Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 1: Engin fátækt

Heimsljós birtir á næstu vikum kafla úr stöðuskýrslu stjórnvalda um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem kom út fyrr á árinu. Hér er kafli um fyrsta markmiðið.

Mikill árangur hefur náðst á heimsvísu í baráttunni gegn fátækt. Hins vegar býr enn fjöldi fólks, sérstaklega í þróunarríkjum, við örbirgð og alla fylgifiska hennar, s.s. hungur, húsnæðisleysi, skort á tryggri lífsafkomu, lélegt eða ekkert aðgengi að menntun, skort á heilbrigðisþjónustu og annarri grunnþjónustu auk félagslegrar útskúfunar. Ísland er velferðarríki á vestrænan mælikvarða og lífskjör íslenskra ríkisborgara því almennt talin góð samanborið við aðrar þjóðir heimsins. Nýjustu mælingar sýna að á Íslandi ríkir mestur tekjujöfnuður og minnst fátækt meðal Evrópuþjóða2 en þrátt fyrir þær jákvæðu niðurstöður býr ákveðinn hópur fólks enn við efnislegan skort og fátækt. Eitt af meginstefjum Heimsmarkmiðanna er að skilja engan eftir og því er mikilvægt að hafa það að leiðarljósi við innleiðingu fyrsta markmiðsins um að útrýma fátækt á Íslandi.

Útrýming fátæktar í öllum myndum

Það getur verið vandkvæðum bundið að skilgreina fátækt, sér í lagi er kemur að alþjóðasamanburði. Það er stefna stjórnvalda að styrkja sérstaklega stöðu fólks sem stendur höllum fæti og gera tillögur til úrbóta á kjörum tekjulægstu hópanna í samfélaginu. Velferðarvakt íslenskra stjórnvalda lét vinna greiningu á sárafátækt árið 2016 sem leiddi í ljós að á bilinu 1,3 til 3% landsmanna búa við sárafátækt.3 Velferðarvaktin lagði til grundvallar verkefninu skilgreiningu á sárafátækt sem samsvarar þeim hópi sem Hagstofan mælir að búi við verulegan skort á efnislegum gæðum. Mælingin „skortur á efnislegum gæðum“ var þróuð af evrópsku hagstofunni Eurostat með það fyrir augum að bregðast við vissum annmörkum tekjumælinga á fátækt.

Á Íslandi eru ekki til opinber viðmið um fátækt en helst hefur verið notast við skilgreiningu á lágtekjumörkum sem miða við 60% af miðgildi ráðstöfunartekna. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 8,8% íbúa undir lágtekjumörkum árið 2016, þar á meðal 11% barna og 24,9% einstæðra foreldra. Til samanburðar má nefna að árið 2011 mældust 9,2% landsmanna undir lágtekjumörkum.4 Félagslegt tryggingakerfi hefur verið við lýði á Íslandi frá því á fyrri hluta 20. aldar. Lögum samkvæmt eiga allir sem eru löglega búsettir á Íslandi rétt á grunnþjónustu sem felur í sér aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu, öruggu húsnæði, félagslegu tryggingakerfi og félagsþjónustu. 1.2 Eigi síðar en árið 2030 búi a.m.k. helmingi færri karlar, konur og börn, óháð aldri, við fátækt eins og hún er skilgreind í hverju landi.

Sveitarfélög veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga gilda reglur viðkomandi sveitarfélags í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga en 4,4% heimila á Íslandi fengu slíka fjárhagsaðstoð árið 2016.5 Þeir sem búsettir eru hér á landi fá greiðslur almannatrygginga vegna barneigna, barna, örorku, endurhæfingar, atvinnuleysis, vinnuslysa, öldrunar o.fl. Hlutfall örorkulífeyrisþega var 8,1% af íbúum á aldrinum 18-66 ára árið 2017.6 Á Íslandi er skyldubundin aðild að lífeyrissjóðum fyrir fólk á vinnumarkaði sem fær greiddan lífeyri þegar starfsaldri lýkur.

Eitt markmiða í fjármálaáætlun stjórnvalda 2019-2023 um stuðning við einstaklinga, fjölskyldur og börn lýtur að því að styrkja sérstaklega stöðu fólks sem stendur höllum fæti og gera tillögur til úrbóta á kjörum tekjulægstu hópanna í samfélaginu. Sérstaklega skal hugað að stöðu barna, með áherslu á þau sem glíma við fjölþættan vanda og búa við fátækt.

Stefnt er að því að einfalda almannatryggingakerfið, tryggja betur framfærslu tekjulægstu hópanna og auðvelda samfélagsþátttöku þeirra. Með einföldun bótakerfisins er stefnt að því að samspil tekna fólks með skerta starfsgetu og örorkulífeyri feli í sér hvata til virkrar þátttöku á vinnumarkaði, enda er atvinnuþátttaka talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt.

Unnið er að því að auka greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi í áföngum. Brúa þarf bil milli fæðingarorlofs og leikskóla og lenging fæðingarorlofs er mikilvægur liður í því. Þá er lögleiðing jafnlaunavottunar og innleiðing jafnlaunakerfa til þess fallin að draga úr fátækt og stuðla að auknum jöfnuði í samfélaginu.

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Meginmarkmið alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands eru að styðja viðleitni alþjóðasamfélagsins til að útrýma fátækt og hungri og stuðla að sjálfbærri þróun. Unnið er að þeim markmiðum m.a. með fjárframlögum til tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu, með sérstakri áherslu á samvinnu við fátæk og óstöðug ríki og að bæta stöðu þeirra sem búa við lökust lífskjör. Tvíhliða samstarfslönd Íslands eru Malaví og Úganda og njóta þau mests stuðnings frá Íslandi auk Mósambík, Palestínu og Afganistan, sem einnig fá umtalsverðan íslenskan stuðning í gegnum fjölþjóðastofnanir og borgarasamtök. Í öllum þeim ríkjum beinist þungi stuðningsins frá Íslandi að þeim hópum sem búa við sárafátækt og kerfisbundinn ójöfnuð, einkum í dreifbýli.

Í jafningjarýni þróunarsamvinnunefndar OECD (OECD-DAC) á íslenska þróunarsamvinnu árið 2017 kom fram að rúm 40% af þróunaraðstoð Íslands árið 2015 fór til mjög fátækra ríkja sem er töluvert hærra hlutfall en meðaltal aðildarríkja DAC (28%).7 Samkvæmt bráðabirgðatölum OECD-DAC fyrir 2017 námu opinber framlög Íslands til þróunarsamvinnu 0,29% af VÞT en framlög aðildarríkja þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) námu 0,31% af VÞT að meðaltali.8 Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og fjármálaáætlun 2019-2023 kemur fram að ríkisstjórnin stefni að því að auka framlög til þróunarsamvinnu og að þau verði 0,35% af VÞT árið 2022.

Úr stöðuskýrslu Heimsmarkmiðanna/ júní 2018

Heimildir

2 Forsætisráðuneytið, 3. maí 2016, Jöfnuður tekna aldrei meiri á Íslandi, stjornarradid.is.

3 Hagstofa Íslands, 13. september 2016, Sárafátækt.

4 Hagstofa Íslands, hagstofa.is.

5 Velferðarráðuneyti og Hagstofa Íslands, 2017, Félagsvísar, 6. útgáfa.

6 Hagstofa Íslands, Örorkulífeyrisþegar eftir kyni og aldri 2008-2017, px.hagstofa.is

7 OECD, Development Cooperation Report 2017.

8 OECD, 9. apríl 2017, Development aid stable in 2017 with more sent to poorest countries.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira