Hoppa yfir valmynd
11. september 2002 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 16/2002. Úrskurður kærunefndar

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 11. september 2002



í máli nr. 16/2002:


Spöng ehf.


gegn


Framkvæmdasýslu ríkisins.



Með bréfi 8. júlí 2002, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Spöng ehf. útboð Framkvæmdasýslu ríkisins nr. 12968 auðkennt Sambýli Jöklaseli Alútboðslýsing".


Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun kærða frá 28. júní 2002 um að ganga til samninga við Baldur Jónsson og VSÓ ráðgjöf ehf. á grundvelli tilboðs þeirra í fyrrgreindu útboði og mælt verði fyrir um skyldu kærða til að ganga til samninga við kæranda á grundvelli frávikstilboðs félagsins. Kærandi krefst þess einnig að nefndin láti ljós álit á því hvort kærða sé skaðabótaskyld gagnvart kæranda og enn fremur krefst kærandi málskostnaðar vegna kostnaðar við að bera kæruefnið undir nefndina.


Af hálfu kærða er þess krafist að öllum kröfum kærenda verði hafnað.


Af hálfu kæranda var þess einnig krafist að samningsgerð kærða yrði stöðvuð þegar í stað og enn fremur var gerð sú krafa ef samningsgerð væri afstaðin að kærunefnd mælti fyrir um stöðvun eða bann við framkvæmdum á grundvelli slíks samnings þar til niðurstaða í málinu lægi fyrir. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin aflaði frá kærða 11. júlí 2002 komst á bindandi samningur í framhaldi af útboðinu með bréfi kærða 28. júní sama árs. Að þessu virtu voru hvorki talin efni til að fjalla um kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir né stöðvun eða bann við framkvæmdum í sérstakri ákvörðun, sbr.1. mgr. 83. gr. laga nr. 94/2001.



I.


Samkvæmt gögnum málsins er hið kærða útboð lokað útboð sem fram fór að undangengnu forvali í febrúar 2002. Í forvalinu voru valdir fjórir aðilar, þ.á m. kærandi, til að bjóða í hönnun og byggingu sambýlis fyrir einhverfa að Jöklaseli 2, Reykjavík. Útboðið var samkvæmt þessu svokallað alútboð og fór það fram í apríl 2002 á vegum kærða fyrir hönd félagsmálaráðuneytisins. Kærandi var einn bjóðanda í útboðinu.


Samkvæmt lið 0.4.1 í útboðsgögnum skyldu bjóðendur skila annars vegar uppdráttum og greinargerðum um hönnun og verðtilboðum hins vegar í sérstökum umslögum. Val á bjóðanda skyldi miðast við hagkvæmasta tilboð á grundvelli fermetraverðs, enda uppfyllti hönnun kröfur forsagnar, sbr. lið 0.4.6. Þar var tekið fram að fyrst myndi sérstök dómnefnd, sem skipuð yrði til að fara yfir og meta tilboð, meta hönnun samkvæmt hverju tilboði fyrir sig og meta hvort kröfur byggingarlýsingar væru uppfylltar. Því næst yrðu lausnir bornar saman á grundvelli fermetraverðs. Um útreikning fermetraverðs segir enn fremur: Til að finna verð pr. m2 byggingar verður fundið birt flatarmál byggingar skv. staðli ÍST-50 og reglugerð um fasteignaskráningu og fasteignamat nr. 406/1978 sbr. Reglugerðir (sic) nr. 95/1986 og nr. 458/4998 (sic). Þessu flatarmáli verði deilt upp í tilboðsfjárhæð til að fá verð pr. m2. Þannig mun sú tillaga, sem býður lægst fermetraverð teljast hagstæðust að því tilskildu að hún uppfylli allar kröfur." Í útboðsgögnum áskildi kaupandi sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum. Þá kom fram að heimilt væri að gera frávikstilboð í aðra tilhögun verksins, án þess að því fylgdi aðaltilboð, eins og nánar greinir í lið 0.4.1.


Meðal gagna útboðsins er sérstök byggingarlýsing, þar sem meðal annars kemur fram forsögn" um frágang lóðar og byggingar. Í lið 1.2.3.0 Forsögn Frágangur lóðar Almennt" kemur m.a. fram að heitur pottur skuli vera á lóðinni í góðum tengslum við aðstöðu starfsmanna og aðgengilegur frá íbúðum. Þá segir að hann skuli vera á skjólgóðum og sólríkum stað. Í lið 1.3.1 Forsögn - Bygging" er nánar lýst kröfum til hönnunar byggingar, meðal annars með tilliti til efnisvals, búnaðar og frágangs, sem ekki er ástæða til að rekja nánar.



II.


Eins og áður sagði tóku fjórir aðilar þátt í umræddu útboði og lögðu fram tilboð innan tilskilinna fresta. Af hálfu kærða var lagt fram tilboð samtals að fjárhæð 87.747.000 kr. Við þetta tilboð voru gefnir þrír valkostir til viðbótar og tilgreind verð fyrir þá. Meðal þessara þriggja valkosta, var svonefnt Frávik C" sem fól í sér byggingu laufskála (einnig nefndur garðskáli), sem tengdist aðalbyggingu og gert var ráð fyrir að framangreindur heitur pottur yrði. Í laufskálanum átti að vera sama glugga- og glergerð og í aðalbyggingu. Límtrébitar áttu að vera í þaki sem var klætt með þreföldu plexigleri. Þá skyldi vera ofn í skálanum og gólfhitun. Í tilboði kærða var þessi valkostur auðkenndur sem Frávik C" og var viðbótarverð vegna hans 3.000.000 kr.


Í fundargerð vegna opnunar tilboða 10. júní 2002 kemur fram að allar framkomnar tillögur hafi verið taldar uppfylla kröfur útboðsgagna og hafi verið samþykktar. Í fundargerðinni er tilboð kæranda talið gera ráð fyrir 450 fm byggingu. Samkvæmt þessu er fermetraverð í tilboðinu reiknað til 194.993 kr. miðað við grunntilboð, en 201.660 miðað við framanlýst Frávik C ". Samkvæmt fundargerðinni áttu Baldur Jónsson og VS ráðgjöf ehf. tilboð með lægsta fermetraverðinu, þ.e. 194.396 kr. Tilboð annarra bjóðenda gerðu ráð fyrir hærra fermetraverði en í tilboði kæranda. Af hálfu kæranda var gerð sú athugasemd við opnun tilboða að tilboð þeirra gerði ráð fyrir 469,5 fm, en ekki 450 fm eins og haldið væri fram af kærða.


Í athugasemdum kæranda til kærða 10. júní 2002 og meðfylgjandi greinargerð hönnuða hans frá 11. júní sama ár kemur fram að við 450 fm grunnflöt byggingar bætist 30 fm laufskáli samkvæmt áðurlýstu fráviki C og reiknist hann sem A rými í grunnfleti hússins. Samtals sé þá byggingin með laufskálanum 480 fm. Verð byggingarinnar með laufskála sé 90.747.000 kr. og verð á fermetra sé þá 189.056 á hvern fermetra. Í athugasemdunum kemur fram að lögð sé áhersla á að laufskálinn bæti gæði hússins og skapi heilsársnýtingu á heitum potti með blómum skrýddu rými og góðri hljóðvist. Loks árétta hönnuðir að samræmis sé gætt milli bjóðenda varðandi stærðarútreikninga á húsatillögum.



III.


Kærandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi átt hagkvæmasta tilboð í umræddu útboði og hafi kærða verið óheimilt að semja við annan aðila í framhaldi af útboðinu. Nánar tiltekið telur kærandi að tilboð hans, eins og það var útfært með framanlýstu fráviki C, hafi gert ráð fyrir lægsta fermetraverði. Heildarverð umrædds frávikstilboð kæranda hafi verið 93.247.000 kr. Fermetrafjöldin sé 480 og verð á fermetra því 194.265 kr., en það tilboð sem ákveðið hafi verið að taka geri ráð fyrir 194.396 krónum á fermetra.


Kærandi vísar til þess að frávikstilboð hafi verið heimil samkvæmt útboðsskilmálum. Hvergi sé að finna þá reglu sem kærði byggi ákvörðun sína á að aðeins megi líta á fermetraverð samkvæmt frávikstilboði að bjóðandi hafi orðið lægstbjóðandi samkvæmt aðaltilboði. Í því sambandi er meðal annars vísað til 27. gr. laga nr. 94/2001. Þá bendir kærandi á að þessi aðferð við mat á tilboðum hafi ekki verið gerð bjóðendum ljós fyrr en eftir opnum tilboða. Hann vísar einnig til þess að tilboð hans hafi verið talið fullnægja útboðsskilmálum, eins og fram komi í fundargerð opnunarfundar.


Kærði byggir málatilbúnað sinn á því að umræddur laufskáli hafi með engum hætti fullnægt kröfur forsagnar um hönnun og efni byggingarinnar. Í þessu sambandi er bent á að laufskálinn hafi ekki fullnægt kröfum forsagnar um að gólf væru steypt og rétt af á hefðbundinn hátt með gólfmúr og að á þau kæmi slitsterkt gólfefni. Í stað þess væri gert ráð fyrir að gólf laufskálans væri hellulagt, eins og gert sé ráð fyrir um frágang lóðar, og þak væri úr plexigleri. Þá bendir kærði á að á engum stað hafi verið gefinn kostur á að laufskálar væru hluti byggingarinnar. Einnig er á það bent að í greinargerð með tillögu kæranda sé laufskálinn ekki reiknaður með í fermetratölu byggingarinnar og sé ástæðan sú að hönnuðir hafi ekki litið á skálann sem hluta byggingarinnar sem boðin var fram í aðaltilboði og uppfyllti kröfur forsagnar. Af þessum sökum hafi byggingin verið sögð 450 fm og fermetratala skálans tilgreind sérstaklega. Kærði bendir á að ef laufskálinn hefði verið talin hluti byggingarinnar hefði verið skylt að hafna tilboðinu þar sem byggingin hefði þá ekki fullnægt kröfum forsagnar. Tilboðið hefði þá ekki heldur getað talist gilt frávikstilboð þar sem það uppfyllti ekki lágmarkskröfur útboðsgagna, sbr. 27. gr. laga nr. 94/2001. Að lokum hafi engin greinargerð fylgt frávikstilboði kæranda, eins og skylt sé samkvæmt 45. gr. laga nr. 94/2001. Kærði vísar einnig til þess að allir bjóðendur hafi undirritað yfirlýsingu um að hönnun þeirra fullnægði kröfum forsagnar, en ella yrðu þau talin ógild. Samkvæmt þessari yfirlýsingu hafi ekki verið heimilt að líta á laufskálann sem hluta af byggingu enda væru þá ekki allar kröfur forsagnar uppfylltar. Samkvæmt framangreindu uppfylli umræddur laufskáli ekki kröfur forsagnar og hafi ekki verið heimilt að líta til hans við útreikning á fermetraverði. Kaupandi hafi ekki haft áhuga á laufskála og hefði hann óskað eftir slíkum skála ef vilji hans hefði staðið til þess.



IV.


Eins og áður greinir hefur samningur verið gerður í framhaldi af hinu kærða útboði. Samkvæmt 83. gr. laga nr. 94/2001 verður þessi samningur nú ekki felldur úr gildi eða honum breytt. Af þessu leiðir einnig að heimild skortir til að verða við kröfu kæranda um að framkvæmdir á grundvelli samningsins verði stöðvaðar eins og áður hefur komið fram. Eins og málið liggur fyrir telur nefndin þó rétt að taka afstöðu til þess hvort að gætt hafi verið réttra laga við mat á tilboðum í umræddu útboði.


Samkvæmt 2. gr. laga nr. 94/2001 er með frávikstilboði átt við tilboð sem leysir þarfir kaupandans á annan hátt en gert er ráð fyrir í tæknilegri lýsingu útboðsgagna og uppfyllir jafnframt lágmarkskröfur þeirra. Í 27. gr. laganna felst að almennt er heimilt að gera frávikstilboð, ef það er ekki beinlínis bannað í útboðsgögnum. Í ákvæðinu felst að frávikstilboð koma þó aðeins til greina þegar meta á hagkvæmni tilboða með vísan til annarra atriða en eingöngu verðs. Samkvæmt þessu eru frávikstilboð ekki heimil þegar hagkvæmni tilboðs er metin eingöngu á grundvelli verðs, enda verða frávikstilboð eðli málsins samkvæmt ekki metin á grundvelli sömu forsendna og önnur tilboð nema tekið sé tillit til gæða og annarra tæknilegra eiginleika þess sem boðið er fram. Í samræmi við þetta skal tilgreina í útboðsgögnum hvaða tæknilegu lágmarkskröfum tilboð þurfi að fullnægja samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 94/2001, ef frávikstilboð eru ekki útilokuð. Þá skal geta þess sérstaklega á tilboðsblaði að um frávikstilboð sé að ræða og skal fylgja með skýr og greinargóð lýsing á því í hvaða atriðum vikið sé frá tæknilegri lýsingu útboðsgagna, sbr. 45. gr. laganna (sjá einnig úrskurð kærunefndar útboðsmála 21. mars 2002 í máli nr. 3/2002, Borgarverk ehf. gegn Vegagerðinni).


Í tilboði kæranda, auðkennt sem frávik C", er gert ráð fyrir því að byggður verði laufskáli, sem tengist meginbyggingu og meðal annars hýsi heitan pott sem mælt er fyrir um í útboðsgögnum. Í útboðsgögnum er þó hvorki óskað eftir laufskála né því að heitur pottur verði yfirbyggður. Þá er ljóst að umræddur laufskáli fullnægir ekki þeim kröfum um hönnun og efni sem útboðsgögn gera til byggingarinnar og er því ekki unnt að líta á hann sem hluta hennar.


Samkvæmt framangreindu verður ekki séð hvernig unnt er að líta á umrætt tilboð kæranda sem frávikstilboð í skilningi laga nr. 94/2001, enda gerir það ekki ráð fyrir öðrum tæknilegum lausnum á þeim byggingum sem óskað var eftir í útboðinu. Þvert á móti er með umræddu tilboði kæranda gert ráð fyrir byggingu sem ekki er mælt fyrir um í útboðsgögnum og er því um að ræða hreina viðbót við grunntilboð. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að kærða hafi verið skylt að miða útreikning fermetraverðs einnig við laufskálann sem kærandi bauð fram til viðbótar við grunntilboð sitt. Það er álit nefndarinnar að kærði hafi tekið hagkvæmasta framkomna tilboði í skilningi útboðsgagna. Samkvæmt þessu eru ekki efni til þess að nefndin tjái sig um skaðabótaskyldu kærða.


Án tillits til framangreindrar niðurstöðu telur nefndin ástæðu til að benda á að það sjónarmið kærða, sem fram kemur í bréfi hans 28. júní 2002, að frávikstilboð komi aðeins til greina ef viðkomandi bjóðandi hefur átt lægsta aðaltilboð, á sér hvorki stoð í útboðsgögnum né lögum nr. 94/2001. Að þessu virtu er það álit nefndarinnar að tilefni hafi verið til kærunnar og þykir því rétt að kærði greiði kæranda að hluta kostnað við að halda kærunni uppi. Þykir sá kostnaður hæfilega ákveðinn 40.000 krónur.


Það athugast að samkvæmt útboðsgögnum skyldi miða mat á hagkvæmni tilboða við lægsta verð á hvern fermetra. Af útboðsgögnum verður ekki annað ráðið en að þær kröfur sem þar koma fram séu allar lágmarkskröfur og verði tilboð að uppfylla þær til að teljast gild. Að þessu virtu telur nefndin að frávikstilboð í skilningi laga nr. 94/2001 hafi nánast verið útilokuð. Með hliðsjón af þessu verður ekki komist hjá því að finna nokkuð að lið 0.4.1 í útboðsgögnum.



Úrskurðarorð :


Kröfum kæranda, Spangar ehf., vegna útboðs kærða, Framkvæmdasýslu ríkisins, nr. 12968 auðkennt Sambýli Jöklaseli Alútboðslýsing" er hafnað.


Kærði greiði kæranda 40.000 krónur í kostnað við að halda kærunni uppi.



Reykjavík, 11. september 2002.


Áslaug Björgvinsdóttir


Sigfús Jónsson


Stanley Pálsson




Rétt endurrit staðfestir.


11.09.2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum