Hoppa yfir valmynd
14. júní 2016 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 192/2016 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. júní 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 192/2016

Í stjórnsýslumáli nr. KNU16010002

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru sem barst kærunefnd útlendingamála, dags. 11. janúar 2016, kærði [...], f.h. [...], kt. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. janúar 2016, um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara.

Af greinargerð kæranda má ráða að hún geri þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að veita henni dvalarleyfi á Íslandi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum fékk kærandi fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara með gildistíma frá 26. febrúar 2013 til 13. febrúar 2014. Leyfið var endurnýjað aftur til 1. mars 2015. Umsækjandi sótti aftur um endurnýjun á leyfinu hinn 4. febrúar 2015. Þeirri umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. janúar 2016.

Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála, dags. 11. janúar 2016. Með tölvupósti, dags. 11. janúar 2016, var óskað eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefnd þann 1. febrúar 2016. Með tölvupósti, dags. 28. janúar 2016, var kæranda veittur 14 daga frestur til að leggja fram greinargerð vegna kærumálsins. Þann 9. febrúar var framangreindur frestur framlengdur til 23. febrúar 2016 að beiðni kæranda. Þann 23. febrúar var framangreindur frestur framlengdur á ný til 5. mars 2016 að beiðni kæranda. Greinargerð barst frá kæranda þann 17. mars 2016.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að stofnunin hafi byggt niðurstöðu sína á því að rökstuddur grunur væri til staðar um að til hjúskapar kæranda hafi verið stofnað til málamynda. Í ákvörðuninni segir að grunur hafi vaknað um málamyndahjúskap kæranda og maka hennar vegna mynda sem lágu fyrir í málinu af eiginmanni kæranda með annarri konu og á þeim myndum hafi þau virst vera par. Þessi grunur Útlendingastofnunar hafi svo verið staðfestur frekar með rannsókn lögreglu, sem hafi farið heim til kæranda og eiginmanns hennar og hitt þar fyrir aðra konu en kæranda, en það sé sama kona og sé með eiginmanni kæranda á umræddum ljósmyndum. Umræddar myndir hafi verið birtar á síðu eiginmanns kæranda á samfélagsmiðlinum Facebook og einn af þeim sem heimsótt hafi síðuna hafi sett athugasemd við myndina þar sem hún hafi sagt „flott hjón“.

Þá kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hafi talið þessar ljósmyndir vera veika stoð til gruns um málamyndahjúskap og hafi útskýrt að konan sem hafi skrifað við myndina væri ættingi eiginmanns hennar sem hafi ekki þekkt heimilishætti hans og kæranda og ekki verið í samskiptum við hann lengi. Útlendingastofnun telji þessar myndir hins vegar styrkja rökstuddan grun um málamyndahjúskap kæranda sérstaklega í ljósi nýrra upplýsinga sem hafi borist í málinu.

Við nánari vinnslu málsins, eftir að andmælabréf hafi verið sent umsækjanda, hafi fundist grein á netinu frá 5. júlí 2013 er beri heitið „[...]“. Í greininni sé fjallað um eiginmann kæranda og konuna sem hafi verið með honum á myndunum og opnun þeirra á [...]. Í þeirri grein hafi komið fram að eiginmaður kæranda og umrædd kona séu hjón sem hafi opnað búðina saman og sé birt mynd af þeim við [...] þar sem eiginmaður kæranda haldi utan um konuna og við hlið hans standi kærandi. Um sé að ræða sömu mynd og Útlendingastofnun hafi haft undir höndum frá Facebook síðu eiginmanns kæranda. Í greininni segi að á myndinni sé að finna eiginmann kæranda, umrædda konu og aðstoðarstúlku þeirra, og er kærandi þar nafngreind. Að mati stofnunarinnar hafi þessi grein ein og sér ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að um málamyndahjúskap hafi verið að ræða en þegar heildarmat hafi verið lagt á aðstæður, umræddar myndir, rannsókn lögreglu ásamt fleiri atriðum hafi það stutt rökstuddan grun um að um málamyndahjúskap væri að ræða á milli kæranda og eiginmanns hennar. Þá hafi ekki verið sýnt fram á annað með óyggjandi hætti af hálfu kæranda. Kæranda var því synjað um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er málatilbúnaði Útlendingastofnunar hafnað sem röngum.

Kærandi vísi til þess að hún hafi ekki notið andmælaréttar vegna framlagningar stofnunarinnar á blaðagrein í málinu, en stofnunin hafi talið augljóslega óþarft að veita andmælarétt vegna þessa. Kærandi telji andmælarétt stjórnsýslulaga skýran og óheimilt sé að takmarka hann einhliða af hálfu stjórnvalds, sérstaklega þegar gögn styrki málatilbúnað stjórnvalds. Að mati kæranda hafi ekki legið fyrir afstaða hennar um umrædda blaðagrein og þær upplýsingar ekki augljóslega óþarfar. Að mati kæranda hafi greinarhöfundur umræddrar blaðagreinar farið með rangt mál þegar hann hafi greint frá því að eiginmaður kæranda og sú kona sem hann haldi utan um á myndinni væru hjón. Greinarhöfundur hafi viðurkennt mistök sín og sé yfirlýsing þess efnis meðfylgjandi gögnum kæranda.

Kærandi kveður hjónaband sitt og eiginmanns síns vera eins og hvert annað hjónaband. Vegna málatilbúnaðar Útlendingastofnunar hafi þau hins vegar neyðst til að útbúa yfirlýsingar um samband sitt. Hafi kærandi lagt fram margvísleg skjöl því til stuðnings sem séu meðfylgjandi gögnum kæranda. Kærandi haldi því fram að forsendur ákvörðunar hennar að flytja til Íslands hafi ekki verið af fjárhagslegum hvata né öðrum sjónarmiðum en að vera með eiginmanni sínum. Þá hafi kærandi lagt fram margar ljósmyndir af sér og eiginmanni sínum, sem sýni þau við ýmsar aðstæður í daglegu lífi. Myndirnar sýni með glöggum hætti að fjölskylduhættir þeirra séu með eðlilegu móti. Fullyrðingar um að hjónaband þeirra sé til málamynda eigi sér enga stoð og sé slíkum fullyrðingum með öllu hafnað.

Kærandi haldi því fram að sé fjárhagur hennar skoðaður sjáist þar glögglega að engin ummerki málamyndahjónabands sé að finna. Kærandi og eiginmaður hennar séu með sameiginlegan fjárhag. Þau standi sameiginlega straum af útgjöldum heimilisins auk þess sem þau eigi fasteign saman sem þau leigi út. Þá hafi kærandi hafi lagt fram skjöl varðandi eignarhald þeirra að fasteigninni. Þau leigi saman aðra fasteign þar sem þau búi en hyggist flytja í eigin húsnæði á næstu árum.

Kærandi greini frá því í greinargerð sinni að hún sé mjög vinnusöm og fyrirmyndar borgari. Hún starfi á veitingastað og eiginmaður hennar einnig. Þar sinni kærandi daglegum rekstri. Kærandi greini frá því að tvö börn hennar hafi flutt með henni hingað til lands. Þau hafi komið sér vel fyrir á Íslandi og gengið vel að aðlagast landi og þjóð. Afskipti Útlendingastofnunar af málefnum fjölskyldunnar hafi hins vegar haft gífurleg áhrif á dvöl þeirra hér á landi. Sonur kæranda hafi þurft að aflýsa ferð til [...] síðastliðið sumar vegna þeirrar óvissu sem gætt hafi um veru þeirra hér á landi. Þá hafi þessi afskipti valdið honum mikilli vanlíðan og orðið þess valdandi að hann hafi nýverið snúið aftur til [...] og hyggist ekki flytja aftur til Íslands fyrr en vissu gæti um dvöl hans hér. Fjölskylda kæranda hafi því tvístrast. Dóttir kæranda hafi hins vegar notið velgengni á Íslandi og gangi vel í skóla.

Í greinargerð kæranda hafni kærandi því alfarið að eiginmaður hennar sé í hjúskap með annarri konu. Eiginmaður kæranda hafi aldrei verið í sambandi, hjúskap eða sambúð við áðurnefndri konu. Milli þeirra sé hins vegar mikill vinskapur. Mikill samgangur sé á milli þessarar konu, kæranda og eiginmanns kæranda, enda sé hún eigandi fyrirtækisins þar sem kærandi og eiginmaður hennar vinni.

Kærandi gagnrýni rannsókn lögreglu í málinu, sem fengin var að beiðni Útlendingastofnunar. Lögreglan hafi komið að heimili kæranda um nótt. Kærandi hafi komið til dyra og hafi lögreglan talið að önnur kona en hún hafi komið til dyra. Því hafni kærandi. Lögreglumenn er komi hafið á vettvang hafi takmarkaða þekkingu á útliti kæranda og séu athugasemdir í lögregluskýrslu ómálefnalegar og rangar. Kærandi krefjist þess að þau gögn sem lögregla hafi stuðst við verði lögð fram.

Kærandi haldi því fram að Útlendingastofnun hafi brotið rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar í málinu. Lykilsönnunargagn stofnunarinnar sé mynd á samfélagsmiðlum þar sem eiginmaður kæranda sé á mynd með vinkonu sinni og samstarfskonu. Í athugasemd við myndina skrifi frænka eiginmanns kæranda „Flott hjón“. Út frá því hafi hafist rannsókn sem hafi lokið með synjun á umsókn kæranda um dvalarleyfi.

Kærandi hafni því alfarið að þau gögn sem stofnunin hafi lagt fram og reisi ákvörðun sína á séu til þess fallin að skapa grundvöll rökstudds gruns samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga. í ljósi aðstæðna hafi kærandi hins vegar aflað mikið af gögnum til að sýna fram á raunverulegt fyrirkomulag hjónabands kæranda og eiginmanns hennar. Þar megi nefni skattframtöl, afsal fasteignar, myndir úr daglegu lífi þeirra hjóna, yfirlýsingu þess blaðamanns sem áðurnefnda grein hafi ritað, gögn um menntun kæranda, hjúskaparsöguvottorð eiginmanns kæranda o.fl. Gögnin séu öll til þess fallin að sýna fram á félags- og fjárhagsleg tengsl kæranda við eiginmann sinn. Kærandi haldi því fram að verði ákvörðun stofnunarinnar staðfest verði eðlilegri og hamingjusamri fjölskyldu tvístrað á röngum grundvelli. Málatilbúnaði stofnunarinnar hafi verið hafnað frá upphafi sem röngum og séu framlögð gögn nægileg sönnun þess.

Kærandi krefjist þess að kærunefnd útlendingamála hrindi ákvörðun stofnunarinnar um synjun umsóknar um dvalarleyfi. Grundvöllur ákvörðunar stofnunarinnar sé ekki reistur á traustum gögnum sem séu til þess fallin að sýna fram á að hjónaband kæranda og eiginmanns hennar sé til málamynda. Jafnframt sé slíkum fullyrðingum hafnað sem röngum enda eigi þær sér enga stoð í fyrirliggjandi gögnum né raunverulegu fyrirkomulagi hjónabands kæranda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara vegna gruns um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga, með síðari breytingum og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 13. gr. laga um útlendinga og 47. gr. reglugerðar um útlendinga er að finna heimild til að veita maka íslensks ríkisborgara dvalarleyfi hér á landi að uppfylltum almennum skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis sem koma fram í 11. gr. laga um útlendinga. Kærandi þarf því að uppfylla sérstök skilyrði 13. gr. laga um útlendinga ásamt almennum skilyrðum 11. gr. laganna til að unnt sé að fallast á útgáfu dvalarleyfis henni til handa. Í 11. gr. laga um útlendinga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr. laganna að fenginni umsókn og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt. Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. laga um útlendinga er heimilt að endurnýja leyfi skv. 13. gr. ef skilyrði þess eru enn uppfyllt.

Í 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef rökstuddur grunur er um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, veiti slíkur hjúskapur ekki rétt til dvalarleyfis, sbr. einnig 47. gr. reglugerðar um útlendinga. Í athugasemdum í frumvarpi við 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. gr. laga nr. 20/2004 um breytingu á lögum um útlendinga, kemur m.a. fram að skilyrði þess að synjað verði um dvalarleyfi sé í fyrsta lagi að rökstuddur grunur sé um að um gerning til málamynda sé að ræða. Það verði að vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Vísbendingar í þeim efnum geta t.d. verið að aðilar hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, hjónin skilji ekki tungu hvors annars, mikill aldursmunur sé á þeim, þau þekki ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars fyrir giftingu eða til fyrri hjónabanda. Ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað eingöngu til þess að fá dvalarleyfi, vegna framangreindra atriða eða af öðrum ástæðum, fellur það í hlut umsækjanda að sýna fram á annað. Synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda um dvalarleyfi verður að skilja þannig að hún sé byggð á því að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda, í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi.

Líkt og áður hefur komið fram heldur kærandi því fram að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin við meðferð máls hennar hjá Útlendingastofnun og beri því að ógilda ákvörðun stofnunarinnar.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal Útlendingastofnun sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á.

Byggir stofnunin niðurstöðu sína að verulegu leyti á því að eiginmaður kæranda sé í sambandi við aðra konu. Sá grunur er í veigamiklum atriðum byggður á upplýsingum af samfélagsmiðlum, tiltekinni grein á netinu og upplýsingum úr lögregluskýrslu. Fyrir liggur í málinu að ekki var tekið viðtal við kæranda né eiginmann hennar hjá stofnuninni áður en ákvörðun var tekin líkt og venja stendur til í málum sem þessum. Eins og málið liggur fyrir er það mat kærunefndar að stofnuninni hafi borið að leita eftir sjónarmiðum kæranda og eiginmanns hennar áður en ákvörðun var tekin, sbr. 10. gr. og 13. gr. stjórnsýslulaga, einkum þegar haft er í huga, hve ríka hagsmuni kærandi og eiginmaður hennar hafi af réttlátri meðferð málsins. Er það mat kærunefndar að mál kæranda hafi ekki verið nægilega rannsakað og ekki hafi legið fyrir fullnægjandi upplýsingar hjá Útlendingastofnun til þess að unnt hafi verið að taka vel ígrundaða og sjálfstæða ákvörðun í því.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Það leiðir af fyrirmælum 13. gr. stjórnsýslulaga að hafi nýjar upplýsingar bæst við í máli án þess að aðila sé kunnugt um það ber stjórnvaldi að hafa frumkvæði að því að kynna aðila slíkar upplýsingar og gefa honum kost á að tjá sig um þær, ef um er að ræða upplýsingar sem eru aðila í óhag og ætla má að muni hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Samkvæmt niðurlagi 13. gr. stjórnsýslulaga er ekki skylt að gefa aðila kost á að tjá sig ef afstaða hans og rök fyrir henni liggja fyrir í gögnum málsins eða slíkt sé augljóslega óþarft. Framangreindar undantekningar frá andmælarétti ber almennt að skýra þröngt.

Áður en ákvörðun var tekin í máli kæranda var henni ekki veittur andmælaréttur um áðurnefnda grein á netinu sem Útlendingastofnun byggir meðal annars ákvörðun sína á. Í ákvörðun stofnunarinnar var talið óþarft að veita kæranda andmælarétt vegna framangreindrar greinar, þar sem hún studdi einungis við önnur gögn í málinu. Að mati kærunefndar verður ákvörðun stofnunarinnar ekki skilin öðruvísi en svo að niðurstaða hennar hafi að verulegu leyti stuðst við þær upplýsingar sem komu fram í framangreindri grein. Ekki verður því fallist á að það hefði ekki þjónað tilgangi að gefa kæranda kost á að tjá sig um þær upplýsingar er þar komu fram, sérstaklega í ljósi nýrra gagna sem borist hafa kærunefnd á kærustigi varðandi umrædda grein.

Kærunefnd telur rétt að benda á að þau gögn sem Útlendingastofnun byggði á í þessu máli lutu að trúverðugleika hjúskaparins við beiðni um endurnýjun dvalarleyfis en ekki að tilgangi stofnunar hans. Kærunefnd telur að heimild til synjunar á endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli 13. gr. laga um útlendinga hljóti, samkvæmt orðanna hljóðan, að tengjast einvörðungu tilgangi hjúskapar en ekki atvikum sem síðar komu til og höfðu ekki þýðingu fyrir stofnun hjúskaparins.

Með vísan til alls framangreinds er óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til nýrrar meðferðar Útlendingastofnunar.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Málinu er vísað til nýrrar meðferðar Útlendingastofnunar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to reexamine the case.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

 

Vigdís Þóra Sigfúsdóttir                                                                                       Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum