Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2017 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 214/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. apríl 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 214/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16110018

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 8. nóvember 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. nóvember 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Finnlands.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar, með vísan til þágildandi 1. og 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Þann 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 12. október 2016. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 12. október 2016, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Finnlandi. Þann 17. október 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Finnlandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 17. október 2016 barst svar frá finnskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 1. nóvember 2016 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Finnlands. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 8. nóvember 2016 til kærunefndar útlendingamála auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hans væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 8. nóvember 2016. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 24. nóvember 2016. Viðbótargögn bárust kærunefnd 16. desember 2016.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Finnlands. Lagt var til grundvallar að Finnland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Finnlands ekki í sér brot gegn 33. gr. flóttamannasamningsins, 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 45. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a sömu laga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Finnlands, sbr. d-lið 1. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga.

Kærandi byggði m.a. á því fyrir Útlendingastofnun að hann væri hræddur við að fara til Finnlands þar sem sama ástand ríkti þar og í [...] en kærandi kvaðst ekki hafa upplifað sig óhultan í Finnlandi. Í niðurstöðu Útlendingastofnunar segir um þetta atriði að aðstæður séu almennt þannig í Finnlandi að lögregla og önnur yfirvöld séu í stakk búin til að aðstoða kæranda telji hann sig þurfa á því að halda.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi hann greint frá því að hann hafi fengið synjun í Finnlandi á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og hann hafi ekki getað kært niðurstöðu finnskra stjórnvalda. Kærandi kvaðst alls ekki vilja fara aftur til Finnlands þar sem aðstæður þar hafi verið slæmar. Kærandi hafi einnig greint frá því að hann hafi ásamt fleira fólki af ýmsum uppruna stofnað samtök [...] í Finnlandi í þeim tilgangi að sporna við öfga trúboði. Samtökin hafi haldið erindi og staðið fyrir friðsamlegum mótmælum á hinum ýmsu stöðum bæjarins. Samtökin hafi einnig rætt við umsækjendur um alþjóðlega vernd, ungt fólk, presta í kirkjum og klerka í moskum bæjarins og hafi erindi þeirra fengið mikinn meðbyr frá samfélaginu en hafi mætt mikilli heift af hálfu [...] innan sama búsetuúrræðis og kærandi dvaldi í. Í kjölfarið hafi tvisvar sinnum verið ráðist á bústað hans og telji kærandi að þessar árásir hafi verið gerðar vegna erindagjörða áðurnefndra samtaka. Kærandi hafi því óttast um líf sitt og ekki þorað að fara ferða sinna einn síns liðs vegna hræðslu um að verða fyrir líkamsárás. Kærandi hafi leitað til lögreglu og félagsmálayfirvalda vegna þeirra hótana sem hafi beinst að honum en án árangurs. Skömmu síðar hafi vinur hans og meðlimur í hópunum, finnskur maður að uppruna, verið myrtur skammt frá búsetuúrræðinu og hafi einn af þeim umsækjendum um alþjóðlega vernd, sem hafi haft í hótunum við sig, verið handtekinn vegna morðsins. Í kjölfar þessara atburða hafi andlegt heilsufar kæranda versnað mjög hratt [...].

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að innanríkisráðherra Finnlands hafi í janúar 2016 gefið frá sér yfirlýsingu um að finnsk yfirvöld hafi tekið ákvörðun um að feta í fótspor sænskra stjórnvalda um hertar kröfur vegna umsókna um alþjóðlega vernd. Þó synjunarhlutfall slíkra umsókna hafi verið hátt hafi finnsk stjórnvöld tekið ákvörðun um að herða skilyrði fyrir alþjóðlegri vernd enn frekar [...]. Veki þessar aðgerðir upp áhyggjur af því að umsóknir [...] hljóti ekki nægilega skoðun í Finnlandi þrátt fyrir að fyrir liggi að ófriður ríki í þessum löndum.

Í greinargerð kæranda er vísað til ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar, d-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002 og lögskýringargagna að baki þeim. Einnig er vísað til 45. gr. laganna sem mæli fyrir um bann við að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu, þ.e. non-refoulement. Reglan feli bæði í sér bann við beinni endursendingu til ríkis þar sem líf einstaklings og frelsi kunni að vera í hættu (e. direct refoulement) og jafnframt endursendingu til þriðja ríkis ef ekki er tryggt að það muni ekki senda hann áfram í slíka hættu (e. indirect refoulement).

Fram kemur í greinargerð að í málinu liggi fyrir að finnsk stjórnvöld hafi þegar synjað kæranda um alþjóðlega vernd þar í landi og muni senda hann til heimalands síns. Kærandi vilji af þessu tilefni benda á nýlega skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá því [...] en í henni komi fram að [...].

Kærandi tilheyri [...]. Verði kærandi sendur aftur til [...] muni hann hafa ástæðuríkan ótta við að sæta ofsóknum og verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. Með endursendingu kæranda til Finnlands og tilheyrandi áframsendingu til [...] sé hætt við því að íslenska ríkið gerist brotlegt gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, auk samsvarandi ákvæða íslenskra laga og mannréttindasamninga sem Ísland á aðild að.

Kærandi krefst þess jafnframt að umsókn hans alþjóðlega vernd verði tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga nr. 92/2002. Vísað er til athugasemda við sambærilegt ákvæði með frumvarpi því sem varð að breytingarlögum nr. 115/2010 þar sem fram kemur að ákvæðinu sé ætlað að taka til þeirra tilvika ef varhugavert þyki að beita ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar og senda umsækjendur um alþjóðlega vernd til ríkja í Evrópu þar sem ástæða þykir að ætla að meðferð eða aðbúnaður þeirra sé í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða aðrar þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.

Fram hafi komið í viðtali hjá Útlendingastofnun að kærandi hafi verið meðlimur í samtökum í Finnlandi sem hafi staðið fyrir samkomum og friðsamlegum mótmælum í þeim tilgangi að sporna við öfga trúarbrögðum. Kærandi óttist því þá einstaklinga í Finnlandi sem hafi sýnt þeim samtökum mikið mótlæti. Kærandi verði í lífshættu snúi hann aftur til Finnlands og telji hann að hann muni ekki geta leitað til finnskra yfirvalda eftir raunverulegri vernd.

Kærandi sé illa á sig kominn andlega og geri hann athugasemdir við rannsókn Útlendingastofnunar í málinu. Stofnunin hafi engan reka gert að því að kanna andlegt ástand hans áður en tekin var ákvörðun í máli hans þrátt fyrir að kærandi hafi greint í viðtali hjá stofnuninni frá [...]. Þá veki kærandi athygli á því að í hinni kærðu ákvörðun sé hvergi tekin afstaða til þess hvort kærandi teljist vera í viðkvæmri stöðu með tilliti til ofangreindra atburða.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að finnsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Finnlands er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Finnlandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

· Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2015 (European Asylum Support Office, 8. júlí 2016)

· Amnesty International Report 2016/17 – Finland (Amnesty International, 22. febrúar 2017)

· Comments by the UNCHR Regional Representation for Northern Europe on the draft Law Proposal of 15 April 2016 amending the Aliens Act of the Republic of Finland (UN High Commissioner for Refugees, maí 2016)

· Eurostat – Asylum quarterly report – Q4 2016 (Eurostat, www.ec.europa.eu, upplýsingar birtar 15. mars 2017)

· Finland 2015 Human Rights Report (United States Department of State, 13. apríl 2016)

· Freedom in the World – Finland (Freedom House, 25. ágúst 2016)

· Report to the Finnish Government on the visit to Finland carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) from 22 September to 2 October 2014 (Council of Europe: Committee for the Prevention of Torture, 20. ágúst 2015)

· Response of the Finnish Government to the report of the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) on its visit to Finland from 22 September to 2 October 2014 (Council of Europe: Committee for the Prevention of Torture, 6. október 2015)

· [...]

· Upplýsingar af heimasíðu finnsku útlendingastofnunarinnar, www.migri.fi

· Upplýsingar af heimasíðu finnsku heilsu- og velferðarstofnunarinnar, www.thl.fi

· Upplýsingar af heimasíðu ráðagjafarmiðstöð flóttamanna, www.pakolaisneuvonta.fi

· Upplýsingar af heimasíðu Rauða krossins í Finnlandi, www.redcross.fi

Umsækjendur um alþjóðlega vernd sem fengið hafa synjun á umsókn sinni hjá útlendingastofnun Finnlands geta kært niðurstöðuna til stjórnsýsludómstóls. Fái umsækjendur synjun á umsókn sinni hjá stjórnsýsludómstólnum eiga þeir möguleika á því að áfrýja þeirri niðurstöðu til æðri stjórnsýsludómstóls að fengnu leyfi þess dómstóls. Fái umsækjendur synjun á umsóknum sínum hjá hinum æðri stjórnsýsludómstól eða hafi ekki fengist leyfi til að fara með umsóknina fyrir æðri stjórnsýsludómstólinn eiga þeir möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli umsækjanda eða aðstæður hafi breyst verulega geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Jafnframt eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Finnland er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir Evrópusambandsins er varða réttarúrræði og móttökuaðstæður fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Finnlands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Samkvæmt ofangreindum gögnum má sjá að ákveðin þjónustuúrræði eru í boði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Finnlandi. Umsækjendur eiga til að mynda rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og geta þeir fengið aðstoð við að leita sér aðstoðar vegna heilsufarsvandamála sinna.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Finnlandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Finnlands brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í því sambandi tekur kærunefnd fram að gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að kærandi geti leitað aðstoðar yfirvalda í Finnlandi óttist hann að á honum verði brotið af hálfu aðila sem hann óttast þar í landi.

Í greinargerð kæranda kemur fram að aðgerðir finnskra yfirvalda um að herða skilyrði fyrir veitingu á alþjóðlegri vernd veki upp áhyggjur af því að umsóknir umsækjenda frá löndum eins og [...] séu ekki nægilega vel skoðaðar af finnskum yfirvöldum. Kærunefnd hefur skoðað tölfræðileg gögn frá finnsku útlendingastofnuninni. Þar kemur fram að á tímabilinu [...] voru [...] umsóknir frá [...] ríkisborgurum teknar til skoðunar hjá stofnuninni. Fengu [...] jákvæða niðurstöðu á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Finnlandi en [...] fengu synjun. Af þessum tölum má sjá að þrátt fyrir að synjunarhlutfall umsókna [...] ríkisborgara um alþjóðlega vernd hafi verið hátt á þessu tímabili hefur stofnunin talið að forsendur væru fyrir því að veita [...]% umsóknanna alþjóðlega vernd. Þá má sjá í þeim skýrslum sem kærunefnd skoðaði að Finnland endurmeti reglulega öryggisástand í ákveðnum löndum, þar á meðal [...], og að endurmatið nái jafnframt til möguleikans á flutningum innanlands.

Með greinargerð fylgdu gögn frá finnsku útlendingastofnuninni í máli kæranda, þ.e. viðtal sem tekið var við kæranda og ákvörðun stofnunarinnar í máli hans. Við skoðun á þeim gögnum má sjá að mál kæranda hafi fengið einstaklingsbundna skoðun og þá má sjá í ákvörðuninni leiðbeiningar um þau réttarúrræði sem honum hafi staðið til boða þar sem umsókn hans hafi verið hafnað.

Að ofangreindu virtu er það mat kærunefndar að gögn málsins beri það með sér að umsóknir umsækjenda um alþjóðlega vernd í Finnlandi séu skoðaðar á einstaklingsgrundvelli. Ekkert bendir til þess að [...] umsækjendum sé synjað sjálfkrafa um alþjóðlega vernd í Finnlandi eða þeir sendir til heimaríkis áður en leyst sé úr máli þeirra á einstaklingsgrundvelli. Gögn sem kærandi hefur lagt fram eru að þessu leyti í samræmi við skýrslur sem kærunefnd hefur kynnt sér sem benda eindregið til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð raunhæf úrræði til að leita réttar síns í Finnlandi, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Í greinargerð kæranda kemur jafnframt fram að hann telji að þar sem hann hafi þegar fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Finnlandi þá muni hann verða sendur til heimalands síns verði hann endursendur til Finnlands. Við slíka endursendingu sé hætt við að íslensk stjórnvöld muni gerast brotleg gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement. Vísaði kærandi í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna [...] í því samhengi.

Kærunefnd sendi af þessu tilefni fyrirspurn til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þann 1. desember 2016. Leitað var eftir frekari upplýsingum um afstöðu stofnunarinnar til endursendinga á [...] sem fengið höfðu synjanir á umsóknum sínum um alþjóðlega vernd í aðildarríkjum Dyflinnarsamstarfsins. Þá óskaði kærunefnd eftir leiðbeiningum frá stofnuninni um hvernig best væri að fara með mál þar sem einstaklingur frá [...] hefði fengið synjun á umsókn sinni í öðru ríki Dyflinnarsamstarfsins, í ljósi afstöðu Flóttamannastofnunar varðandi endursendingar til [...], sem fram kom í framangreindri skýrslu. Svar barst kærunefnd frá Flóttamannastofnuninni þann 6. febrúar 2017. Í svarinu kemur fram að þau telji sig ekki geta bætt við það sem fram kemur í niðurstöðum skýrslunnar.

Kærunefnd sendi jafnframt þann 14. febrúar 2017, af ofangreindu tilefni, erindi til Útlendingastofnunar. Annars vegar fyrirspurn um það hvernig matið fer fram hjá stofnuninni þegar skoðað sé hvort tryggt sé að einstaklingur, sem endursenda á til annars ríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, verði ekki áframsendur til svæðis þar sem hann hefur ástæður til að óttast ofsóknir eða vegna svipaðra aðstæðna sem greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Hins vegar óskaði kærunefnd eftir upplýsingum um það hvernig matið skv. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga fari fram þegar viðtaka ríkis er á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og umsækjandi er ríkisborgari lands, [...].

Svar Útlendingastofnunar barst kærunefnd þann 10. mars 2017. Í svarinu kom m.a. fram að við fyrri spurningu kærunefndar væri því til að svara að Útlendingastofnun kanni þær aðstæður sem bíði umsækjanda í viðtökulandi. Bæði almennar aðstæður, t.d. varðandi húsnæði, aðbúnað og þjónustu, og þau málsmeðferðarúrræði sem í boði eru. Við þessa rannsókn sé stuðst við upplýsingar úr alþjóðlegum skýrslum um viðtökulandið. Telji Útlendingastofnun tilefni til hafi hún samband við stjórnvöld í viðtökulandi til að fá frekari upplýsingar um málsmeðferðarúrræði eða þær aðstæður sem bíða umsækjanda við komuna til landsins. Sé hvert mál skoðað á einstaklingsgrundvelli og með tilliti til sérstakra aðstæðna í hverju máli. Varðandi síðari spurningu kærunefndar tók Útlendingastofnun m.a. fram að ef könnun Útlendingastofnunar leiðir í ljós að í viðtökulandi séu virk úrræði fyrir umsækjanda til að leita réttar síns eftir að hafa fengið synjun í máli sínu telur stofnunin, að öðrum þáttum gættum, ekkert því til fyrirstöðu að endursenda kæranda. Ef stofnunin telji tryggt að málsmeðferð í ábyrgu viðtökuríki sé fullnægjandi sé ekki skoðað frekar af hverju umsækjandi hafi fengið synjun í máli sínu þar í landi. Enda liggi fyrir að í viðtökulandi séu stjórnvöld sem hafi skoðað mál umsækjenda vegna aðstæðna hans í heimalandi og að umsækjandi hafi úrræði til að kæra til æðra stjórnvalds eða dómstóla. Hvað varði umsóknir [...] þá vilji Útlendingastofnun taka það fram að hvert mál sé skoðað á einstaklingsgrundvelli og með tilliti til þeirra sérstöku aðstæðna sem eiga við í hverju máli og séu mál er vörðuðu [...] umsækjendur árið 2016 engin undantekning á því. Hafi ekki verið tekin ákvörðun um að veita öllum frá [...] alþjóðlega vernd heldur sé hvert mál skoðað sérstaklega.

Í ofangreindri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna kemur fram að [...]. Kærunefndin hefur skoðað málsmeðferð finnskra stjórnvalda og telur nefndin að gögn málsins beri það með sér að í Finnlandi sé veitt fullnægjandi vernd gegn brottvísunum umsækjenda um alþjóðlega vernd til landa þar sem einstaklingar geta átt á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi sé ógnað. Kærunefnd vill árétta að ekkert bendir til þess að [...] umsækjendum sé sjálfkrafa synjað um alþjóðlega vernd í Finnlandi eða þeir sendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli. Vill kærunefnd í því sambandi taka fram að þau gögn sem kærandi lagði fram til viðbótar, þ.e. viðtal og ákvörðun finnskra stjórnvalda, gefa til kynna að fram hafi farið einstaklingsbundið mat á aðstæðum hans hjá finnskum stjórnvöldum. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að endursending kæranda til Finnlands brjóti ekki gegn 42. gr. laga um útlendinga.

Kærandi sem er ungur einstæður karlmaður kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 26. október 2016 vera líkamlega heilsuhraustur og að andleg heilsa hans væri sæmileg. Í sama viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að [...]. Í greinargerð kæranda kemur hins vegar fram að hann sé illa á sig kominn andlega og hafi sökum atburða sem gerðust í Finnlandi [...]. Kærandi gerir í greinargerð athugasemdir við það að Útlendingastofnun hafi ekki gert reka að því að kanna andlegt ástand hans frekar áður en tekin hafi verið ákvörðun í máli hans. Við málsmeðferð hjá kærunefnd hefur kærandi hvorki lagt fram gögn sem sýna fram á andleg veikindi né gögn til staðfestu um [...]. Þrátt fyrir að kærunefnd dragi ekki í efa að atburðir í lífi kæranda hafi reynt á andlega heilsu hans þá fær kærunefnd ekki séð af gögnum málsins og því sem fram hefur komið í málinu að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá bendir kærunefnd á, eins og fram hefur komið, að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Finnlandi eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þar í landi. Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 26. október 2016 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 12. október 2016.

Í máli þessu hafa finnsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Finnlands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

Þorbjörg Inga Jónsdóttir Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum