Hoppa yfir valmynd
29. október 2014 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að reglugerð um rannsóknir og forvarnir gegn slysum og flugatvikum í almenningsflugi

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um rannsóknir og forvarnir gegn slysum og flugatvikum í almenningsflugi. Með henni er innleidd EES-gerð, þ.e. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 996/2010 frá 20. október 2010 um rannsóknir og forvarnir gegn slysum og flugatvikum í almenningsflugi og um niðurfellingu á tilskipun 94/56/EB). Unnt er að senda athugasemdir og ábendingar um drögin á netfangið [email protected] til og með 10. nóvember næstkomandi.

Markmið reglugerðar 996/2010 er að tryggja hátt, almennt öryggi í almenningsflugi í Evrópu í þeim tilgangi að fækka slysum og flugatvikum. Þáttur í því er að sjá til þess að öryggisrannsóknir á slysum og flugatvikum í almenningsflugi fari fram á skjótan og skilvirkan hátt. Mælir reglugerðin fyrir um hvernig staðið skuli að slíkum rannsóknum.

Reglugerðin leggur þá skyldu á aðildarríki EES að rannsaka öll slys og alvarleg flugatvik sem tengjast loftförum sem verða á yfirráðasvæði þeirra. Í þeim tilvikum sem ekki er hægt að staðsetja nákvæmlega hvar slysið eða alvarlega flugatvikið átti sér stað skal það ríki sem loftfarið er skráð í annast rannsóknina. Hér á landi er þetta hlutverk falið Rannsóknarnefnd samgönguslysa, sem starfar skv. lögum nr. 18/2013 og reglugerð nr. 763/2013.

Reglugerðin kveður einnig á um stofnun samstarfsnets evrópskra yfirvalda öryggisrannsókna í almenningsflugi (European Network of Civil Aviation Safety Investigation Authorities, ENCASIA). Markmið samstarfsnetsins er að stuðla að því að bæta enn frekar gæði rannsókna flugslysa og flugatvika og hvetja til að gerðar verði strangar kröfur um rannsóknaraðferðir og þjálfun rannsakenda. Rannsóknarnefnd samgönguslysa tekur þátt í starfi samstarfsnetsins sem áheyrnaraðili, ásamt Noregi og Kosóvó.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira