Hoppa yfir valmynd
24. mars 2009 Utanríkisráðuneytið

Samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu

Samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu
samstarfsrad240309

Nýtt samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu tók til starfa í dag. Ráðið hefur ráðgefandi hlutverk við stefnumótun í þróunarmálum og fjallar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Það gefur ráð um forgangsröðun, val á samstarfslöndum og skiptingu milli tvíhliða þróunarsamvinnu, sem fram fer í einstökum löndum, og fjölþjóðlegt samstarf, sem á sér stað í alþjóðastofnunum á borð við Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankann og fleiri.

Í samstarfsráðinu situr fólk með fjölþætta reynslu úr mannúðar- og þróunarstarfi auk fjölbreyttrar þekkingar á þróunarmálum. Ekki eru greidd laun fyrir setu í ráðinu.

Fimm fulltrúar eru tilnefndir til setu í ráðinu af samstarfshópi félagasamtaka í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og hjálparstarfi, samstarfsráð háskólastigsins tilnefnir tvo og tveir koma frá aðilum vinnumarkaðarins. Einnig eiga sæti í ráðinu sjö fulltrúar Þróunarsamvinnunefndar, kjörnir af Alþingi. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur skipað Valgerði Sverrisdóttur, fyrrum utanríkisráðherra, formann ráðsins.

Markmið nýrra laga um þróunarsamvinnu, sem samþykkt voru á Alþingi í september sl., er meðal annars að ná heildarsýn á stefnu Íslands í þróunarmálum og auka gegnsæi í stefnumörkun. Samstarfsráðið, sem kom saman í dag á sínum fyrsta fundi, gegnir lykilhlutverki í þeim efnum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum