Hoppa yfir valmynd
17. maí 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 11. - 17. maí 2002

Fréttapistill vikunnar
11. - 17. maí 2002



Stefnt að opnun nýrrar heilsugæslustöðvar í Kópavogi í lok þessa árs

Verkefnisstjórn sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði til að undirbúa útboð og rekstur nýrrar heilsugæslustöðvar í Kópavogi stefnir að úboði um miðjan júní. Í júní verður einnig haldinn opinn kynningarfundur um úboðið. Gert er ráð fyrir að tilboð verði opnuð í lok júlí og ákvörðun um tilboð verði tekin í lok ágúst. Stefnt er að opnun stöðvarinnar á tímabilinu október - desember 2002. Verkefnisstjóri er Guðmundur Hannesson hjá Ríkiskaupum.
Verkefnisstjórnin...

Viljayfirlýsing heilbrigðisráðherra og borgarstjóra um fjölgun hjúkrunarrýma fyrir aldraða í Reykjavík
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri, undirrituðu í vikunni sameiginlega viljayfirlýsingu um endurbætur og uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma í Reykjavík á árunum 2003 - 2007. Gert er ráð fyrir að 326 ný hjúkrunarrými verði tekin í notkun á tímabilinu en 42 eldri rýmum verði lokað eða breytt í sérbýli. Áætlað er að reist verði 100 rýma hjúkrunarheimili í Sogamýri og að það verði tekið í notkun árið 2005, en stefnt er að því að bjóða út byggingu þess fyrir lok þessa árs. Þá verður hjúkrunarrýmum fjölgað með stækkun Eirar, Hrafnistu og Droplaugarstaða. Loks er áætlað að hefja undirbúning að byggingu nýs 100 rýma hjúkrunarheimilis í Reykjavík á tímabilinu 2003 - 2005 sem reiknað er með að tekið verði í notkun árið 2007. Ákvörðun um staðsetningu þess á að liggja fyrir á næsta ári. Í viljayfirlýsingunni kemur enn fremur fram að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið muni efla Miðstöð heimahjúkrunar aldraðra og verður stöðugildum sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga fjölgað. Áætlaður stofnkostnaður við uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma í Reykjavík, samkvæmt viljayfirlýsingunni, er á fimmta milljarð króna. Framkvæmdasjóður aldraðra greiðir 40% af kostnaðinum. Gert er ráð fyrir að ríkið greiði um 70% stofnkostnaðar vegna nýbygginga en kostnaður borgarinnar er áætlaður um 1,4 milljarðar króna. Framkvæmd viljayfirlýsingarinnar er háð samþykki borgarráðs og því að nauðsynlegt fé fáist á fjárlögum á tímabilinu.

Ný speglanastofa á meltingarsjúkdómadeild St. Jósefsspítala í Hafnarfirði
Ný speglanastofa, ásamt nýjum tækjabúnaði var tekin í notkun á meltingarsjúkdómadeild St. Jósefsspítala í Hafnarfirði í vikunni. Tækjabúnaðurinn er afar fullkominn og voru það félagasamtök og fyrirtæki sem sameinuðust um að gefa þau sjúkrahúsinu. Við þetta tvöfaldast rannsóknargeta meltingarsjúkdómadeildarinnar. Tilgangur með endurbótum og bættum tækjakosti á meltingarsjúkdómadeildinni er m.a. að gera betur kleift að fylgja eftir nýsamþykktri tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til forvarna á sviði krabbameins í meltingarfærum.

Ný stefna og ný markmið WHO sem byggist á sambandi efnahagslegrar velgengni og góðrar almennrar heilbrigðisþjónustu
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ávarpaði í vikunni 55. þing Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem haldið er í Genf. Ráðherra lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi þess að allar þjóðir ynnu sameiginlega að því markmiði að bæta heilsufar allra þjóða heims og draga úr fátækt. Sagði hann það skyldu kynslóðanna við börn sín og barnabörn að nýta til fullnustu nútímaþekkingu og vísindi og það ríkidæmi sem auðugustu ríki heims réðu yfir til að bæta heilsufar fátækari þjóða. Ráðherra fagnaði því að Gro Harlem Brundtland skyldi með útgáfu skýrslunnar Macroeconomics and Health: Investing in Health for Economic Development setja Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni nýja stefnu og ný markmið og sagði að þetta frumkvæði ætti án efa eftir að hafa mikil áhrif á vettvangi opinberrar, alþjóðlegrar umræðu. Átján sérfræðingar í efnahags- og heilbrigðismálum skrifuðu skýrsluna undir stjórn Jeffrey D. Sachs, prófessors í alþjóðaviðskiptum við Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Skýrsluna má nálgast á heimasíðu WHO og þar er einnig að finna fréttir af 55. þingi WHO.
http://www.who.int...

Úthlutanir úr Vísindasjóði Landspítala - háskólasjúkrahúss
Úthlutað var í fyrsta skipti úr Vísindasjóði Landspítala - háskólasjúkrahúss í vikunni. Úthlutunin fór fram í Salnum í Kópavogi þar sem haldnir voru s.k. Vordagar LSH með viðamikilli dagskrá undir heitinu Vísindi á vordögum. Meðal annars voru þar kynnt nokkur athyglisverð rannsóknarverkefni sem starfsmenn sjúkrhússins vinna að. Þá var einnig kynnt ný vísindastefna Landspítala - háskólasjúkrahúss og útlutað úr Vísindasjóði sjúkrahússins. Til úthlutunar voru 32 milljónir króna. Af 77 umsækjendum fengu 68 styrk. Upplýsingar um hverjir hlutu styrki er að finna á heimasíðu LSH.
MEIRA...

Tryggingastofnun ríkisins hvetur almenning til árvekni við greiðslu reikninga
Tryggingastofnun hefur undanfarin ár eflt innri endurskoðunardeild sína og eftirlit í samráði við Ríkisendurskoðun og fleiri aðila og hefur nýverið fengið ótvíræðar lagaheimildir til eftirlits með reikningsfærslum þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem stofnunin skiptir við. Á heimasíðu TR er vakin athygli á mikilvægi virks og stöðugs innra eftirlits, til að koma í veg fyrir tryggingasvik og villur. Þá er því beint til almennings að taka virkan þátt í eftirliti gegn hvers konar tryggingasvikum og eru viðskiptavinir Tryggingastofnunar hvattir til að senda stofnuninni ábendingar eða fyrirspurnir þyki þeim reikningar heilbrigðisstarfsmanna athugaverðir eða afgreiðsla þeirra ámælisverð. Tryggingastofnun hefur nýlega kært tannlækni fyrir meint fjársvik og óskað eftir opinberri rannsókn efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra á meintum fjársvikum hans. Mál fleiri heilbrigðisstarfsmanna og sjúklinga eru í skoðun hjá stofnuninni að því er fram kemur á heimasíðu TR.
MEIRA...

Sjúkrahúslæknar samþykkja kjarasamning
Sjúkrahúslæknar hafa samþykkt kjarasamning sem Læknafélag Íslands gerði við ríkissjóð og St. Franciskuspítala nýlega. Af 633 á kjörskrá greiddu 383 atkvæði, þ.e. 57,5%. Já sögðu 234 eða 61,1% en nei 144 eða 37,6%. Fimm seðlar voru auðir eða ógildir.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
17. maí 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum