Hoppa yfir valmynd
14. júní 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 8. - 14. júní 2002

Fréttapistill vikunnar
8. - 14. júní 2002



Um 1000 þátttakendur á Norrænu sjúkrahúsleikunum í Reykjavík
Norrænu sjúkrahúsleikarnir voru settir í Reykjavík í gær, 13. júní. Keppnin er haldin annað hvert ár og etja þar kappi starfsmenn heilbrigðisstofnana frá öllum Norðurlandaþjóðunum. Keppt er í tíu ólíkum íþróttagreinum. Leikarnir voru fyrst haldnir árið 1975 en Íslendingar hafa tekið þátt í þeim frá árinu 1990. Þjóðirnar skiptast á um að halda leikana og er þetta í fyrsta sinn sem þeir eru haldnir á Íslandi. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setti leikana við opnunarathöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær. Í tilefni þeirra var gefinn út handbók og skrifar ráðherra formálsorð að henni undir kjörorðinu ,,Tab og vind - med samme sind".
ÁVARP RÁÐHERRA...

Nýjar reglur á sviði almannatrygginga um gagnkvæm réttindi milli Íslands og Sviss
Frá og með 1. júní 2002 koma til framkvæmdar nýjar reglur á sviði almannatrygginga gagnvart Sviss. Nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) öðlaðist gildi 1. júní s.l. og í honum er sérstakur kafli um almannatryggingar. Samningurinn gildir milli Sviss, Íslands, Noregs og Liechtenstein. Með lögum nr. 76/2002 eru gerðar breytingar á ýmsum lögum vegna samningsins, m.a. á 40. og 66. gr. almannatryggingalaga. Markmið almannatryggingaákvæða samningsins er að tryggja jafnræði, auðvelda fólki flutninga milli aðildarríkjanna, greiða bætur til þeirra sem búsettir eru á yfirráðasvæði aðildarríkja samningsins og stuðla að gagnkvæmri aðstoð og samvinnu yfirvalda og stofnana. Nánari grein er gerð fyrir nýju reglunum á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins.
NÁNAR Á HEIMASÍÐU TR...

Norrænu lýðheilsuverðlaunin 2002 - viðurkenning fyrir rannsóknir á einelti
Dan Olweus hefur helgað sig rannsóknum á einelti barna og ungmenna og aðgerðum til að draga úr því í þrjá áratugi. Rannsóknir hans marka tímamót á þessu sviði og hann er almennt talinn upphafsmaður rannsókna á sviði eineltis. Hann er sá vísindamaður í sálar-og uppeldisfræðum á Norðurlöndum sem þekktastur er fyrir verk sín á alþjóðlegum vettvangi. Dan Olweus hefur lagt ríka áherslu á að sett væru lög til að draga úr einelti í Noregi, Svíþjóð og í öðrum löndum. Með vísindarannsóknum sínum hefur honum tekist að hafa áhrif á stefnumótun í uppeldismálum og með því lagt sitt af mörkum í sviði lýðheilsu á Norðurlönum.
NÁNAR...

Koffín heimilað í fæðubótarefnum og náttúruvörum

Sérfræðinefnd um fæðubótarefni og náttúruvörur hefur ákveðið að heimila koffín í fæðubótarefnum og náttúruefnum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þetta kemur fram á heimasíðu Lyfjastofnunar. Leyfilegur hámarksdagsskammtur koffíns í þurrvöru (duft, hylki, töflur o.s.frv) er 300 mg. Átt er við samanlagt magn hreins koffíns og koffíns í jurtum s.s. Guarana, Yerba maté, Ilex paraguensis, Kola nut, Green tea, Camellia sinensis. Óskað verður eftir upplýsingum frá framleiðanda um heildar magn koffíns í vörum sem sótt er um leyfi fyrir. Sé magn koffíns meira en 150 mg í dagsskammti, er skylt að líma svohljóðandi viðvörun á umbúðir: ,,Þessi vara er ekki ætluð þunguðum konum, konum með barn á brjósti, börnum yngri en 18 ára eða einstaklingum sem viðkvæmir eru fyrir neyslu koffíns."

Doktorsvörn: Gildi næringar í forvörnum gegn sykursýki
Gildi næringar í forvörnum gegn sykursýki er efni doktorsvarnar Bryndísar Evu Birgisdóttur sem fram fer í Hátíðasal Háskóla Íslands á morgun, laugardag, kl. 10:00. Bryndís Eva er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1992, BSc í næringarfræði frá Stokkhólmsháskóla 1996, MSc í næringarráðgjöf frá Gautaborgarháskóla 1997. Unnið að rannsóknum í næringarfræði við rannsóknastofu í næringarfræði við Landspítala-háskólasjúkrahús og matvælafræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands frá árinu 1997. Bryndís er fyrsti doktorinn sem útskrifast frá raunvísindadeild eftir að skipulagt framhaldsnám hófst við deildina. Í fréttatilkynningu segir m.a. ,,Breytingar á lífsstíl og mataræði, og jafnvel samsetningu matvæla, eru líklega ástæður mikillar aukningar á tíðni sykursýki sem orðið hefur víða um heim á síðustu áratugum. Markmið rannsóknanna sem doktorsritgerðin byggir á var að skoða tvo næringarfræðilega þætti sem hugsanlega vernda íslensku þjóðina gegn sykursýki.Þessir þættir voru annars vegar samsetning kúamjólkur sem hugsanlega hefur áhrif á nýgengi sykursýki af gerð 1 (oft nefnd barnasykursýki) og hins vegar fæðingarstærð sem mögulega tengist tíðni sykursýki af gerð 2 (oft nefnd fullorðinssykursýki)."
NÁNAR...

Kvennahlaup ÍSÍ á sunnudaginn
Kvennahlaup ÍSÍ verður haldið í þrettánda sinn á sunnudaginn, 16. júní. Fyrsta Kvennahlaup ÍSÍ var haldið 30. júní árið 1990 í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ. Hlaupið var í Garðabæ og á 7 stöðum um landið. Á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði, Laugum í Þingeyjarsýslu, Grundarfirði, Stykkishólmi og í Skaftafellssýslu. Rúmlega 2.000 konur tóku þátt í Garðabæ og um 500 konur á landsbyggðinni. Kvennahlaupið hefur verið haldið á hverju ári síðan og verður nú haldið í þrettánda sinn. Markmið Kvennahlaupsins frá upphafi er að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu. Á heimasíðunni Doktor.is er að finna nokkur góð ráð fyrir þá sem hyggjast taka þátt í hlaupinu og raunar alla þá sem hafa áhuga á hollri hreyfingu yfirleitt.



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
14. júní 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum