orðið fyrir slíkri meðferð. Kærandi vísar til þess að samkvæmt heimildum séu nær allir þeir sem yfirvöld ákæra í sakamálum fundnir sekir af dómstólum. Þá sé ljóst að auk hættu á pyndingum í fangelsi í heimaríki kæranda séu almennar aðstæður í þeim harðneskjulegar og stundum lífshættulegar. Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu kæranda er gerð sú krafa til þrautavara að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir einnig kröfu sína um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga á því að þar sem eiginkonu hans og syni hafi verið veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis þá séu skilyrði til að veita honum jafnframt samskonar dvalarleyfi með vísan til meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar. Framangreindu til stuðnings vísar kærandi til úrskurða kærunefndar nr. 522/2017 og 523/2017 frá 22. september 2017. Jafnframt vísar kærandi til þess að ekki hafi verið litið svo á að yfirvofandi lögskilnaður komi í veg fyrir að maka sé veitt samskonar dvalarleyfi og maki og barn hafi verið veitt, n.t.t. við beitingu á 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi framangreindu til stuðnings til fordæmis í ákvörðun Útlendingastofnunar dags. 2. apríl 2019 í máli nr. 2018-01994.

Til þrautaþrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla með vísan til 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt til að sanna á sér deili. Kærandi hafi viðurkennt að hafa dvalist og starfað hér á landi á fölsuðum skilríkjum. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað auðkenni sitt með fullnægjandi hætti og því yrði leyst úr því á grundvelli trúverðugleikamats. Útlendingastofnun taldi að ekkert hefði komið fram sem gæfi tilefni til að draga þjóðerni kæranda í efa og lagði til grundvallar að hann væri ríkisborgari Tadsíkistan. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé ríkisborgari Tadsíkistan. Að öðru leyti er auðkenni hans óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Tadsíkistan m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Achieving Justice for Gross Human Rights Violations in Tajikistan – Baseline Study (International Commission of Jurists (ICJ), október 2017);
  • BTI 2020 Country Report Tajikistan (Bertelsmann Stiftung, 29. apríl 2020);
  • Cases decided by the UN Human Rights Committee concerning the allegation of Torture and other forms of Ill-treatments (articles 7 and 10) – a Compilation and Analysis of Views – Tajikistan (International Commission of Jurists, 20. desember 2019);
  • Civil Society Coalition against Torture and Impunity in Tajikistan – 2019 Annual Report (Civil Society Coalition against Torture and Impunity in Tajikistan, 27. apríl 2020);
  • Concluding observations on the third periodic report of Tajikistan [CCPR/C/TJK/CO/3] (UN Human Rights Committee, 22. ágúst 2019);
  • Country Reports on Human Rights Practices 2019 – Tajikistan (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Country Report on Terrorism 2016: Tajikistan (U.S. Department of State, 19. júlí 2017);
  • Country Report on Terrorism 2018: Tajikistan (U.S. Department of State, 1. nóvemer 2019);
  • Country Report on Terrorism 2019: Tajikistan (U.S. Department of State, 24. júní 2020);
  • Freedom in the World 2020 – Tajikistan (Freedom House, 4. mars 2020);
  • Freedom in the World 2019 – Tajikistan (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Health Systems in Transition: Tajikistan Health System Review (European Observatory on Health Systems and Policies, 2016);
  • Human Rights in Eastern Europe and Central Asia – Review of 2019 - Tajikistan (Amnesty International, 16. apríl 2020);
  • Nations in Transit 2020: Tajikistan Country Profile (Freedom House, 6. maí 2020).
  • Mänskiliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Tadzijkistan 2015-2016 (Utrikesdepartementet, 26. apríl 2017);
  • Tajikistan: Committee against Torture – Written information for the List of Issues (International Partnership for Human Rights (IPHR), júní 2017);
  • Tajikistan (Minority Rights Group International, https://minorityrights.org/country/tajikistan/: uppfært apríl 2018);
  • Tajikistan – Guaranteed Medical Services (International Labour Organization, 2018);
  • Tadsjikistan: Det islamske renessansepartiet i Tadsjikistan (IRPT) (Landinfo, 5. júlí 2017);
  • Tajikistan 2020 Crime & Safety Report (Overseas Security Advisory Council (OSAC), 3. mars 2020);
  • The World Factbook: Tajikistan (Central Intelligence Agency, 12. nóvember 2020) og
  • World Report 2019 – Tajikistan (Human Rights Watch, 14. janúar 2020).

Í ofangreindum gögnum kemur fram að Tadsíkistan er forsetalýðveldi í mið-Asíu sem hlaut sjálfstæði árið 1991 eftir fall Sovétríkjanna. Íbúar landsins eru rúmlega 8,8 milljónir, en yfir 90% þeirra aðhyllast íslamstrú. Ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 11. janúar 1995 og alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þann 4. janúar 1999.

Skömmu eftir að ríkið hlaut sjálfstæði braust út borgarastyrjöld í landinu sem stóð yfir til ársins 1997, en átökin hafi kostað tugi þúsunda manns lífið. Síðan 1992 hafi landið verið undir stjórn forseta landsins, Emomali Rahmom. Í ríkinu sé forsetalýðræði og sé forseti landsins í senn þjóðhöfðingi og æðsti handhafi framkvæmdavalds í landinu. Stjórnarskrá landsins geri ráð fyrir því að margir stjórnmálaflokkar séu starfræktir í landinu en ríkisstjórn landsins hafi í gegnum tíðina hins vegar hindrað fjölbreytileika stjórnmálaflokka og virka stjórnarandstöðu. Í maí 2016 hafi forseti landsins lýst sig sem „leiðtoga þjóðarinnar“. Þá hafi þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingar á stjórnarskrá ríkisins sem hafi falið í sér m.a. að tímamörk á kjörtímabili forsetans hafi verið afnumin og að hann njóti ævilangrar friðhelgi styrkt stöðu hans frekar. Í forsetakosningum í október 2020 hlaut Emomali Rahmom endurkjör.

Af ofangreindum gögnum má ráða að spilling sé rótgróið vandamál í Tadsíkistan, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá júní 2020 kemur fram að meðal helstu mannréttindabrota í landinu séu pyndingar og misþyrmingar öryggissveita á einstaklingum í varðhaldi, geðþóttahandtökur og varðhald, slæmur aðbúnaður í fangelsum, takmarkanir á stjórnmálaþátttöku og fangelsun á pólitískum aðgerðasinnum. Heimildir beri með sér að mörg dæmi séu þess að yfirvöld beri rangar sakir á einstaklinga eða blási upp smávægileg atvik í því skyni að framkvæma handtökur vegna stjórnmálaskoðana. Er greint frá því að fjölskyldumeðlimum aðgerðarsinna sem séu í útlegð hafi verið refsað fyrir meint brot framin af ættingjum sínum í þeim tilgangi að fá aðgerðasinnana til að láta af starfsemi sinni erlendis. Fram kemur að einstaklingar í varðhaldi sem séu grunaðir um brot sem varði þjóðaröryggi eða tengsl við öfgahópa hafi verið haldið í lengri tíma án þess að vera formlega ákærðir. Í skýrslu Freedom House um aðstæður í Tadsíkistan, Nations in Transit 2020: Tajikistan Country Profile, kemur fram að stjórnvöld hafi strangt eftirlit með trúarlegum athöfnum og takmarki trúarlegt tjáningarfrelsi í skjóli baráttunnar gegn íslömskum öfgahópum.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, Country Reports on Terrorism 2017 – Tajikistan, kemur fram að árið 1999 hafi lög verið sett um baráttu við hryðjuverk og að ríkisstjórn landsins hafi notað þá löggjöf til að bæla niður stjórnarandstöðu. Í skýrslunni er rakið að ríkisstjórn landsins haldi lista yfir þá borgara sem séu skilgreindir sem hryðjuverkamenn. Þá kom fram í skýrslunni að yfirvöld í Tadsíkistan hafi handtekið fjölda manns í tengslum við hryðjuverk árið 2016. Hafi rannsókn mála gegn 166 tadsískum mönnum verið hafin á grundvelli þess að þeir hafi verið grunaðir um að hafa barist með ISIS hryðjuverkasamtökunum. Hafi yfirvöld í Tadsíkistan talið að tadsískir menn sem gengið hafi til liðs við ISIS hafi flestallir orðið fyrir róttækum áhrifum erlendis, aðallega í Rússlandi.

Eftir þingkosningar í landinu árið 2015, þar sem flokkur forsetans hafi hlotið afgerandi meirihluti þingsæta, hafi stjórnarandstöðuflokkurinn IPRT (The Islamic Renaissance Party of Tajikistan), verið bannaður og skilgreindur sem hryðjuverkasamtök af hæstarétti landsins.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 kemur fram að löggæsla landsins sé í höndum innanríkisráðuneytisins, Lyfjaeftirlitsstofnunar, ríkisstofnunar um fjármálaeftirlit og baráttu gegn spillingu (e. Anticorruption Agency), ríkisnefndar um þjóðaröryggi (GKNB), skattanefndar ríkisins og tollgæslunnar. Málefni sem lúta að stjórnun lögreglu og eftirliti með allsherjarreglu séu aðallega á höndum innanríkisráðuneytisins. Í ofangreindri skýrslu Freedom House kemur fram að dómskerfið í landinu sé undir miklum áhrifum frá ráðandi stjórnvöldum. Þá fari réttarhöld yfir pólitískum andstæðingum að jafnaði fram fyrir luktum dyrum. Fram kemur að „öfgafullar skoðanir“ séu skilgreindar lauslega í lögum um það efni sem og hegningarlögum, sem opni á að hver sem sé álitinn andstæðingur stjórnvalda geti talist hafa slíkar skoðanir. Kemur einnig fram í skýrslunni að spilling sé mikil á öllum sviðum samfélagsins. Í mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 kemur fram að samkvæmt lögum geti lögregla haldið einstaklingi í allt að 12 tíma áður en taka þurfi ákvörðun um hvort opna skuli sakamál gegn honum. Sé ekki gefin út ákæra að 12 tímum liðnum verði að láta einstaklinginn lausan úr haldi. Sé mál hins vegar höfðað gegn einstaklingi þá hafi lögreglan heimild til að halda honum í varðhaldi í allt að 72 tíma áður en þeim beri að fara með sakborning fyrir dómara. Þá leggi stjórnarskráin bann við pyntingum en þrátt fyrir að bætt hafi verið við hegningarlög landsins árið 2012 sérstöku lagaákvæði sem skilgreini pyntingar í samræmi við skilgreiningar í alþjóðalögum þá hafi áfram borist tilkynningar um líkamlegt ofbeldi, pyntingar og aðrar þvingunaraðferðir til að ná fram játningum við yfirheyrslur. Samkvæmt skýrslunni hafi innlend mannúðarsamtök sem nefnist Bandalag gegn pyntingum (e. Coalition against Torture) skráð 20 ný mál einstaklinga sem kváðust hafa orðið fyrir alvarlegu líkamlegu ofbeldi af hálfu stjórnvalda.

Samkvæmt 38. gr. stjórnarskrár Tadsíkistan eiga allir rétt á heilbrigðisþjónustu. Í samantekt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (e. International Labour Organization) um tryggða heilbrigðisþjónustu í Tadsíkistan frá 2018 kemur fram að greiðsla sjúklinga úr eigin vasa sé enn mjög há eða um 62% af heildarútgjöldum til heilbrigðiskerfisins. Varpi sú staðreynd ljósi á það hve mikil þörf sé á að byggja upp heilbrigðiskerfi í landinu sem veiti öllum, án tillits til fjárhagslegrar stöðu, aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Árið 2008 hafi lög nr. 408 um skyldubundnar sjúkratryggingar verið samþykkt en innleiðingu þeirra hafi hins vegar verið frestað margsinnis, hins vegar sé á stefnuskránni að innleiða þau árið 2021. Um leið og þau hafi tekið gildi þá muni þau tryggja öllum sjúkratryggðum einstaklingum grunnheilbrigðisþjónustu, sérhæfðari heilbrigðisþjónustu og lyf á viðráðanlegu verði.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki þar sem yfirvöld hafi hann grunaðan um að hafa tekið þátt í vopnuðum átökum fyrir ISIS í Sýrlandi. Kærandi kveðst hafa verið handtekinn af lögreglu og við yfirheyrslu verið beittur ofbeldi og pyntaður og hafi hann þurft að leita aðhlynningar á spítala vegna áverkanna. Kærandi telur að þar sem hann sé grunaður um að hafa tekið þátt í vopnuðum átökum í Sýrlandi eigi hann hættu á að vera fangelsaður við heimkomu. Kærandi kveðst óttast yfirvöld í heimaríki og einstakling að nafni [...] sem hafi eitt sinn verið vinur hans og sé hættulegur glæpamaður með tengsl við glæpasamtök.Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að það hafi verið mat stofnunarinnar að framburður kæranda um ástæður flótta hans frá heimaríki hafi verið, heildstætt séð, ótrúverðugur og óskýr. Þá hafi kærandi dvalið hér á landi og starfað ólöglega á grundvelli falsaðra skilríkja frá árinu 2016 og ekki talið ástæðu til þess að leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd fyrr en lögregla hafi haft afskipti af honum og honum hafði borist tilkynning um hugsanlega brottvísun frá landinu. Kærunefnd taldi gögn málsins og framburður kæranda í viðtölum hans hjá Útlendingastofnun gefa ástæðu til að bjóða kæranda að koma til viðtals hjá nefndinni. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd þann 24. september 2020. Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, viðtali kæranda hjá kærunefnd, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram gögn sem hann kvað tengjast málarekstri yfirvalda í Tadsíkistan gegn sér. Var vísað til þess að á meðal gagnanna væri kvaðning um að mæta fyrir dóm; ákvörðun um að hefja sakamálarannsókn; handtökuskipun og skýrsla lögreglu þess efnis að fylgst hafi verið með kæranda; hann handtekinn; að hann hafi neitað öllum sökum; hann hafi beinbrotnað og verið fluttur á spítala. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvað kærandi að ekki væru til nein skjöl um handtöku hans og ákvörðun yfirvalda í kjölfarið en síðan í ágúst, rúmum tveim mánuðum eftir ákvörðun Útlendingastofnunar, bárust fyrrgreind skjöl til kærunefndar. Aðspurður um ástæðu þessa kvaðst kærandi hafa beðið föður sinn að óska eftir þessum gögnum hjá yfirvöldum en hann hafi ekki vitað af tilvist þeirra fyrr en þá. Þann 8. september 2020 óskaði kærunefnd eftir því að kærandi legði fram frumrit af gögnunum. Degi síðar barst tölvupóstur frá talsmanni kæranda þess efnis að kærandi vildi leggja frumrit gagnanna fram en þau væru hins vegar ennþá í heimaríki hans og myndi hann gera þær ráðstafanir að fá þau strax send með DHL. Þann 18. september s.á. barst tölvupóstur frá talsmanni kæranda með þær upplýsingar að gögnin væru á leiðinni og lagði kærandi fram ljósmynd af umslagi dagsettu 11. september 2020 með miða EMS Tajikpost. Í sama tölvupósti greindi talsmaður frá því að samkvæmt upplýsingum frá kæranda væru öll gögnin útgefin af innanríkisráðuneyti Tadsíkistan. Þann 5. október 2020 veitti kærunefnd kæranda frest til 12. október 2020 til að leggja fram umbeðin gögn. Þann 12. október 2020 bárust kærunefnd þau svör frá talsmanni kæranda að umslag sem hafi átt að innihalda umrædd frumrit hafi aðeins innihaldið ljósrit af frumritunum en gögnin væru hins vegar í pósti og var lögð fram ljósmynd af umslagi dagsettu 10. október 2020 því til staðfestingar. Þann 6. nóvember 2020 lagði kærandi fram gögn til kærunefndar sem hann kvað vera frumrit af skjölunum sem hann lagði fram 18. ágúst 2020. Við skoðun á skjölunum má sjá að ekki er um frumrit skjalanna að ræða, þau bera enga öryggisþætti, eru einföld að allri gerð og af lágum gæðum, auk þess sem stimplar á þeim eru allir prentaðir en ekki blautstimplar. Það er mat kærunefndar að gildi skjalanna sé ótraust og hafi þau því ekki sönnunargildi í málinu. Þá er það mat kærunefndar að framganga kæranda hvað varðar framlagningu fyrrnefndra gagna og sú töf sem hann hefur vísvitandi valdið á máli sínu með henni dragi almennt úr trúverðugleika hans.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 15. apríl 2020 greindi kærandi frá því að hann hafi verið grunaður um að taka þátt í vopnuðum átökum í Sýrlandi vegna þess að menn sem hann hafi búið með hafi á árunum 2013 til 2015 farið til Sýrlands í þeim erindagjörðum. Kærandi hafi verið leigubílstjóri og hafi keyrt mennina mörgum sinnum til að taka þátt í stríðsátökum. Kærandi kvaðst hins vegar aldrei hafa tekið þátt í átökum erlendis. Aðspurður í viðtali hjá kærunefnd hvert hann hafi keyrt fólk til að taka þátt í átökum erlendis og hverjir það hafi verið greindi kærandi frá því að hann hafi keyrt vini sína og aðra einstaklinga frá Moskvu að landamærum Úkraínu. Af framburði kæranda mátti ráða að umræddar keyrslur hafi eingöngu átt sér stað innan Rússlands. Fram kom í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd að kærandi hafi frá árinu 2011 meira eða minna verið búsettur í Moskvu í Rússlandi en hafi komið til heimaríkis einu sinni á ári eða sjaldnar og þá dvalið í um tvær vikur til mánuð að hámarki. Kvaðst kærandi hafa verið leigubílstjóri í Moskvu en hann hafi einnig keyrt bifreiðar til Tadsíkistan fyrir vin sinn að nafni [...]. Kærandi kvaðst hafa búið með vini sínum að nafni [...] í Moskvu. [...] hafi tekið þátt í stríðsátökum í Sýrlandi og í byrjun árs 2016 þegar hann hafi snúið frá Sýrlandi til Dushanbe, höfuðborgar Tadsíkistan, hafi hann verið handtekinn af tadsísku lögreglunni og yfirheyrður. Kærandi kvaðst hafa þær upplýsingar að við yfirheyrslu á [...] hafi nafn kæranda borið á góma sem hafi leitt til þess að kærandi hafi verið handtekinn af lögreglu og yfirheyrður. Í yfirheyrslunni hafi hann verið ásakaður um að hafa tekið þátt í stríðsátökum í Sýrlandi og með ofbeldi og pyndingum hafi verið reynt að knýja hann til að játa þá ásökun en kærandi hafi hins vegar neitað því staðfastlega. Kærandi kvaðst hafa nef- og axlarbrotnað vegna pyndinganna og hafi lögreglan flutt hann á spítala til aðhlynningar.

Þann 17. september 2020 sendi kærunefnd fyrirspurn á talsmann kæranda og óskaði eftir upplýsingum um það hvort kærandi gæti lagt fram gögn um heilbrigðisþjónustu sem hann kvaðst hafa nýtt sér hér á landi vegna áverka þeirra sem hann kvað að rekja mætti til meðhöndlunar lögreglu í heimaríki á honum. Þann 12. október 2020 bárust þau svör frá talsmanni kæranda að honum hafi ekki tekist að fá gögn frá þeim sérfræðingi sem hafi framkvæmt aðgerð á öxl kæranda. Jafnframt greindi talsmaður kæranda frá því að kæranda hafi ekki tekist að fá læknisfræðileg gögn frá heimaríki. Hefur kærandi því ekki lagt fram gögn sem rennt geta stoðum undir þá staðhæfingu kæranda að hann hafi orðið fyrir alvarlegum áverkum sem rekja megi til ofbeldis eða pyndinga lögreglu í heimaríki. Þá hefur kærandi ekki lagt fram haldbær gögn sem styðja við frásögn hans að öðru leyti.

Þrátt fyrir að frásögn kæranda í viðtali hjá kærunefnd hafi verið að mestu leyti í samræmi við framburð hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun þá er að finna ákveðið innra ósamræmi í frásögninni m.a. á milli viðtala kæranda hjá Útlendingastofnun. Þá var frásögn hans hjá Útlendingastofnun óskýr um ýmislegt sem þó var að einhverju leyti bætt úr í viðtali hjá kærunefnd. Það misræmi sem einkum um ræðir er hverjir líkamlegir áverkar kæranda hafi verið eftir það ofbeldi sem hann kvað lögreglu hafa beitt sig. Talaði kærandi ýmist um það að hann hafi axlarbrotnað eða að öxl hans hafi farið úr lið, þá kvaðst hann í einu viðtali hafa nefbrotnað og í öðru hafa fótbrotnað. Kærandi var afar óskýr með það með hverjum hann hafi búið og hvar hann hafi búið, þ.e. í hvaða landi, í viðtölum hjá Útlendingastofnun en í viðtali hjá kærunefnd kvaðst kærandi hafa yfirgefið heimaríki sitt árið 1998 og hafi í raun ekki búið þar frá þeim tíma. Hann hafi fyrst flutt til Tyrklands en eftir að hafa sótt um vernd í Evrópu árið 2010 hafi hann búið í Moskvu. Kærandi var hins vegar, þrátt fyrir ítrekaðar spurningar þar um, afar óskýr um það með hverjum hann hafi búið og hvort hann hafi átt eða leigt húsnæði í Moskvu.

Í ljósi þess að kærandi kvaðst hafa sótt um alþjóðlega vernd í Noregi árið 2010 óskaði kærunefnd eftir gögnum málsins frá norskum stjórnvöldum. Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi spurður um ástæðu þess að hann hafi sótt um vernd í Noregi á þessum tíma og kvað kærandi að hann hafi verið þreyttur á aðstæðum í Tadsíkistan. Spurður nánar um hvað það hafi verið sérstaklega sem hafi verið erfitt kvað kærandi það bara hafa verið almennar aðstæður í Tadsíkistan. Í gögnunum frá Noregi kemur hins vegar fram að kærandi hafi sótt um vernd þar í landi þar sem hann hafi verið bílstjóri fyrir ættingja sinn sem hafi verið viðloðandi ýmsa ólöglega starfsemi, m.a. ólögleg demanta viðskipti og lögregla hafi handtekið kæranda af þeim sökum og yfirheyrt hann. Þá kvaðst kærandi jafnframt í viðtali hjá norskum stjórnvöldum hafa starfað sem lögreglumaður í heimaríki og kom það ítrekað fram í viðtalinu m.a. í tengslum við frásögn kæranda af flótta hans frá lögreglustöð sem hann hafi að sögn þekkt út og inn vegna fyrri starfa sinna. Í viðtölum kæranda hjá íslenskum stjórnvöldum kvaðst kærandi aðeins hafa starfað sem flutningabílstjóri, leigubílstjóri og við byggingarvinnu í heimaríki og þeim löndum sem hann hafi búið í. Kæranda var gefið færi á að koma með skýringar á þessu misræmi á frásögnum sínum hjá íslenskum og norskum stjórnvöldum. Í svari kæranda kvað kærandi að hann hefði ekki verið spurður nánar út í ástæðu umsóknar sinnar í viðtali hjá kærunefnd og þá kvað kærandi að hann hefði aldrei sagt að hann hefði starfað sem lögreglumaður í heimaríki í viðtali sínu hjá norskum stjórnvöldum. Eru skýringar kæranda á þessu misræmi ekki trúverðugar að mati kærunefndar.

Kærandi hefur einnig borið fyrir sig að hann óttist mann að nafni [...] sem viðriðinn sé við glæpastarfsemi og hafi tengsl við glæpasamtök. Eins og áður sagði kvað kærandi [...] hafa verið vin sinn og hafi kærandi m.a. keyrt bifreiðar fyrir hann frá Moskvu til Tadsíkistan, óafvitandi að athafnir hans fyrir [...] væru partur af stórtæku tryggingarsvindli sem hafi lotið að því að flytja bifreiðar frá Moskvu til Taadsíkistan og tilkynna síðar í Rússlandi að þeim hafi verið stolið. Þá kvað kærandi [...] hafa tekið þátt í því að senda tadsíska menn til Sýrlands til að taka þátt í vopnuðum átökum. Í greinargerð kæranda til kærunefndar kemur fram að hann hafi greint [...] frá því að lögreglan hafi við yfirheyrslu spurt um hann. Hafi [...] þá sagt við kæranda að hann yrði að flýja því hann vissi of mikið og gæti átt á hættu að verða myrtur. Í viðtali hjá kærunefnd kvaðst kærandi óttast [...] og menn á hans vegum. Kærandi hefur engin gögn lagt fram um tilvist þessa manns, stöðu hans og tengsl við glæpastarfsemi og/eða glæpasamtök þrátt fyrir að hafa ítrekað í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd kvaðst búa yfir ítarlegum upplýsingum um manninn og starfsemi hans. Þá hefur kærandi engin gögn lagt fram um hótanir af hálfu þessa manns eða manna á hans vegum eða með öðru móti rennt stoðum undir þá staðhæfingu að vitneskja hans um manninn og hans mál setji kæranda í hættu í heimaríki. Þá kvað kærandi í viðtali hjá kærunefnd að framangreindur maður hafi yfirgefið Tadsíkistan og farið til Dubai þar sem hann sé enn búsettur. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir framangreinds manns eða aðila á hans vegum.

Er það mat kærunefndar að óskýrleiki í frásögn kæranda, misræmi á milli viðtala kæranda hjá íslenskum og norskum stjórnvöldum og skortur á trúverðugum gögnum henni til stuðnings ásamt því að hann hefur áður veitt íslenskum stjórnvöldum rangar upplýsingar leiði til þess að frásögn kæranda um ástæður flótta hans frá heimaríki sé ótrúverðug að öllu leyti og verður hún því ekki lögð til grundvallar í málinu.

Að framangreindu virtu telur kærunefnd gögn málsins að öðru leyti ekki benda til þess að kærandi hafi átt eða eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Eins og fram hefur komið hefur kærandi greint frá því að hafa glímt við axlarmeiðsli og hafi farið í aðgerð vegna þeirra meiðsla hér á landi. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að kærandi sæki meðferð hér á landi sem ekki sé læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa. Þá verður af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér ekki annað ráðið en að kærandi hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu í heimaríki sínu.

Þá byggir kærandi kröfu sína um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, þar sem eiginkonu hans og syni hafi verið veitt dvalarleyfi hér á landi. Hvað framangreinda kröfu kæranda varðar þá vekur kærunefnd athygli á því að samkvæmt gögnum málsins voru mál fjölskyldunnar aðskilin hjá Útlendingastofnun þar sem hagsmunir þeirra hafi ekki farið saman. Það er mat kærunefndar með vísan til niðurstöðu Útlendingastofnunar í máli eiginkonu og barns kæranda að meginreglan um einingu fjölskyldunnar leiði ekki til þess að rétt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skv. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga

Kærandi gerir þá kröfu til þrautaþrautavara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að í ljósi þess að hann á son hér á landi sem veitt hafi verið dvalarleyfi þá hafi kærandi sérstök tengsl við landið. Þá vísar kærandi til þess að hann hafi framfærsluskyldu við son sinn og þ.a.l. eigi umönnunarsjónarmið við. Að því er þessa kröfu varðar bendir kærunefnd á að úrskurður þessi lýtur einungis að því hvort kærandi eigi rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 37. gr. laga um útlendinga, eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. og 6. mgr. 37. gr. sömu laga, en ekki rétti kæranda til dvalarleyfis á grundvelli annarra ákvæða laga um útlendinga.

Kærunefnd leiðbeinir kæranda um að telji hann sig uppfylla skilyrði ákvæðisins beri að beina slíkri umsókn til Útlendingastofnunar. Með þessum leiðbeiningum er kærunefnd þó ekki að taka afstöðu til þess hvernig slík umsókn verði afgreidd.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands árið 2016 og sótti um alþjóðlega vernd 4. febrúar 2020. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Kærandi hefur dvalið hér á landi í rúm fjögur ár og á þeim tíma eignast eitt barn með eiginkonu sinni. Það mál sem hér er til afgreiðslu hófst að frumkvæði kæranda þann 4. febrúar 2020 þegar mál vegna brottvísunar kæranda frá landinu hafði verið hafið hjá Útlendingastofnun, tæplega fjórum árum eftir að kærandi kom til landsins. Með vísan til 5. mgr. 106. gr. laga um útlendinga verður frávísun ekki beitt í þessu máli. Verður því sá þáttur ákvörðunar Útlendingastofnunar felldur úr gildi.

Samkvæmt 1. og 2. málsl. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga skal við synjun umsóknar um dvalarleyfi leggja fyrir útlending að hverfa af landi brott og skal sá frestur að jafnaði vera á bilinu 7-30 dagar. Kæranda er leiðbeint um að í 5. málsl. 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur skuli tilkynna Útlendingastofnun um fyrirhugaða brottför sína og leggja fram sönnun þess að hann hafi yfirgefið landið. Þar segir jafnframt að ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir hann er lagt eða líkur eru á að hann muni ekki fara sjálfviljugur má lögregla færa hann úr landi. Athygli kæranda er jafnframt vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Að mati kærunefndar, með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi COVID-19 faraldursins er athygli kæranda einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvörðun Útlendingastofnunar um frávísun kæranda er felld úr gildi.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest hvað varðar umsókn um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvörðun um frávísun kæranda er felld úr gildi. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the application for international protection and residence permit on humanitarian grounds is affirmed. The part of the Directorate’s decision pertaining to refusal of entry is vacated. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum