Hoppa yfir valmynd
11. júní 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 209/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 11. júní 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 209/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20050035

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 410/2018, dags. 9. október 2018, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. ágúst 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Íraks (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og að hann yrði endursendur til Ítalíu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 15. október 2018. Kærandi lagði fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 19. október 2018. Með úrskurði kærunefndar nr. 477/2018, dags. 8. nóvember 2018, var fallist á þá beiðni kæranda.

Þann 25. nóvember 2019 felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi úrskurð kærunefndar nr. 410/2018 og úrskurð nefndarinnar nr. 412/2018 í máli bróður kæranda. Þeim dómi var áfrýjað til Landsréttar þann 20. desember 2019. Þann 20. maí 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda og bróður hans um endurupptöku mála þeirra.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Með vísan til yfirlýsingar dómsmálaráðherra frá 31. mars 2020 um breytt mat Útlendingastofnunar á umsóknum um alþjóðlega vernd vegna Covid-19 faraldursins fara kærandi og bróðir hans fram á að íslenska ríkið falli frá áfrýjun til Landsréttar og að mál þeirra verði sett í efnismeðferð. Í ljósi framangreinds telur kærandi að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvarðanir í málum þeirra voru teknar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, og óska þeir því eftir endurupptöku á úrskurðum kærunefndar nr. 410/2018 og 412/2018.

III.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Við mat á því hvort stjórnvöld geti fjallað um og afgreitt tiltekin lagaleg álitamál sem komið hafa til umfjöllunar dómstóla reynir m.a. á valdmörk dómstóla og stjórnvalda. Samkvæmt 2. og 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 fara dómendur með dómsvaldið og skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Af ákvæðunum leiðir að dómstólar hafa endanlegt vald um lögmæti stjórnvaldsákvarðana og geta fellt þær úr gildi, m.a. vegna annmarka þeirra. Stjórnvöld eru því bundin af úrlausnum dómstóla um lögmæti stjórnvaldsákvarðana.

Líkt og að ofan er rakið felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurð kærunefndar nr. 410/2018 úr gildi þann 25. nóvember 2019. Þegar stjórnvaldsákvörðun er felld úr gildi er meginreglan sú að ákvörðunin telst þá ógild frá öndverðu (l. ex tunc). Í máli kæranda er, með hliðsjón af framangreindu, því ekki lengur fyrir að fara gild stjórnvaldsákvörðun sem hann getur beðið um endurupptöku á.

Með vísan til framangreinds er kröfu kæranda um endurupptöku úrskurðar nefndarinnar hafnað.

Í ljósi óska kæranda um að íslenska ríkið felli niður áfrýjun sína á ofangreindum dómi héraðsdóms til Landsréttar og að mál þeirra verði tekið til efnismeðferðar í framhaldi af því bendir kærunefnd á að fyrirsvar vegna tilvísaðs dómsmáls er í höndum dómsmálaráðuneytisins. Kæranda er leiðbeint um að beina þessum hluta erindis síns þangað, hafi það ekki þegar verið gert, eða óska eftir að kærunefnd framsendi erindið til ráðuneytisins.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

Request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                Bjarnveig Eiríksdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum