Hoppa yfir valmynd
31. mars 2009 Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á lögum um aðför, nauðungarsölu og gjaldþrotaskipti o.fl. taka gildi í dag

Breytingar á lögum um aðför, nauðungarsölu, gjaldþrotaskipti og vexti og verðtryggingu taka gildi í dag, 31. mars 2009.

Breytingar á lögum um aðför, nauðungarsölu, gjaldþrotaskipti og vexti og verðtryggingu taka gildi í dag, 31. mars 2009. Lögin hafa það að markmiði að bæta stöðu skuldara m.a. með því að veita þeim rýmri frest þegar um aðför og nauðungarsölu er að ræða svo þeim gefist ráðrúm til að endurskipuleggja fjármál sín.

Nauðungarsölu frestað fram yfir 31. október 2009
Með þeirri breytingu sem gerð er á lögum um nauðungarsölu getur skuldari óskað eftir því við sýslumann að nauðungarsölu á húsnæði í hans eigu og þar sem hann heldur heimili verði frestað fram yfir 31. október 2009. Á tímabilinu sem fresturinn varir skulu kröfur sem trygging er fyrir í fasteigninni og tilheyra ríkinu eða stofnun eða fjármálafyrirtæki í eigu þess aðeins bera samningsvexti en ekki dráttarvexti. Undanskildar þessu eru skattkröfur en samkvæmt þeim breytingum sem gerðar eru á lögunum um vexti og verðtryggingu skulu skattkröfur bera 15% dráttarvexti á meðan fresturinn varir.

Þá er sýslumanni gert að leiðbeina skuldara sérstaklega um þann kost að ráðstafa megi eign með nauðungarsölu á almennum markaði.

Hægt að búa áfram í húsnæði í allt að tólf mánuði við gjaldþrotaskipti
Samkvæmt breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o. fl. getur skiptastjóri með samþykki veðhafa heimilað skuldara að búa áfram í húsnæði í eigu búsins í allt að tólf mánuði. Fyrir þau afnot skal hann greiða leigu sem nemur a.m.k. þeim kostnaði sem er af eigninni, en það sem umfram er gengur til greiðslu krafna sem tryggðar eru með veði í eigninni. Heimild þessi fellur niður 1. mars 2010, en ákvörðun sem skiptastjóri hefur tekið fyrir þann dag stendur til loka þess tíma sem ákveðinn var.

Þá skal héraðsdómari þegar beiðni um gjaldþrotaskipti á búi er tekin fyrir leiðbeina skuldara um möguleika á að leita nauðasamninga eða greiðsluaðlögunar til nauðasamnings. Þá má dómari verða við sameiginlegri beiðni skuldara og kröfuhafa um að fresta meðferð beiðnar um gjaldþrotaskipti í samtals allt að þrjá mánuði ef skuldari hefur ekki stundað atvinnurekstur.

Breyting á lögum um aðför
Aðfararfrestur til fullnustu tiltekinna krafna er lengdur tímabundið til 1. janúar 2010, úr 15 dögum í 40 daga frá gildistöku laga til 1. janúar 2010.

Sjá nánar hér á vef Alþingis.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum