Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Aldurstakmark í ljósabekki

Ríkisstjórn samþykkti í dag tillögu Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra um bann við ljósabekkjanotkun einstaklinga undir 18 ára aldri. Verður frumvarp um breytingu á lögum nr. 44/2002 um geislavarnir því lagt fyrir Alþingi eftir kynningu í þingflokkum. Með samþykkt frumvarpsins yrði Ísland eftir því sem næst verður komist fyrst Norðurlandanna til að innleiða slíkar reglur. Í Finnlandi er ráðgert að leggja sambærilegt frumvarp fram á haustþingi.

Bannið er í samræmi við sameiginlega yfirlýsingu geislavarnarstofnana Finnlands, Svíþjóðar, Noregs og Íslands frá 11. nóvember 2009. Vísuðu stofnanirnar m.a. til þess að Alþjóðlega rannsóknarstofnunin í krabbameinsfræðum (IARC), sem starfar á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), hóf nýverið að flokka geislun frá ljósabekkjum sem krabbameinsvaldandi. Jafnframt er ljóst að börn og ungmenni eru viðkvæmari en aðrir fyrir útfjólublárri geislun – þ.e. að þeim sem sólbrenna ungir sé hættara við því að fá illkynja sortuæxli síðar á ævinni. Banninu er ekki ætlað að koma í veg fyrir að sólarlampar séu notaðir að læknisráði, heldur snýr það aðeins að notkun sólarlampa í fegrunarskyni.


Undanfarin sjö ár hafa fagaðilar staðið fyrir fræðsluherferð þar sem bent er á hættuna sem fylgir því að ungt fólk fari í ljósabekki. Hefur herferðin beinst að fermingarbörnum og forráðamönnum þeirra og hefur dregið verulega úr ljósabekkjanotkun ungs fólks síðan herferðin hófst. Í viðhorfskönnun, sem Capacent-Gallup gerði fyrir Lýðheilsustöð í desember 2009, sögðust rúm 72% aðspurðra vera fylgjandi lagasetningu um bann 18 ára og yngri við notkun á ljósabekkjum.


Tillagan nýtur eindregins stuðnings starfshóps um útfjólubláa geislun, sem auk fulltrúa Geislavarna ríkisins er skipaður fulltrúa Krabbameinsfélagsins, landlæknis, Lýðheilsustöðvar og Félags húðlækna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira