Hoppa yfir valmynd
7. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Auglýst eftir húsnæði fyrir Barnahús

Barnahús
Barnahús

Óskað er eftir rúmlega 400 fermetra húsnæði á höfuðborgarsvæðinu til kaups eða leigu undir starfsemi Barnahúss. Tilboðum skal skila til Ríkiskaupa eigi síðar en miðvikudaginn 25. september næstkomandi.

Barnahús var opnað í nóvember árið 1998 í Sólheimum 17 í Reykjavík. Þar er sinnt málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi og er reksturinn er á vegum Barnaverndarstofu sem fer með stjórn barnaverndarmála í umboði velferðarráðuneytisins. Notkun þessa úrræðis hefur aukist mikið frá því að Barnahús var stofnað og þörf fyrir stærra húsnæði er orðin brýn. 

Núverandi húsnæði Barnahúss er 254 fermetrar. Þar fara fram skýrslutökur fyrir dómi að beiðni dómara þegar lögregla fer með rannsókn máls, könnunarviðtöl að beiðni barnaverndarnefnda ef þörf er á þegar ekki er óskað eftir lögreglurannsókn, sérhæfð greining til að meta hugsanlegar afleiðingar kynferðisofbeldisins á barnið og fjölskyldu þess og meðferð. Á vegum Barnahúss fer einnig fram ráðgjöf og fræðsla með leiðbeiningum til þeirra sem þarfnast upplýsinga vegna gruns um kynferðisofbeldi. Í Barnahúsi er einnig aðstaða fyrir læknisskoðun.

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherraEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir algjörlega nauðsynlegt að starfsemi Barnahúss komist í húsnæði sem henti starfseminni: „Það er orðið brýnt að fjölga starfsfólki og bæta allar aðstæður svo hægt sé að sinna þessum erfiðu verkefnum á sem bestan hátt með hagsmuni barnanna í fyrirrúmi. Ég bind því miklar vonir við að Barnahús verði komið í nýtt og betra húsnæði áður en langt um líður“ segir Eygló Harðardóttir. Sem fyrr segir skal skila tilboðum til Ríkiskaupa eigi síðar en miðvikudaginn 25. september næstkomandi. Æskilegur afhendingartími húsnæðis frá undirritun samninga er um tveir mánuðir. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum