Hoppa yfir valmynd
31. maí 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 25. - 31. maí 2002

Fréttapistill vikunnar
25. - 31. maí 2002




Landlæknisembættið semur við Svía um rannsóknir vegna lífshættulegra smitsjúkdóma

Landlæknisembættið og Smitsjúkdómastofnunin í Solna í Svíþjóð hafa gert samkomulag sem felur í sér að Smitsjúkdómastofnunin tekur að sér rannsóknir komi upp smit af lífshættulegu tagi hér á landi. Íslensk heilbrigðisyfirvöld geta leitað til sænsku stofnunarinnar allan sólarhringinn, alla daga ársins, gerist þess þörf. Samningurinn er Íslendingum að kostnaðarlausu. Hann tekur gildi laugardaginn 1. júní og gildir til 31. desember 2003.

Styrkir vegna tannréttinga barna og unglinga hækka um 50.000 kr.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur samþykkt tillögu tryggingaráðs um að hækka styrk vegna tannréttinga barna og unglinga úr 100.000 í 150.000 kr. Styrkurinn greiðist í þremur hlutum á tveimur árum á meðan á tannréttingameðferð stendur. Upplýsingar og reglur um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannréttingar er að finna á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins. Nýjar reglur, T-05-2002, um styrkveitingar vegna tannréttinga barna tóku gildi 1. maí 2002.
REGLUR UM TANNRÉTTINGAR...

Markvissari stefna í slysavörnum, samhæfðari aðgerðir og skýr markmið um árangur
Slysavarnaráð kom saman í hundraðasta sinn í vikunni. Ráðið var sett á fót af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra árið 1991. Slysavarnaráð hefur frá upphafi verið rekið í tengslum við Landlæknisembættið og er landlæknir formaður þess. Í tilefni tímamótanna samþykkti Slysavarnaráð ályktun á 100 fundi sínum 28. maí sl. Þar kemur fram að árlega verða 50-60 þúsund slys hér á landi, sem svarar því að u.þ.b. fjórðungur landsmanna slasist. ,,Slys valda einstaklingum og þjóðfélaginu í heild miklu tjóni, líkams- og sálarskaða, að ógleymdu vinnutapi, bæði hjá þolendum og aðstandendum. Slys eru ennfremur algengasta dánarorsök ungs fólks á aldrinum 5-35 ára. Til mikils er því að vinna að slysum verði fækkað." Í tilkynningu Slysavarnaráðs segir enn fremur að í ljósi þess að uppbygging Slysaskrár Íslands sé vel á veg komin hyggist Slysavarnaráð beita sér fyrir því að... ,,mörkuð verði markvissari stefna í slysavörnum, aðgerðir verði betur samhæfðar og sett verði skýr markmið um árangur. Stjórnvöld þurfa að leggja mun meiri áherslu á forvarnir gegn slysum og veita til þeirra auknum fjármunum. Til þess væntir Slysavarnaráð öflugrar liðveislu Alþingis."
MEIRA...

Alþjóðlegur reyklaus dagur 31. maí.
Alþjóðlegur reyklaus dagur er í dag, 31. maí. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, beinir sjónum að þessu sinni að tengslum tóbaksframleiðenda og íþróttafélaga og vekur athygli á því að tóbak og íþróttir geta aldrei farið saman. Árlega veita tóbaksframleiðendur hundruðum milljóna dollara til að styrkja íþróttafélög og auglýsa vörur sínar á íþróttaleikum. Það verður þó æ algengara að aðstandendur íþróttaleika skeri á tengsl sín við tóbaksframleiðendur og reiði sig ekki á framlög þeirra. Til dæmis verða engar tóbaksauglýsingar á leikjum heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu sem hefst í dag. Eins má geta þess að Ólympíuleikarnir eru algjörlega óháðir styrkjum eða auglýsingum tóbaksframleiðenda. Fjöldi íþróttafélaga, íþróttaliða, samtaka íþróttamanna og einstakir íþróttamenn munu í dag tilkynna ákvörðun um að fara að þessu fordæmi. Í tilefni reyklausa dagsins gefur Tóbaksvarnarnefnd út 32 síðna aukablað með Morgunblaðinu á morgun. Þar er fjallað um efni sem tengist tóbaksvörnum og meðal annars niðurstöður skoðanakannana Gallup fyrir Tóbaksvarnarnefnd. Fram kemur að sala á tóbaki minnkar stöðugt. Þá verður einnig kynnt svört skýrsla um veitingastaði í Reykjavík þar sem reykingar eru leyfðar og kannað hvort þeir framfylgi lögum um tóbaksvarnir sem tóku gildi 1. ágúst í fyrra. Aðeins einn staður af þeim 39 sem voru heimsóttir framfylgir ákvæði laganna um að tryggja rétt þeirra sem ekki reykja til að vera í reyklausu umhverfi.
Nánar um reyklausa daginn á heimasíðu WHO...

Gæðaverkefni styrkt
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, styrkir í ár þrettán gæðaverkefni í heilbrigðisþjónustunni fyrir tæplega 2,7 milljónir króna. Ráðherra afhenti styrkina við athöfn sem haldin var í Ráðherrabústaðnum í vikunni. Í gæðaáætlun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, sem samþykkt var árið 1999, er kveðið á um að ráðuneytið auglýsi styrki til gæðaverkefna einu sinni á ári. Styrkirnir eru ætlaðir til að örva frumkvæði starfsmanna á þessu sviði heilbrigðisþjónustunnar.
MEIRA...

Bólusett við heilahimnubólgu
Ákveðið hefur verið að hefja bólusetningu á börnum frá þriggja mánaða til átján ára aldurs við meningókokkasjúkdóms af gerð C sem veldur lífshættulegri heilahimnubólgu og blóðsýkingu. Tíðni sjúkdómsins hefur aukist lítillega undanfarin ár og greinast að jafnaði um tíu tilfelli á ári. Telst sjúkdómurinn nú landlægur hér á landi. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fól sóttvarnalækni að undirbúa bólusetningu gegn sjúkdómnum og er undirbúningurinn vel á veg kominn. Bólusetningar hefjast síðar á þessu ári en reiknað er með að það taki minnst tvö ár að bólusetja öll börn að átján ára aldri. Stutt er síðan tókst að framleiða bóluefni gegn meningókokkum C sem veitir varanlega vörn. Efnið hefur þegar verið reynt á Bretlandi og Írlandi með góðum árangri.

Samkomulag í kjaradeilu LSH og læknanemar
Sættir hafa náðst í kjaradeilu Landspítala - háskólasjúkrahúss og læknanema og eru þeir læknanemar sem ráðnir höfðu verið til sjúkrahússins komnir til vinnu. Deilan var leyst í samvinnu við læknadeild. Lausnin felst í því að sjúkrahúsið mun efla handleiðslu og formlega kennslu læknanema í sumarstarfi þannig að læknadeild geti viðurkennt þennan tíma sem hluta af kennslutíma þeirra og þannig stytt heildarnámstímann. Læknadeild hefur stefnt að þessu fyrirkomulagi en með samkomulagin nú hefur þeim áformum verið flýtt.

Hvatt til aukinnar vatnsdrykkju
Öll grunnskólabörn á landinu fá á næstunni vatnsbrúsa að gjöf. Tilgangurinn er að hvetja börn til að drekka meira vatn, að opna augu þeirra sérstaklega fyrir hollustu íslenska vatnsins og almennt að hvetja börn til að hugsa um hvað þau setja ofan í sig. Átakinu var hleypt af stokkunum í vikunni þegar nemendum í Austurbæjarskóla voru afhentir fyrstu margnota vatnsbrúsarnir með hvatningunni ,,hreint vatn er best", en öllum skólabörnum á landinu á aldrinum 6 -15 ára verður færður slíkur brúsi. Það eru heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneyti, umhverfismálaráðuneytið, Orkuveita Reykjavíkur, Vatnsveita Hafnarfjarðar, Knattspyrnusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands sem styrkja framtakið. Hugmyndin er Guðlaugs Karlssonar og hann er sá sem á heiðurinn af því að öll grunnskólabörn landsins fá nú vatnsbrúsa að gjöf.



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
31. maí 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum