Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 377/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 377/2019

Miðvikudaginn 20. nóvember 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 10. september 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. september 2019 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænum umsóknum, mótteknum 28. og 30. ágúst 2019. Með ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. ágúst og 2. september 2019, var umsóknum kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd 10. september 2019. Með bréfi, dags. 12. september 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 4. október 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. október 2019. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 9. október 2019 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. október 2019. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá aðdraganda flutnings kæranda til B X. Um X hafi kærandi veikst, hún hafi fengið mikinn kvíða, þunglyndi, mikla gigtarverki og mígreni og í X hafi hún verið orðin nánast rúmföst. Kærandi hafi flutt aftur til Íslands í X. Í kjölfar ýmissa áfalla […] hafi heimilislæknir kæranda sent inn beiðni á Reykjalund, göngudeild geðlækninga, VIRK, Þraut, geðlækni, bæklunarlækni og taugalækni. Eftir X bið hjá Reykjalundi hafi kæranda verið synjað á þeim forsendum að þar væri of langur biðlisti og að eingöngu væri hægt sinna um helmingi umsækjenda. Kærandi hafi fengið synjun frá geðdeildinni þar sem þeirra mat hafi verið að hún væri ekki nægilega veik, þrátt fyrir sjálfsvígshugsanir. Kærandi sé enn að bíða eftir tíma hjá geðlækni og það sé X ára bið hjá Þraut.

Eftir athugun hjá VIRK hafi niðurstaðan þar verið sú að endurhæfing væri óraunhæf. Í millitíðinni hafi kærandi fengið synjun um sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands og frá því í […] hafi hún þegið fjárhagsaðstoð frá félagsþjónustunni.

Í X 2019 hafi heimilislæknir kæranda sent inn vottorð um endurhæfingarlífeyri til Tryggingastofnunar og lífeyrissjóðs. Tryggingastofnun hafi X 2019 synjað kæranda um endurhæfingarlífeyri á þeim forsendum að hún hafi ekki búið samfleytt á Íslandi síðustu þrjú árin. Hins vegar hafi hún verið metin 100% óvinnufær, þ.e. 75% öryrki hjá lífeyrissjóðnum.

Eftir synjun Tryggingastofnunar hafi kærandi fengið tíma hjá taugalækni og hafi hún þá byrjað á meðferð vegna mígrenis sem hafi að einhverju leyti bætt lífskjör hennar þó að hún fái enn höfuðverk. Í X hafi kærandi farið í aðgerð á öxl og sé búin að vera í endurhæfingu síðan en það líti þó út fyrir að hún þurfi að fara í aðra aðgerð þar sem hún hafi mjög skerta hreyfigetu í öxlunum.

Kærandi hafi stöðugt verið að minna á sig á biðlistum en hún komi að lokuðum dyrum alls staðar. Læknir kæranda hafi sent inn beiðni um örorku til Tryggingastofnunar þann 27. ágúst 2019 en henni hafi verið synjað með bréfi, dags. 29. ágúst 2019.

Í athugasemdum kæranda frá 10. október 2019 komi fram að hún sé ekki sátt við framsetningu málsins hjá Tryggingastofnun þar sem það sé í engu samræmi við það sem henni hafi verið sagt í þjónustuveri stofnunarinnar.

Það hafi verið fleiri en einn starfsmaður hjá Tryggingastofnun sem hafi ítrekað bent henni á búsetuskilyrðin þegar hún hafi hringt til að spyrjast fyrir um synjanirnar. Eftir fyrstu synjunina á umsókn um örorku hafi henni verið sagt að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd en þá hafi komið í ljós að hún hafi gleymt að senda inn matið frá VIRK. Henni hafi verið tjáð að það hafi líklega verið ástæða synjunar og verið bent á að sækja um á ný.

Í […] hafi kærandi verið í sambandi við einn starfsmann sem sjái um erlend mál sem hafi kannað hvort hún ætti ekki rétt á endurhæfingarlífeyri frá B en eftir frekari athugun hafi niðurstaðan verið sú að hún ætti ekki rétt á endurhæfingarlífeyrisgreiðslum frá B. Þá hafi kæranda verið ráðlagt að sækja beint um örorku þar sem það væru aðrar reglur en fyrir endurhæfingu. Kærandi hafi ekki sótt strax um örorku þar sem hún hafi verið að bíða eftir svari frá Reykjalundi. Eftir svarið frá Reykjalundi hafi heimilislæknir hennar hvatt hana til að sækja um örorku vegna óvinnufærni sinnar. Þeirri umsókn hafi einnig verið synjað.

Öllum umsóknum kæranda hafi verið synjað innan við sólarhring frá umsókn og því geri hún ráð fyrir að enginn hafi lesið gögn málsins og því síður tryggingalæknir.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segi: „Sérstaklega er horft til þess að kærandi hefur ekki verið á endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni“. Það sé vegna þess að hún hafi fengið synjun vegna búsetuskilyrða. Það hafi komið fram í bréfum Tryggingastofnunar að hún ætti að leita til síns heimilislæknis sem hún hafi og gert. Tryggingastofnun segi að það væri æskilegt að unnin væri raunhæf endurhæfingaráætlun í samstarfi við viðeigandi fagaðila. Í […] 2019 hafi heimilislæknir hennar sent inn endurhæfingaráætlun til Tryggingastofnunar. Ekki viti kærandi hversu veik hún þurfi að vera svo að það sé hlustað en hún telji sig vera nógu veika til þess að uppfylla þeirra skilyrði.

Kærandi sé með þrengslaheilkenni í öxlum. Hún hafi farið í aðgerð í […] ([…]) og sé búin að vera í sjúkraþjálfun síðan en sé í hléi núna þar sem mikil bólga sé í liðnum. Hún þurfi að fara í aðgerð á […] öxl þar sem hún sé með skerta hreyfigetu í báðum höndum. Kærandi sé með vefjagigt og sé mikið verkjuð daglega. Hún taki tvær Pregabalin á dag til að lina verki en það virki ekki nóg. Kærandi sé með mikið mígreni og hún verði að passa sig á nánast öllu sem hún geri, hvað hún borði, birtu, ljósi, hávaða og stressi. Kærandi taki fyrirbyggjandi tvær Isoptin töflur á dag sem virki vel en hún fái samt slæm köst og þá þurfi hún að taka Imigran. Kærandi sé með áfallastreituröskun vegna margra áfalla og hafi verið greind með kulnun (e. burn out) í B. Kærandi sé með geðlægðarröskun og persónuröskun, félags- og víðáttufælni, auk kvíðaröskunar. Kærandi sé að taka Sertral og sé aðeins rólegri inni í sér en hún fari ekki út úr húsi. Hún sé hrædd við að hitta annað fólk og sé með kvíða yfir öllu. Kærandi fari þó á fundi hjá félagsráðgjafa og hjá C og einnig til sjúkraþjálfara en annað geti hún ekki eins og staðan sé í dag.

Kærandi sé búin að vera í bréfaskriftum við D og E. Hún sé enn á biðlista eftir geðlækni og að komast að hjá Þraut og hafi fengið synjun hjá Reykjalundi og geðdeildinni.

Það sé eitt sem kærandi skilji ekki. Hún sé búin að fylgja öllu sem henni hafi verið sagt. Hún geti hvorki hafið endurhæfingu hjá Reykjalundi né hjá VIRK. Læknisvottorð hafi verið sent bæði til Tryggingastofnunar og lífeyrissjóðs hennar. Tryggingastofnun hafi synjað henni en lífeyrissjóðurinn hafi metið hana 100% óvinnufæra. Kærandi sé að fá um X kr. á mánuði frá lífeyrissjóðnum sem séu einu tekjurnar sem hún hafi en hún sé með barn á framfæri og þurfi að borga húsaleigu. Að koma að lokuðum dyrum alls staðar bæti ekki kvíðann og þunglyndið, hún sé alveg komin í þrot.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun stofnunarinnar á örorkulífeyri, dags. 29. ágúst og 2. september 2019.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. […]

Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.“

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. 

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Þá sé í 37. gr. laganna meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögunum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skulu staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri þann 13. febrúar 2019 og hafi verið synjað þar sem búsetuskilyrði hafi ekki verið uppfyllt.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun þann 28. ágúst og 30. ágúst 2019. Með bréfum, dags. 29. ágúst og 2. september 2019, hafi kæranda verið synjað um örorkumat samkvæmt 18. gr. og 19. gr. laga um almannatryggingar og vísað á endurhæfingarlífeyri samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð þar sem stofnunin hafi talið nauðsynlegt að láta reyna frekar á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kæmi.

Við mat á umsókn um örorkulífeyri hafi tryggingalæknir stuðst við þau gögn sem hafi legið fyrir. Við örorkumat lífeyristrygginga hafi legið fyrir umsóknir, dags. 28. og 30 ágúst 2019, svör kæranda við spurningalista, dags. X 2019, læknisvottorð, dags. X 2019, og starfsgetumat frá VIRK, dags. X. Einnig hafi verið gögn er hafi varðað eldri umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi sé kona, fædd X. Hún hafi verið með versnandi andlega líðan síðasta árið. Hún hafi verið á vinnumarkaði en sé það ekki í dag. Hún sé með vefjagigt sem sé til rannsóknar og sé slæm í öxlinni. Kærandi sé með talsverð þunglyndiseinkenni, mikinn kvíða, framtaksleysi og sjálfsvígsþanka samkvæmt læknisvottorði. Hún taki lyf við þunglyndinu og sé á biðlista hjá Þraut og bíði eftir mati geðlæknis. Hún sé í sjúkraþjálfun. 

Með bréfum stofnunarinnar, dags. 29. ágúst og 2. september 2019, hafi kæranda verið synjað um örorkulífeyri og verið vísað á að sækja um endurhæfingarlífeyri. Það sé mat Tryggingastofnunar að út frá fyrirliggjandi gögnum sé ekki tímabært að meta örorku kæranda.

Það sé mat stofnunarinnar að kærandi uppfylli ekki skilyrði um örorkumat hjá stofnuninni að svo stöddu þar sem talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda. Sé þá horft meðal annars til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé, aldurs kæranda og þeirra endurhæfingarúrræða sem séu í boði. Sérstaklega sé horft til þess að kærandi hafi ekki verið á endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni. Einnig sé horft til þess að í læknisvottorði og starfsgetumati VIRK komi fram úrræði sem kærandi sé nú þegar að nota og einnig tillögur til úrræða sem kærandi geti notfært sér. 

Í máli kæranda sé æskilegt að unnin sé raunhæf endurhæfingaráætlun í samstarfi við viðeigandi fagaðila. Tryggingastofnun hafi í báðum bréfum stofnunarinnar vísað kæranda til heimilislæknis til þess að skoða möguleg úrræði sem í boði séu. Tryggingastofnun vilji árétta að jafnvel þó að VIRK telji að kærandi henti ekki í endurhæfingu hjá þeim að svo stöddu, vísi þeir á önnur úrræði sem kærandi þurfi á að halda. VIRK telji einnig að raunhæft sé að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði og telji horfur á að endurhæfing hjá VIRK komi til greina eftir meðferð og/eða endurhæfingu innan heilbrigðiskerfisins. Sérstaklega skuli vakin athygli á því að samkvæmt gögnum málsins virðist kærandi nú þegar vera að sinna ákveðnum þáttum sem geti að minnsta kosti verið hluti af endurhæfingaráætlun.

Tryggingastofnun vilji ítreka það að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Stofnunin telji ljóst að endurhæfing sé ekki fullreynd í tilfelli kæranda.

Í ljósi þess að kæranda hafi verið synjað um endurhæfingarlífeyri þar sem hún hafi ekki uppfyllt búsetuskilyrði að svo stöddu vilji Tryggingastofnun vekja athygli á því að mat á því hvort endurhæfing sé fullreynd miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingarinnar en ekki önnur atriði eins og til dæmis búsetu kæranda eða aðrar félagslegar aðstæður. Það hafi verið margsinnis staðfest í úrskurðum úrskurðarnefndar, til dæmis í málum nr. 20/2013, 352/2017 og 261/2018.  

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja um örorkumat og vísa í endurhæfingu, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Jafnframt skuli áréttað að kærð ákvörðun hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. september 2019 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð F , dags. X 2019. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„[Depressive episode

Migraine

Impingement syndrome of shoulder

Fibromyalgia

Streituröskun eftir áfall]“

Þá segir að kærandi sé óvinnufær frá X en að búast megi við að færni muni aukast eftir læknismeðferð, endurhæfingu og með tímanum. Um heilsuvanda og færniskerðingu segir í vottorðinu:

„ára kona sem hefur verið með versnandi andlega líðan síðasta árið.

[…] Bjó í X en vegna veikinda þá hefur hún verið sjúkraskrifuð síðan í […]. Flutti til Íslands í […].

Er með greinda vefjagigt, verið að fá tauga einkenni einnig og er til rannsóknar nú hjá taugalækni, G ? atyp. mígreni.

Þá hefur hún verið slæm í öxlinni og er með klemmu þar. fór í aðgerð vegna þessa í[…]. Þarfnast sjúkraþjálfunar og er byrjuð í því.

ER á Sertral v. þunglyndis og kvíða frá […].

Talsv. áfall þegar […]Á X börn, […]

[Kærandi] er enn með talsv. þunglyndiseinkenni, mikinn kvíða, framtaksleysi og sjálfsvísþanka en það sem heldur henni gangandi eru börnin. Er á SErtral 100mg en ekki góð líðan.

Beðið eftir mati geðlæknis en löng bið.

Er á biðlista hjá Þraut.

Virk hafnaði henni í endurhæfingu þar sem hún er enn í meðferðarferli.

Er í sjúkraþjálfun.“

Fyrir liggur einnig eldra læknisvottorð F, dags. X 2019, sem fylgdi með fyrri umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri sem er að mesta samhljóða nýrra vottorði.

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni hennar. Af svörum hennar verður ráðið að hún eigi erfitt með ýmsar athafnir daglegs lífs vegna verkja og að hún eigi við geðræn vandamál að stríða.

Í starfsendurhæfingarmati VIRK, dags. X, segir að starfsendurhæfing hjá VIRK sé óraunhæf.. Í samantekt og áliti segir:

„[…] Í ljósi alvarleika andlegra og líkamlegra einkenna tel ég stafsendurhæfingu ekki tímabæra enda þarf hún mun meiri uppvinnslu og meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar áður en hún fer í starfsendurhæfingu. Mæli með tilvísun á göngudeild geðsviðs LSH m.t.t. viðvarandi sjálfsvígshugsana, þunglyndi og kvíða. [Kærandi] þarf einnig líkamlega uppvinnslu og endurhæfingu og mælt með að heimilislæknir skoði þar viðeigandi úrræði.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að meta örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál, bæði af líkamlegum og andlegum toga. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af starfsgetumati VIRK að ekki séu forsendur fyrir starfsendurhæfingu á þeirra vegum. Ekki verður dregin sú ályktun af mati VIRK að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni á öðrum vettvangi. Samkvæmt læknisvottorði F má búast við að færni kæranda aukist eftir læknismeðferð, með endurhæfingu og með tímanum. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á starfsendurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. september 2019, um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A , um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum