Hoppa yfir valmynd
20. desember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 566/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. desember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 566/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18100038 og KNU18100039

Kærur [...] og [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með kæru, dags. 22. október 2018, kærðu [...] (hér eftir K), fd. [...] og [...] (hér eftir M), fd. [...], ríkisborgarar [...] (hér eftir nefnd kærendur), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 9. október 2018, um brottvísun og endurkomubann til landsins í tvö ár.

Kærendur krefjast þess ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi.

Fyrrgreindar ákvarðanir voru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæra fyrir lok kærufrests.

Í ljósi þess að málsatvik, málsástæður og kröfur kærenda í málum KNU18100038 og KNU18100039 eru sambærilegar, kærendur eru í hjúskap og ákvörðun Útlendingastofnunar er sú sama í málum þeirra beggja verður kveðinn upp einn úrskurður í báðum málum.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 14. apríl 2017 en umsóknunum var synjað með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 24. janúar 2018. Kærunefnd útlendingamála staðfesti þær ákvarðanir með úrskurðum sínum þann 22. febrúar 2018. Með úrskurðum kærunefndar var kærendum veittur sjö daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug. Engin gögn bárust Útlendingastofnun um að kærendur hefðu yfirgefið landið innan frestsins. Þann 6. september 2018 tilkynnti Útlendingastofnunin kærendum um hugsanlega brottvísun og endurkomubann til Íslands vegna ólöglegrar dvalar hér á landi, sbr. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, og var kærendum veittur fimm daga frestur frá birtingu tilkynningarinnar til að leggja fram skriflega greinargerð. Að auki gafst þeim kostur á að yfirgefa landið af sjálfsdáðum innan sama frests. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. október 2018, var kærendum vísað brott frá Íslandi og bönnuð endurkoma í tvö ár, sbr. a-lið 1. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Var ákvörðunin birt kærendum þann sama dag. Kærendur kærðu ákvörðunina þann 22. október 2018 og greinargerð barst kærunefnd þann 5. nóvember sl. Í kæru óskuðu kærendur eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. október 2018, á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 29. október sl. féllst kærunefndin á þá beiðni. Kærendur yfirgáfu landið þann 25. nóvember sl. til heimaríkis.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar var vísað til þess að fyrirhugað hefði verið að kærendum yrði fylgt úr landi af stoðdeild embættis ríkislögreglustjóra þann 9. maí 2018 en áður en til flutnings kom hafi kærendur horfið og skilið eftir skilaboð um að þau hefðu yfirgefið landið. Samkvæmt gögnum málanna væri hins vegar ljóst að kærendur væru stödd hér á landi og hefðu ekki sýnt fram á að þau hefðu yfirgefið landið. Samkvæmt gögnum málanna séu kærendur undaþegnir áritunarskyldu til landsins en þar sem þau hafi sótt um alþjóðlega vernd og verið synjað sé dvöl þeirra hérlendis ólögmæt. Hafi kærendur ekki yfirgefið landið innan veitts frests og séu enn stödd hér á landi. Væru skilyrði a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga því uppfyllt og þá hefði ekkert komið fram í málinu sem leiddi til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kærendum gæti talist ósanngjörn gagnvart þeim eða nánustu aðstandendum þeirra, sbr. 3. mgr. 102. gr. laganna. Var ákvörðun Útlendingastofnunar sú að brottvísa kærendum og með hliðsjón af 2. mgr. 101. gr. var lengd endurkomubanns ákveðin tvö ár.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærendur byggja á því að Útlendingastofnun hafi ekki gætt að rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins við töku ákvarðana sinna. Þá hafi kærendur, vegna misskilnings, talið sig mega dvelja á landinu. Hafi K sótt um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og talið sig vera í lögmætri dvöl á meðan. Vegna þess hafi þau ákveðið að vera ekki á staðnum þegar lögreglan hafði samband við þau til að undirbúa brottför þeirra af landinu. Þá kemur fram að þau óttist að snúa aftur til [...] vegna hótana og ofbeldis sem þau hafi þurft að þola af hálfu fyrrum sambýlismaka K. Hafi þau ástæðuríkan ótta að hann muni beita þau enn frekari hótunum og ofbeldi og þá geti þau ekki treyst því að fá vernd hjá yfirvöldum í [...]. Telja kærendur að Útlendingastofnun hafi við töku ákvörðunar sinnar ekki litið nægilega til 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá hafi stofnunin ekki kannað með viðhlítandi hætti þær aðstæður sem séu uppi í málinu, m.a. ástæðuríkan ótta þeirra við að snúa aftur til [...].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er útlendingi, sem ekki þarf vegabréfsáritun til landgöngu, heimilt að dveljast hér í 90 daga frá komu til landsins. Þá segir í 1. mgr. 50. gr. laganna að útlendingur sem hyggist dvelja hér á landi lengur en honum sé heimilt skv. 49. gr. þurfi að hafa dvalarleyfi. Heimildir til brottvísunar einstaklings sem ekki er með dvalarleyfi hér á landi er að finna í 98. gr. laganna.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann dvelst ólöglega í landinu. Þá segir í a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að, svo framarlega sem 102. gr. eigi ekki við, skuli vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna.

Kærendur komu hingað til lands og sóttu um alþjóðlega vernd 14. apríl 2017 sl. Með úrskurðum kærunefndar, dags. 22. febrúar 2018, var umsóknum þeirra synjað og kærendum veittur sjö daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug. Fyrir liggur að kærendur yfirgáfu ekki landið innan frestsins. Samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar var fyrirhugað að kærendum yrði fylgt úr landi af stoðdeild embættis ríkislögreglustjóra þann 9. maí sl. en áður en til flutnings kom hafi kærendur horfið og skilið eftir skilaboð þess efnis að þau hefðu yfirgefið landið. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hefðu kærendur ekki yfirgefið landið. Með tilkynningu Útlendingastofnunar, dags. 6 september 2018, var kærendum veittur fimm daga frestur til að leggja fram skriflega greinargerð vegna hugsanlegrar brottvísunar og endurkomubanns til Íslands. Að auki gafst þeim kostur á að yfirgefa landið af sjálfsdáðum innan sama frest. Ljóst er að kærendur yfirgáfu ekki landið innan veitts frests.

Af gögnum málsins er ljóst að kærendur hafa aldrei dvalið hér á landi á grundvelli útgefins dvalarleyfis. Við töku ákvörðunar Útlendingastofnunar þann 9. október sl. var skilyrðum a-liðar 1. mgr. 98. gr. því fullnægt. Þá var kærendum í tvígang veittur frestur til að yfirgefa landið, þ.e.a.s. í úrskurðum kærunefndar útlendingamála frá 22. febrúar 2018 og í bréfi til þeirra frá Útlendingastofnun frá 6. september sl. Kærendur yfirgáfu hins vegar ekki landið fyrr en 25. nóvember 2018. Er skilyrði a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga því fullnægt.

Í 102. gr. laga um útlendinga er m.a. kveðið á um vernd gegn brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun en skv. 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots, tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans.

Í greinargerð vísa kærendur m.a. til þess að þau hafi óttast að snúa aftur til [...] vegna hótana og ofbeldis sem þau hafi þurft að þola af hálfu fyrrum sambúðarmaka K. Í úrskurði kærunefndar útlendingamála í málum kærenda frá 22. febrúar 2018 kemur m.a. fram sú niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi raunhæfa möguleika á því að leita ásjár stjórnvalda í [...] vegna ótta við ofbeldi af hálfu fyrrum sambúðarmaka K en í úrskurðinum var umsóknum kærenda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða synjað. Að mati kærunefndar eru aðstæður kærenda í heimaríki ekki þess eðlis að brottvísun þeirra feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart þeim. Þá liggur fyrir að kærendur hafa fengið nægt ráðrúm til að yfirgefa landið í samræmi við ákvarðanir stjórnvalda þar að lútandi en í því sambandi telur kærunefnd ekki hafa þýðingu hvaða leiðbeiningar lögmaður veitti kærendum á fyrri stigum máls þeirra. Jafnframt verður ekki talið að kærendur hafi haft réttmætar væntingar til áframhaldandi dvalar í landinu eftir að K lagði fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi.

Samkvæmt framansögðu verða staðfestar ákvarðanir Útlendingastofnunar um brottvísun kærenda með vísan til a-liðar 1. mgr. 98. gr. og a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda dvöldu þau ólöglega í landinu og yfirgáfu landið ekki innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna. Þá verða ákvarðanir Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. jafnframt staðfestar, en samkvæmt ákvæðinu skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár.

Athygli kærenda er vakin á því að samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga má samkvæmt umsókn fella úr gildi endurkomubann hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar er staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                           Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum