Hoppa yfir valmynd
29. maí 2002 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 7/2002. Úrskurður kærunefndar

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 29. maí 2002


í máli nr. 7/2002:


Trésmiðja Þráins Gíslasonar sf.


gegn


Byggðasafni Akraness og nærsveita og


Landmælingum Íslands


Með bréfi 11. mars 2002, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kæra Samtök iðnaðarins, fyrir hönd Trésmiðju Þráins Gíslasonar sf., útboð Byggðasafns Akraness og nærsveita og Landmælinga Íslands á sýningarbúnaði, sbr. auglýsingu í Póstinum 31. janúar 2002. Kærandi krefst þess að ákvörðun kærðu um að ganga til samninga við aðra en kæranda verði felld úr gildi og þeim gert að ganga til samninga við kæranda. Til vara er þess krafist að viðurkenndur verði réttur kæranda til skaðabóta vegna kostnaðar við tilboðsgerðina og vegna tapaðs hagnaðar. Kærandi krefst einnig málskostnaðar við að halda kærunni uppi.


Af hálfu kærða Byggðasafns Akraness og nærsveita er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.


Af athugasemdum kærða Landmælinga Íslands verður einnig ráðið að hann krefjist þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað.


I.


Þann 31. janúar 2002 birtist í Póstinum, sem er vikulegt auglýsingablað og dreift á Vesturlandi, auglýsing undir fyrirsögninni „Útboð á sýningarbúnaði". Í auglýsingunni segir að kærðu leiti eftir tilboðum í smíði og uppsetningu sýningarskápa, léttra sýningarveggja og annars búnaðar varðandi sýningar þeirra í Safnaskálanum að Görðum, Akranesi. Þá segir að nánari upplýsingar og útboðsgögn megi nálgast hjá kærða Byggðasafni Akraness og nærsveita. Einnig koma fram upplýsingar um tilboðsfrest og fyrirvari um að kærðu áskilji sér rétt til að taka hvaða tilboðum sem er eða hafna öllum.


Að sögn kæranda leitaði hann eftir útboðsgögnum hjá kærða Byggðasafni Akraness og nærsveita og var honum þá afhent eitt umslag sem í voru fimm skjöl: (1-2) tvennar verkteikningar, annars vegar teikningar merktar „sýning á munum í eigu Landmælinga Íslands - Byggðasafnið Görðum á Akranesi" og hins vegar „sýning á sögu íþróttanna – Byggðasafni Akraness og nærsveita"; (3) útboðsauglýsing með upplýsingum um hönnuði; (4) eitt blað með magnyfirliti merkt kærða Landmælingum Íslands og Vigni Jóhannssyni; og (5) skjal á bréfsefni kærða Byggðasafni Akraness og nærsveita með fyrirsögninni „Útboð á sýningarbúnaði". Í síðastgreinda skjalinu koma fram nánari upplýsingar um smíði og uppsetningu sýningarskápa og annars búnaðar vegna sýningar á sögu íþróttanna. Samkvæmt þessu skjali er það einungis kærði Byggðasafn Akraness og nærsveita sem leitar eftir tilboðum í þennan hluta verksins.


Alls bárust tilboð frá sjö bjóðendum í umrætt verk og voru þau opnuð á fundi 7. febrúar 2002 sem fram fór í sýningarskála kærða Byggðasafns Akraness og nærsveita. Samkvæmt fundargerð átti kærandi lægsta heildartilboð, en tveir aðrir bjóðendur áttu hvor um sig lægsta tilboð í verk vegna sýningar á sögu íþróttanna annars vegar og sýningar á munum í eigu Landmælinga Íslands hins vegar. Með tveimur bréfum 12. sama mánaðar tilkynntu kærðu kæranda sitt í hvoru lagi að ákveðið hefði verið að ganga að lægsta tilboði í verk vegna sýningar á sögu íþróttanna annars vegar og sýningar á munum í eigu Landmælinga Íslands hins vegar. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir þessum ákvörðunum með bréfi til safnsins með vísan til þess að hann hefði átt lægsta heildartilboð í verkið. Með bréfi 21. sama mánaðar svaraði kærði Byggðasafn Akraness og nærsveita fyrirspurn kæranda. Í svari þessa kærða kom fram að um hefði verið að ræða tvö aðskilin útboð tveggja sjálfstæðra aðila sem auglýst hefðu verið saman til hagræðis. Hefðu útboðsgögn borið þetta með sér enda hefðu þau verið í tveimur aðskildum hlutum. Af hálfu byggðasafnsins hefði verið ákveðið að taka lægsta tilboði í þann hluta útboðsins sem snéri að safninu, en Landmælingar hefðu ákveðið fyrir sitt leyti að taka lægsta tilboði í þann hluta sem laut að þeim.


II.


Kærandi telur að um hafi verið að ræða eitt sameiginlegt útboð tveggja aðila. Hafi kaupendum borið að taka lægsta tilboði í verkið samkvæmt meginreglum laga 94/2001 um opinber innkaup. Samkvæmt þessu hafi ekki verið gætt jafnræðis við val á bjóðanda. Þá vísar kærandi til þess að brotið hafi verið gegn 47. gr. laganna við opnun tilboða með því að ekki hafi verið lesin upp heildartilboðsupphæð nema í einu tilviki. Að öðru leyti hafi verið lesnar fjárhæðir í verkhlutana. Að lokum telur bjóðandi að þau tilboð, þar sem ekki var boðið í báða verkhluta, hafi verið ógild. Því hafi einungis tvö tilboð fullnægt skilmálum útboðsins.


Af hálfu kærða Byggðasafns Akraness og nærsveita er á því byggt að skýrlega hafi legið fyrir að um tvo verkaupa væri að ræða og tvö aðskilin verk. Þetta hafi meðal annars mátt ráða af útboðsgögnum. Hagkvæmnisástæður hafi ráðið því að ákveðið var að auglýsa sameiginlega. Samkvæmt þessu hafi lægsta tilboði verið tekið í umrædd verk og hafi því val tilboðs verið fyllilega lögmætt. Einnig er á það bent að heimilt sé að velja mismunandi tilboð þegar verki sé skipti í fleiri sjálfstæða hluta í útboðsgögnum, sbr. 3. mgr. 50. gr. laga nr. 94/2001. Því er mótmælt að opnun tilboða hafi verið andstæð 47. gr. laga nr. 94/2001. Af hálfu þessa kærða er talið að fyllsta jafnræðis bjóðenda hafi verið gætt.


Af hálfu kærða Landmælinga Íslands hafa ekki verið færðar fram efnislegar athugasemdir.


III.


Samkvæmt 12. gr. laga nr. 94/2001 skal bjóða út kaup á verkum yfir 10.000.000 kr., en varðandi sveitarfélög og stofnanir þeirra eru viðmiðunarfjárhæðir hærri, sbr. 56. gr. laganna og reglugerð nr. 513/2001 um viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup. Að virtum þeim fjárhæðum, sem um var ræða í framanlýstu útboði, er ljóst að þau innkaup, sem boðin voru út, voru undir þessum fjárhæðum. Samkvæmt þessu giltu hvorki ákvæði II. né III. þáttar laga nr. 94/2001 um innkaup kærða Byggðasafns Akraness og nærsveita. Þá bar kærða Landmælingum Íslands ekki skylda til að bjóða verkið út samkvæmt nánari reglum II. þáttar laganna, enda þótt ákvæði 11. gr. og 13. gr. laganna giltu um innkaupin. Getur það því ekki varðað ógildi umræddra innkaupa að ekki var fylgt formreglum II. þáttar laga nr. 94/2001 við gerð útboðsgagna og framkvæmd útboðsins, en ljóst er að auglýsing og útboðsgögn fullnægðu ekki þessum reglum.


Í málinu liggur fyrir að kærðu óskuðu eftir tilboðum í umrædd verk með auglýsingu í fjölmiðlum. Jafnvel þótt sá fjölmiðill sem auglýsingin birtist í hafi takmarkaða dreifingu verður að telja að þessi háttur á innkaupunum hafi að einhverju marki verið til þess fallinn að tryggja jafnræði áhugasamra verktaka, a.m.k. með tilliti til kæranda sem hefur starfsstöð sína á Akranesi, þar sem umræddum fjölmiðli er dreift. Án tillits til þess hvort um var að ræða eitt sameiginlegt útboð eða tvö aðskilin útboð liggur nægilega fyrir að um var ræða tvo sjálfstæða verkhluta. Samkvæmt meginreglu 3. mgr. 50. gr. laga nr. 94/2001 fólst engin ólögmæt mismunum í því gagnvart kæranda að sitthvoru tilboðinu væri tekið í umrædda hluta. Jafnvel þótt litið yrði svo á að útboðið hafi í heild verið sameiginlegt og háð jafnræðisreglu 11. gr. laga nr. 94/2001 er því ekki hægt að fallast á að brotið hafi verið gegn jafnræði bjóðenda með vali kærðu á tilboðum.


Samkvæmt framangreindu verður kröfum kæranda hafnað.


Úrskurðarorð :


Hafnað er kröfum kæranda, Trésmiðju Þráins E. Gíslasonar sf., í tilefni af útboði kærðu Byggðasafns Akraness og nærsveita og Landmælinga Íslands á sýningarbúnaði, sbr. auglýsingu 31. janúar 2002.



Reykjavík, 29. maí 2001.


Páll Sigurðsson


Anna Soffía Hauksdóttir


Sigfús Jónsson




Rétt endurrit staðfestir.


29.05.02



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum