Hoppa yfir valmynd
14. desember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 435/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. desember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 435/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20110065

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 27. nóvember 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2020, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 8. apríl 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. ágúst 2019, var kæranda synjað um efnismeðferð. Kærunefnd útlendingamála felldi þá ákvörðun úr gildi með úrskurði sínum þann 21. nóvember s.á. og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar. Með ákvörðun, dags. 2. apríl 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærunefnd staðfesti þá ákvörðun með úrskurði, [...]. Samkvæmt gögnum málsins var beiðni um frávísun kæranda send í framkvæmd hjá stoðdeild ríkislögreglustjóra þann 6. ágúst sl. þar sem kærandi hafði ekki yfirgefið landið innan veitts 30 daga frests. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið þann 7. júlí sl. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember sl., var umsókninni hafnað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 27. nóvember sl. Þann 3. desember barst greinargerð frá kæranda ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni vísar Útlendingastofnun til og fjallar um ákvæði 51. gr. laga um útlendinga. Komi fram í 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd hér á landi teljist hafa áform um að dveljast á landinu í meira en 90 daga. Að mati Útlendingastofnunar hefði kærandi því ekki haft heimild til dvalar þegar hann lagði dvalarleyfisumsókn sína, hvorki á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar né dvalar án áritunar og uppfyllti hann því ekki skilyrði 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Að mati stofnunarinnar væru aðstæður kæranda ekki þess eðlis að beiting undantekningarheimildar 3. mgr. 51. gr. ætti við. Þá bæri að líta til þess að kæranda hefði verið birt ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd og frávísun frá landinu þann 2. apríl 2020 sem kærunefnd útlendingamála hafi staðfest með úrskurði sínum þann 2. júlí 2020, en ákvörðunin væri framkvæmdarhæf. Var umsókn kæranda því synjað á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann hafi lokið tveimur stigum í íslensku og sé nú að læra þriðja stigið. Hann vilji aðlagast og eiga samleið með íslensku samfélagi. Í dvalarleyfisumsókn kæranda kemur fram að umsókn hans byggist á sérstökum tengslum við landið en föðurbróðir hans búi hérlendis.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c lið 1. mgr. 51. gr. Varða stafliðirnir þær aðstæður þar sem umsækjandi er maki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. a-lið, barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar barnið er yngra en 18 ára, sbr. b-lið, eða þegar sótt er um dvalarleyfi á grundvelli 61., 63. eða 64. gr. laga um útlendinga.

Í 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga segir að heimild til dvalar þegar umsækjandi sé undanþeginn áritunarskyldu gildi þar til umsækjandi hafi dvalið í 90 daga á Schengen-svæðinu. Undantekningar a-c-liðar 1. mgr. gildi meðan umsækjandi hafi heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á grundvelli dvalar án áritunar. Útlendingastofnun geti veitt umsækjendum á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. heimild til lengri dvalar meðan umsókn sé í vinnslu.

Kærandi byggir dvalarleyfisumsókn sína á sérstökum tengslum við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, en föðurbróðir hans er búsettur hér á landi. Er ljóst að framangreindir stafliðir a-c liðar 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga taka ekki til slíkra tengsla. Þá uppfyllir kærandi enn fremur ekki skilyrði 2. mgr. 51. gr. enda hafði kærandi dvalið hér á landi lengur en 90 daga þegar dvalarleyfisumsókn var lögð fram auk þess sem framkvæmdarhæfur úrskurður liggur fyrir um að vísa beri kæranda frá landinu með vísan til c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. úrskurð kærunefndar [...].

Í 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að heimilt sé að víkja frá 1. mgr. 51. gr. í öðrum tilvikum en þar eru upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Í athugasemdum við 51. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að ætlunin sé að ákvæðinu sé beitt þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Í ljósi þess að um undantekningarákvæði er að ræða telur kærunefnd að almennt beri að skýra ákvæðið þröngt. Í 4. mgr. 51. gr. segir að ef umsækjandi um dvalarleyfi sem dvelur hér á landi án þess að vera undanþeginn því að sækja um leyfi áður en hann kemur til landsins skv. 1. og. 2. mgr. skuli hafna umsókninni á þeim grundvelli. Það sama eigi við ef umsækjandi kemur til landsins áður en umsókn er samþykkt.Af gögnum mála kæranda hjá kærunefnd er ljóst er að kærandi hefur búið alla sína ævi í [...] þar sem foreldrar hans og önnur fjölskylda búa.

Af heildarmati á aðstæðum kæranda verður ekki talið að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í máli hans, s.s. til að tryggja samvistir fjölskyldunnar þar sem gögn málsins benda ekki til þess að kærandi hafi önnur fjölskyldutengsl við landið en við áðurnefndan föðurbróðir sinn eða að miklir hagsmunir séu í húfi. Að öðru leyti er ekkert í gögnum málsins sem réttlætir beitingu undanþáguákvæðis 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga í máli kæranda.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar, um að synja umsókn kæranda á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga, staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

F.h. kærunefndar útlendingamála,

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir, settur varaformaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum