Hoppa yfir valmynd
28. mars 2009 Dómsmálaráðuneytið

Samstarfssamningur við Evu Joly kynntur

Í dag var undirritaður í Þjóðmenningarhúsinu formlegur samningur Evu Joly, fyrrverandi rannsóknardómara í Frakklandi, við embætti sérstaks saksóknara.
Eva Joly, Ragna Árnadóttir og Ólafur Þ. Hauksson á blaðamannafundi.
Eva Joly, Ragna Árnadóttir og Ólafur Þ. Hauksson á blaðamannafundinum í morgun.

Í dag var undirritaður í Þjóðmenningarhúsinu formlegur samningur Evu Joly, fyrrverandi rannsóknardómara í Frakklandi, við embætti sérstaks saksóknara. Gerð var grein fyrir samningnum á blaðamannafundi í framhaldinu en á þeim fundi voru Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra og Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, auk Evu Joly.

Ragna Árnadóttir kynnti samkomulag ríkisstjórnarinnar um að veita auknu fjármagni til rannsókna á vegum sérstaks saksóknara. Skýrði hún frá því að kostnaður við störf erlendu sérfræðinganna gæti numið allt að 70 milljónum á ársgrundvelli og sérstökum saksóknara yrði gert kleift að ráða allt að 16 starfsmenn, ef þörf krefði. Alls gæti kostnaður embættisins í heild numið 250-270 milljónum króna á 12 mánaða tímabili.

Ólafur Þ. Hauksson sagði m.a. að nú væru starfsmenn hjá embættinu sex talsins og von væri á fleiri sérfræðingum til starfa á næstu dögum. Með þessu aukna fjármagni gætu starfsmenn verið allt að 20 þegar færi að líða á árið, að meðtöldum erlendu sérfræðingunum. Ljóst væri að um væri að ræða stór mál sem útheimti mikla sérfræðivinnu. Embættinu verði styrkur að því að fá liðsauka Evu og sérfræðinga á hennar vegum.

Eva Joly kvaðst vera afar ánægð með að geta veitt þessari rannsókn liðsinni. Samningurinn gerir ráð fyrir að hún starfi við rannsóknina fjóra daga í mánuði. Störf hennar og sérfræðinga á hennar vegum felast m.a. í ráðgjöf um meðferð réttarbeiðna milli landa auk ráðgjafar um tengsl við erlenda sérfræðinga á ýmsum sviðum s.s. endurskoðendur vegna greiningar á bókhaldsgögnum og uppgjörum banka, rannsókn eignatengsla og við að rekja slóð fjármagns milli bankastofnana og ríkja. Eva er bjartsýn á að það takist að upplýsa málin en bendir á að það geti tekið tíma.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum