Hoppa yfir valmynd
6. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mikilvægt að ljúka heildarendurskoðun laga um almannatryggingar

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að skipa nefnd til að ljúka heildarendurskoðun almannatrygginga og gera drög að frumvarpi til nýrra laga um lífeyrisréttindi. Miðað er við að starfsgetumat komi í stað örorkumats og að skoðaðir verði kostir og gallar þess að auka möguleika fólks til sveigjanlegra starfsloka ásamt einföldun á lífeyriskerfinu. 

Ákvörðun ráðherra um að skipa nefnd um heildarendurskoðun laga um almannatryggingar hefur verið kynnt á fundi ríkisstjórnar. Verkefni hennar verður tvíþætt og felst annars vegar í innleiðingu starfsgetumats í stað örorkumats, hins vegar er nefndinni ætlað að fjalla um fjárhæðir lífeyrisgreiðslna til aldraðra og öryrkja og skila drögum að frumvarpi að nýjum lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga.


Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir mikilvægt að ljúka heildarendurskoðun laga um almannatryggingar: „Almannatryggingar eiga að vera bæði öryggisnet og um leið stuðningsnet til að hjálpa fólki til sjálfsábyrgðar, bættrar heilsu og virkrar þátttöku í samfélaginu.  Vonast ég til að við getum á næsta ári lagt fram frumvarp sem felur í sér betra fyrirkomulag þessara mála.“

Í mars 2007 kom út
skýrsla nefndar um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar með stóraukna áherslu á endurhæfingarúrræði að leiðarljósi, til að fyrirbyggja ótímabæra skerðingu á starfsorku. Þar er lagt til að breytingar verði gerðar á skilgreiningu á örorku og rétti til örorkulífeyris og viðmiðanir um örorkumat í almannatryggingakerfinu og lífeyrissjóðakerfinu verði samræmdar. Einnig er lagt til að skilið verði milli mats á þörf einstaklingsins fyrir stoðþjónustu og mats á getu hans til að afla tekna.

Miðað er við að nefnd félags- og húsnæðismálaráðherra byggi á þessum tillögum og hafi enn fremur hliðsjón af skýrslu faghóps um aðferðir við mat á starfshæfni; Drög að starfshæfnismati sem kom út í september 2009.

Endurskoðun bóta og sveigjanleg starfslok

Nefnd félags- og húsnæðismálaráðherra er einnig ætlað að fjalla um fjárhæðir lífeyrisgreiðslna til aldraðra og öryrkja. Byggt verður á þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram í tengslum við heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins. Fjárhæðir lífeyrisgreiðslna verða metnar metnar með hliðsjón af almennri launaþróun og þróun lægstu launa og möguleikar til hækkunar bóta til lengri tíma litið kannaðir með tilliti til stöðu ríkissjóðs. Nefndinni verður einnig falið að kanna kosti og galla þess að hækka lífeyrisaldur í áföngum með hugsanlegum breytingum á ávinnslu réttinda ásamt því að auka möguleika fólks til sveigjanlegra starfsloka. 

Lögð er áhersla á mikilvægi þess að nefndin líti í ríkum mæli til samspils almannatrygginga og lífeyrissjóða og að þessar tvær meginstoðir lífeyristrygginga vinni vel saman. Einnig er reiknað með að höfð verði hliðsjón af fyrirkomulagi lífeyrismála í Evrópu og reynslu af breytingum á lífeyristryggingakerfum þeirra þjóða á undanförnum árum.

Einfaldari og skýrari löggjöf

Nefndinni verður falið að skila félags- og húsnæðismálaráðherra áfangaskýrslu fyrir næstu áramót. Miðað er við að hún ljúki störfum fyrir 1. júní 2014 og skili þá drögum að frumvarpi um ný lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum